Bára Norðfjörð Guðmundsdóttir fæddist 7. september 1936. Hún lést 1. mars 2017.

Útför Báru Norðfjörð fór fram 10. mars 2017.

Elsku amma.

Ég kveð þig með sorg í hjarta, en jafnframt með óendanlegu þakklæti. Þakklæti fyrir allt sem lífið bauð okkur upp á. Við höfum gengið í gegnum gleði, hlátur, sorg og grát. Atburði sem lífið sýndi okkur og kenndi að við erum ein heild, þú, ég og fjölskyldan í kringum okkur hér, sama hvernig allt fer.

Enginn veit hvað hann átt hefur fyrr en misst hefur. Þessi orð eru þung í huga mér, sem ég ber, ég myndi óska þess að þú værir hér. Ég myndi óska þess að þú værir hér þannig að ég gæti sagt þér það sem í brjósti ég ber. Allt sem ég átti eftir að segja þér en ekki sagði, Guð einn veit af hverju ég þagði. Ég veit þó að ég þarf ekki að segja þér, því þú veist nú þegar margt sem orð úr munni mínum höfðu ekki sagt. Ég fékk að upplifa hinstu kveðju með þér, það hlýjar mér, ég geng sátt frá þér.

Minningarnar um æsku þar sem þú ert mér við hlið ylja mér, munu ávallt hlýja mér ef eitthvað bjátar á hjá mér. Tíminn sem við fengum saman ómetanlegur er ég mun aldrei gleyma það sem eftir er.

Ég elska þig, ég veit að þú veist það og á sama tíma vil ég þakka þér fyrir allt. Ég elska þig, takk fyrir allt.

Nú ertu hjá guði ein og sér,

við sitjum eftir hér.

Ég vona að þér líði vel,

og ert umvafinn bleikri skel.

Við elskum þig öll og söknum,

við upplifum sorg í okkar hjörtum.

Einn daginn sameinumst við á ný,

það leikur enginn vafi á því.

Megi guð vernda og passa þig,

og einnig mig.

(E.B.E)

Þín

Erla Björg Eyjólfsdóttir.

Elsku fallega yndislega amma mín.

Þegar ég hugsa um þig berast mér ótal minningar. Alveg frá því ég var lítil stelpa og gullfiskurinn minn dó því ég hafði hann úti í glugga í sólinni.

Ég var alveg miður mín og brotnaði niður. Þú varst ekki lengi að koma að þerra tárin og kaupa nýjan gullfisk handa mér. Allar sundferðirnar okkar saman, alla mína barnæsku, þegar ég var alltaf að monta mig af því að geta haldið á þér í sundi, ég væri svo sterk. Allar þær nætur sem ég gisti hjá þér og afa.

Næturnar sem ég gisti hjá þér þegar Tumi lést. Við héldum utan um hvor aðra og grétum. Við hlustuðum á lagið í fjarlægð og grétum. En við glöddumst líka og hlógum. Við vorum alltaf svo nánar. Við vorum alltaf svo miklar vinkonur. Þú varst svo skemmtileg, svo mikill húmoristi og alltaf stutt í brosið þitt og hláturinn. Ég trúi því ekki að þú sért farin, elsku amma mín. Ég sakna þín alltaf og mun alltaf sakna þín. Ég mun ylja mér við allar þær minningar sem við eigum saman.

Ég mun gráta og ég mun hlæja. „Ég kem alltaf aftur“ var uppáhaldssetningin okkar því við sögðum hana alltaf við hvor aðra. Ég kom alltaf aftur. Ég mun koma aftur en þú þarft að bíða svolítið eftir mér í þetta skiptið. Tveimur dögum eftir að þú kvaddir okkur dreymdi mig þig. Það var góður draumur. Ég veit að þú ert komin á betri stað og að þér líður vel. Ég lofa að hugsa vel um afa.

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur,

og fagrar vonir tengir líf mitt við.

Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum, ljúfum, dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm, er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist, meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hallstað.)

