Eiríkur Þorgeirsson fæddist 24. júlí 1927 á Fjalli, Skeiðahr., Árn. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 6. mars 2017.

Foreldrar hans voru Þorgeir Jóhannesson bóndi, f. 24. sept. 1894 á Skriðufelli, Gnúpverjahr., d. 9. feb. 1984, og Sigríður Eiríksdóttir húsfreyja, f. 24. nóv. 1896 í Hraunbæ, Álftavershr., d. 3. jan 1996.

Systkini Eiríks eru: Jóhanna Margrét, f. 6. sept. 1926, maki Óskar Sumarliðason, f. 25. júní 1920, d. 1. júní 1971. Gunnar Kristinn, f. 15. júlí 1928, d. 1. des. 1943. Sigríður Ófeigs, f. 16. júní 1930, maki Sumarliði Bárðarson, f. 18. júní 1930 (þau skildu). Maki 2: Óttar Gunnlaugsson, f. 3. okt. 1931. Siggeir, f. 28. júní 1932, d. 4. sept. 2007. Kjartan Jóhannes, f. 7. okt. 1934, d. 8. júní 2014, maki Sólborg Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 16. sept. 1939.

Eiríkur kvæntist Öldu Sigurrós Joenssen 3. nóv 1962. Þau skildu. Foreldrar hennar voru Hans Sigurd Joenssen og Unnur Bjarnadóttir Jenssen. Börn þeirra eru: Sigríður Eiríksdóttir, f. 29. júní 1962. Maki Þorkell Þorkelsson, f. 25. jan. 1957. Þau eiga tvær dætur, Freyju, f. 22. júlí 1981, og Hrönn, f. 23. okt. 1985. Gunnar Kristinn, f. 20. mars 1964, maki Magga S. Brynjólfsdóttir, f. 11. okt. 1964, þau eiga þrjá syni. Atli, f. 8. des. 1985, Elvar, f. 9. ágúst 1987, og Bragi, f. 25. júní 1991.

Alda eignaðist þrjú önnur börn: Jóh. Unnar Guðmundsson, f. 14. sept. 1956, Sigurð Hans Jónsson, f. 4. jan. 1959, og Ernu Björk Baldursdóttur, f. 20. ágúst 1979.

Eiríkur lauk prófi frá Héraðsskólanum Laugarvatni 1947, fór að vinna við húsasmíðar og lauk svo námi frá Iðnskólanum á Selfossi 1952. Hann vann samfellt við húsbyggingar til ársins 1962 er hann tók við búi foreldra sinna í Túnsbergi og stundaði búskap til ársins 1991. Síðustu níu árin var hann í félagsbúi með syni sínum Gunnari og tengdadóttur. Eftir að hann hætti búskap greip hann í smíðar vítt og breitt um sveitina. Eiríkur gekk ungur í Ungmennafélag Hrunamanna og var ritari stjórnar í 29 ár. Hann var mikill íþróttamaður og keppti í langhlaupum um árabil þar sem hann náði mjög góðum árangri. Hann starfaði í sóknarnefnd og var meðhjálpari í Hrunakirkju í hátt í 40 ár. Jafnframt söng hann í kirkjukórnum í 60 ár og fleiri kórum og gegndi stjórnarstörfum þar. Hann var félagi í Kiwanisklúbbnum Gullfossi frá stofnun og gegndi þar embætti ritara, forseta, féhirðis og svæðisstjóra. Eiríkur flutti með foreldrum sínum í Túnsberg tveggja ára og bjó þar alla tíð utan síðustu sjö mánuðina sem hann bjó í elliheimilisíbúð á Flúðum.

Útförin fer fram frá Hrunakirkju í dag,11. mars 2017, klukkan 14.

Þegar ég kom með Gunnari í Túnsberg fyrir 34 árum, tók á móti mér lítill, grannur maður með stórar hendur, Eiríkur tilvonandi tengdafaðir minn.