Ég elska þig af öllu mínu hjarta, elsku amma mín.

Þín

Heiðdís.

Elsku hjartans besta amma mín.

Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur.

Ég held fast í allar minningar okkar saman og geymi þær í hjarta mínu. Allar sundferðirnar og rólóferðirnar liggja fast í minni mínu, það var alltaf best að fara með ömmu í sund og fá pylsu eða kleinuhring eftir á. Þú varst svo mikill gleðigjafi og alltaf brosandi og endalaust var hægt að hlæja með þér. Þú varst svo fyndin og það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og fá gott ömmuknús og nýja ullarsokka sem þú varst búin að prjóna. Það var svo yndisleg stund þegar ég sá þig síðast á spítalanum. Ylfa Dís, dóttir mín, vildi gefa þér koss og knús þegar við vorum að fara og man ég hvað það kom stórt og fallegt bros hjá þér og gafst þú henni koss og knús. Er ég þakklát fyrir að dóttir mín fékk að kynnast yndislegu langömmu sinni. Ég kyssti þig líka bless og knúsaði þig fast. Mikið sakna ég þín. Hvíl í friði, yndislega amma mín. Ég mun aldrei gleyma þér og verður þú alltaf í hjarta mínu. Guð geymi þig, fallegi engill.

Elska þig amma mín, þín

Heiðrún Eva.

Elsku besta amma mín. Ég vil ekki trúa því að þú sért farin frá okkur. Það er svo mikil sorg í hjarta mínu, svo mikil tómleiki að hjartað mitt er í molum. Þú ert svo stór partur af lífi mínu. Ég er svo þakklát fyrir allan þann tíma sem við náðum saman og þær góðu minningar sem við sköpuðum saman. Þakklát að Maren Dögg hafi fengið að kynnast langömmu sinni og eignast sínar eigin minningar og sögur til að deila með systur sinni. Mín kærasta minning er þegar þú kenndir mér bænirnar mínar sem barn. Við lágum uppi í rúmi saman þegar ég gisti hjá þér. Við sungum, spjölluðum og hlógum mikið, að lokum var farið með bænirnar. Eftir bænirnar átti ekki að tala heldur fara beint að sofa. En alltaf varð ég að segja eitthvað, alla vega eitt orð og var það alltaf jafn fyndið. Því þá þurftum við að fara aftur með bænirnar. Við enduðum oft á að fara með Faðir vorið og syngja Ó Jesús bróðir besti mörgum sinnum áður en loks var hægt að segja góða nótt og fara að sofa. Ég vildi bara ekki fara að sofa. Það var bara svo gott að kúra í ömmubóli, að kúra í ömmu fangi var það besta í heimi.

Elsku amma mín, nú förum við með bænirnar saman í síðasta skipti þar til við hittumst aftur.

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki,

verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

og fyrirgef oss vorar skuldir,

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið,

mátturinn og dýrðin

að eilífu. Amen.

Mikið sakna ég þín, ég elska þig. Góða nótt, amma mín. Þín,

Guðrún Ósk.

Það er erfitt að trúa því að elsku mamma mín sé ekki lengur með okkur, við sem áttum eftir að bralla svo margt saman og vorum búnar að ákveða að fara í bústaðinn í sumar í dekurferð. Þó svo að ég hafi ekki alist upp að öllu leyti hjá mömmu þá á hún stórt pláss í hjarta mínu.

Þegar ég var lítil stúlka var ég svo oft hjá ömmu og afa því mamma var að vinna mikið og Sigga amma alltaf heima með rósóttu svuntuna sína ýmis að steikja kleinur eða prjóna lopapeysur svo Svana litla ílengdist hjá ömmu og afa og fékk þar kærleiksríkt uppeldi.

Það eru ótalmargar fallegar og skemmtilegar minningar sem ég á með mömmu eins og fyrsta bíóferðin mín í Gamla bíó á söngvamynd með Mario Lansa, ó sóló míó bjóddu mér í bíó sungum við mamma, þá varð ég ákveðin í því að verða söngkona, ég varð svo heilluð. Móðir mín var falleg kona, skemmtileg, músíkölsk og barngóð og vann með börnum mesta hluta ævinnar.

Það skemmtilegasta við mömmu var hvað hún var með sérstakan húmor, sama hvort hún lægi veik á spítala þá gat hún alltaf sprellað og gert grín. Ég er svo þakklát fyrir síðustu tvö árin, það má eiginlega segja að ég hafi kynnst henni mun betur, ég sá það líka betur og betur hvað við vorum líkar á margan hátt, sömu grallararnir allavega.

Eftir að Tumi bróðir bróir minn dó þá hittumst við oftar og áttum góðar stundir saman. Það var mikill missir fyrir mömmu og Villa þegar Tumi kvaddi okkur, hann var þeim svo mikill styrkur því hann hugsaði svo vel um þau og voru þau mikið háð honum. Einn daginn fór ég með mömmu í búðaráp, við fórum af stað rétt yfir hádegi og komum ekki heim fyrr en um kvöldmat, það átti að skíra eitt barnabarnið og mamma ætlaði að fá sér eitthvað sætt. Þá klæddi ég mig í hverja flíkina af annarri og var með tískusýningu fyrir mömmu svo var að kaupa naglalakk, háralit, varalit og skartgripi við skyrtuna. Þessum degi gleymi ég aldrei, við vorum eins og litlar stelpur og enduðum daginn með pylsu og kók.

Mikið á ég, og við öll, eftir að sakna þín, elsku mamma, ég vil þakka þér fyrir allar stundirnar okkar saman og fyrir að vera börnum mínum góð amma.

Ég elska þig að eilífu, Guð geymi þig í ljósinu mamma mín.

Svanhildur Norðfjörð Erlingsdóttir.

Kveðjustundin er runnin upp. Við vissum öll hvað þú varst orðin veik og máttfarin en samt var það svo mikið högg þegar fregnin kom. Nóttina sem þú kvaddir lá ég andvaka og í gegnum huga minn fóru minningar um þig. Þessar minningar eru eins og gull í hjartanu mínu núna og þú hafðir meiri áhrif á mig en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég var svo heppin að vera mikið í kringum þig sem barn og unglingur. Oft lágum við, krakkaskarinn, í einni kös uppi í hjónarúminu þínu og þá var mikið grínast, spjallað og hlegið.

Ég á óteljandi minningar úr sundferðum á helgarmorgnum en þá mættir þú heim til barnanna þinna eldsnemma um helgar og sóttir okkur barnabörnin til að fara með okkur í sund. Þannig fengu ungu foreldrarnir að sofa aðeins út. Eftir sundið þá þurfti að fóðra alla ungana og fengum við öll „buddu“ eins og við kölluðum það, eða pylsu á eftir. Því næst fórum við í heimsókn til Siggu ömmu.

Sjálf varstu að vinna innan um börn alla daga á gæsluvöllum Reykjavíkur. Þar sá ég hvað þú varst ofboðslega kærleiksrík mannvera. Í minningunni sé ég þig taka lítil, köld og grátandi krútt í fangið, þerra tárin þeirra, snýta þeim og hugga. Elstu strákarnir mínir voru það heppnir að fá að upplifa róló- og sundferðir með þér.

Ég á fallegar minningar frá jólunum með þér, þegar við komum öll til þín og afa í mat á aðfangadagskvöld og þar var sko fjölmennt og glatt á hjalla. Það voru skemmtileg jól með allt fólkið sitt í kringum sig. Ég á líka minningar frá útilegum og á þeim tíma þá svaf fólk í gömlu, góðu, gulu tjöldunum. Þá var hitað upp og eldað með prímus. Svo sátu allir saman úti, spjölluðu og sungu. Sumarbústaðaferðirnar voru nokkrar og þá var nú heiti potturinn vinsæll og amma oft ein með allan barnahópinn ofan í.