Ef hægt er að lesa manngerð af höndum fólks voru þessar hendur dæmi um það. Stórar, grófar, ekkert sérlega vel snyrtar og alþaktar sárum. Ég komst fljótlega að ástæðunni. Eiríkur sat ekki auðum höndum að óþörfu og það var gengið í öll verk líkt og um kapphlaup væri að ræða. Hlaupið á milli staða, verkfærin borin á öxlunum og ekki verið að kalla á aðstoð þó að hún væri innan seilingar. Kapphlaupið var Eiríki í blóð borið og gilti þá einu hvort um var að ræða íþróttir, vinnuna eða bara lífið sjálft, það mátti engan tíma missa. Og þannig var það fram á síðasta dag.

Við Gunnar bjuggum hjá Eiríki og svo hann hjá okkur í samtals 20 ár. Það kallar á umburðarlyndi hjá öllum aðilum. Afinn þurfti að sætta sig við að ungt fólk ryddist inn á heimili hans með ólíkar hefðir og kröfur, passa í tíma og ótíma, hlusta á barnsgrát og svo síðar dúndrandi hávaða í tónlist unglinganna. Óumdeild forréttindi sona okkar voru að fá að alast upp með afa sínum. Ég lærði það fljótt að vera ekki að ergja mig á því að biðja tengdaföður minn að bæta úr einstaka atriðum sem fóru fyrir brjóstið á mér, svarið var ævinlega: „Já vina mín, ég veit það“ og svo hélt hann áfram sínu striki, engar rökræður eða mótbárur. Með árunum varð þetta einn af afabröndurunum í Túnsbergi. Einnig að hann var búinn að klára smákökurnar löngu fyrir jól, laumast í rabarbarasultuna – notuð út á allt – og að finna strásykur í öllum hornum varð með tímanum skemmtilega afalegt og nær að horfa á atriði eins og afa með litla stráka í fanginu lesa sömu söguna aftur og aftur, segja þeim sögur frá í „gamla daga“ og saga fyrir þá spýtur í kassabíla.

Ég mun minnast Eiríks fyrir einstakan dugnað og lífsvilja, alltaf áhugi fyrir morgundeginum. Líkamleg vanlíðan var látin víkja fyrir því að fá að gera eitthvað, helst eitthvað sem kæmi að gagni. Smíðavinna átti hug hans allan og tók hann þátt í öllum framkvæmdum okkar í Túnsbergi á meðan líkamleg geta leyfði. Líklega orðinn 78 ára þegar hægjast fór á hamrinum.

Eiríkur var af þeirri kynslóð sem upplifir hvað mestar breytingar varðandi tækni, hann fylgdist vel með en sló sér oft á lær og sagði: „Hugsa sér þessa tækni, hvern hefði órað fyrir þessu?“ Það voru hans forréttindi í lífinu að halda góðri heilsu líkamlegri og andlegri.

Takk fyrir samfylgdina, kæri tengdó.

Magga S. Brynjólfsdóttir.

Ég fékk að alast upp með afa Eirík inni á heimilinu fram á táningsár. Við bræður þekktum ekki annað en að hafa hann á heimilinu og þannig vildum við hafa það.

Afi hefur lengi verið ein mín helsta fyrirmynd enda margt í fari hans sem var eftirsóknarvert. Ég man alltaf eftir honum glaðlyndum – hann var reyndar fljótur að skipta skapi en það jafnaði sig jafn harðan. Hann var einn duglegasti maður sem ég hef kynnst, alltaf tilbúinn að leggja lykkju á leið sína til að hjálpa öðrum og var traustur sínum. Ekki man ég heldur eftir því að afi hafi talað annað fólk niður. Þetta voru nokkrir af hans fjölmörgu kostum.

En afi var ekki mjög fær bílstjóri. Eitt sinn sem oftar stóð til að hann færi fyrir jólin á milli bæja með jólastjörnur til styrktar Kiwanis. Hann hafði nefnt þetta við okkur bræður og var spenningurinn mikill að fá að fara með. Í fljúgandi hálku ók hann með okkur þrjá í bláa afturdrifna Volvonum á misgóðum vegum sveitarinnar. Í einni brekkunni hringsnerist bíllinn og endaði úti í vegkanti. „Helvíti er skreipt“ heyrðist í gamla manninum þegar hann ók aftur af stað og vorum við bræður himinlifandi með þetta ævintýri. Hann var einstaklega barngóður og gaf hann sér alltaf tíma til að hafa okkur bræður með sér, einn eða fleiri í einu.