Þegar ég var unglingur bjó ég um tíma hjá þér og afa. Á þeim tíma áttum við öðruvísi stundir saman. Þá vorum við meira að spjalla og þá varstu meira eins og vinkona mín. Það voru yndislegar stundir. Þú varst alltaf svo hress, kraftmikil og mikill grínisti enda gátum við grínast mikið saman. Þú hélst í þessa gleði allt til dauðadags, þó að þér liði ekki vel, þá reyndir þú alltaf að vera hress. Vináttan var líka mikilvæg í þínu lífi. Þið voruð samrýndar fjórar vinkonurnar og það er núna að saxast enn meir á hópinn ykkar. Það er ekki langt síðan þið Dídí láguð á hjartadeildinni á sama tíma og vorum við í fjölskyldunni að spá í að fá sérherbergi fyrir ykkur, bara svo þið gætuð verið saman í friði, því þið gátuð spjallað svo mikið saman og hlegið dátt. Við sem komum í heimsókn héldum að við værum að koma til að stytta ykkur stundir eða að reyna að gleðja ykkur, en það fór nú oft á hinn veginn og yfirleitt kvaddi ég ykkur skellihlæjandi. Þannig ætla ég að minnast þín, elsku amma mín.

Ég ætla að minnast kærleikans og hlátursins. Ég þakka fyrir öll árin okkar saman og ég þakka fyrir að nú ertu laus úr viðjum veikindanna. Minning þín verður ljós í lífi mínu.

Hvíl í friði, elsku amma mín, takk fyrir allt og allt. Þín

Heiða.

mbl.is/minningar

Þökk sé þessu lífi

hve það var mér örlátt

af því hlaut ég augun

opna ég þau bæði

sé og sundurgreini

svart frá hinu hvíta

og efst í hæðum

sé ég himin þakinn stjörnum

í mannhafinu

manninn sem ég elska.

Þökk sé þessu lífi

hve það var mér örlátt

heyrnina af því hlaut ég

heyri daga og nætur

engisprettur óma

eða fugla syngja

dyn í vélum, hundgá,

hamarshögg og regnið

og mjúka róminn

mannsins sem ég elska.

Þökk sé þessu lífi

hve það var mér örlátt

hlaut ég af því hljóðin

hlaut ég einnig stafróf

eignaðist ég orðin

um allt það sem ég hugsa

móðir, vinur, bróðir

– eru ljós sem lýsir

þá grýttu braut

er gengur sál þín eftir.

Þökk sé þessu lífi

hve það var mér örlátt.

Vegferð hlaut ég harða

handa þreyttum fótum

yfir óvæð síki

arkaði um borgir

vítt um strendur, fjöll,

um óbyggðir og engi

til þín heim

í hús við völlinn græna.

Þökk sé þessu lífi

hve það var mér örlátt

af því hlaut ég hjarta

hrærist það að rótum

er ég sé hvern ávöxt

elur hugsun mannsins

og allt sem gott er

svo víðsfjarri því vonda

er lít ég í þín

augun undurskæru.

Þökk sé þessu lífi

hve það var mér örlátt

hlaut ég af því hlátur

hlaut ég einnig tregann

til að greint ég gæti

gleðina frá harmi

þetta tvennt sem elur

alla mína söngva

og söngvar mínir eru ykkar söngvar

og söngvar allra eru sömu söngvar

– og söngvar mínir eru ykkar söngvar

– og söngvar allra eru sömu söngvar.

(Violeta Paara. Þýð. Þ. Eldjárn)

Bára, takk fyrir lífið sem þú gafst okkur.

Sigurður H. Einarsson,

Laufey Karlsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Elsku amma okkar, Guð geymi þig í ljósinu. Minning þín lifir í hjörtum okkar.
Þínir,
Egill Örn,
Atli Már,
Yngvi Jóhann,
Helgi Aron.