Óþolinmæði og fljótfærni voru líka einkenni sem fylgdu afa alla tíð. Það birtist t.d. í orðavali hjá honum en hann gat skírt venjulega hluti hinum ýmsu nöfnum í fljótfærni sinni. Þau voru t.d. ótal mörg orðin sem hann var búinn að nota um flórsköfuna úti í fjósi, ég man orð eins og sleif, klafi, skefill og þvara.

Takk fyrir að gefa mér svona margt afi, þín verður sárt saknað og ég veit að minningin á eftir að lifa sterk og lengi um góðhjartaða hlauparann og trésmiðinn Eirík í Túnsbergi.

Hvíldu í friði,

Bragi Viðar Gunnarsson.

Ég er staddur á hlaðinu í Hruna að morgni dags, í ársbyrjun 1996, þreyttur eftir langa næturferð að norðan. Flutningabíll með búslóð ókominn og húsið galtómt. Inn á hlaðið kemur á góðum hraða blár Volvo. Út úr honum snarast roskinn maður, grannvaxinn og léttur á fæti. Við tökumst í hendur og þannig hófst samvinna og vinátta er hélst óslitin. Næstu átján árin vorum við samstarfsmenn við kirkjuna í Hruna. Hann sem meðhjálpari, hringjari, kórfélagi og safnaðarfulltrúi, ég sem prestur. Auk þess kom hann gjarnan með áhöld sín að laga eitt og annað er úr lagi gekk. Allan þennan tíma man ég ekki eftir því að hann hafi nokkru sinni forfallast. Hann hringdi klukkunum nákvæmlega eftir réttri forskrift og hljóp svo niður stigana til þess að vera kominn á sinn stað til að lesa bænina eftir forspilið. Þegar hann eftir fótarmein óskaði þess að koma hringjarahlutverkinu í nýjar hendur var vandi á höndum og mátti sóknarnefndin beita hugkvæmni og óhefðbundnum aðferðum til að laða menn á hringjaranámskeið.

Allt þetta mikla framlag til kirkjustarfsins var eins og sjálfsagður hlutur og aldrei þegin króna fyrir. Auðvitað var það ekki sjálfsagt, hann hafði nóg að gera. Hann tók virkan þátt í bústörfum sonar síns og fékkst sjálfur við smíðar auk þess að vera virkur í félagsstarfi, einkum eldri borgara sveitinni. Þegar okkar kynni hófust var honum ári vant í sjötugt.

Nú hefur minn góði vinur fengið hvíldina eftir stutta legu. Lánsamur að kveðja á þeim mörkum er farið hefði að halla undan fæti.

„Gott þú góði og trúi þjónn ...“ Hafi það einhvern tíma verið við hæfi að vitna í þessi orð guðspjallsins er það núna. Bæn mín er sú að á honum hafi einnig ræst fyrirheiti niðurlagsins „... gakk inn í fögnuð herra þíns“.

Ég vil fyrir mitt leyti og fjölskyldu minnar þakka samstarf, trúmennsku og vináttu. Guð blessi minningu Eiríks Þorgeirssonar.

Eiríkur Jóhannsson.

Í dag verður Eiríkur Þorgeirsson frá Túnsbergi jarðsunginn frá Hrunakirkju. Við leiðarlok er mér bæði ljúft og skylt að minnast, með nokkrum orðum, þessa heiðursmanns og starfa hans fyrir Hrunakirkju.

Kirkjan var stór hluti af hans lífi því henni vann hann, af fádæma ósérhlífni, trúfestu og áhuga, stóran part sinnar ævi. Hann var vakinn og sofinn yfir öllu sem laut að kirkjunni og var alltaf jákvæður og fljótur til ef eitthvað þurfti þar að gera, stórt eða smátt. Hann átti sæti í sóknarnefnd árin 1964-1975, lengst af sem ritari. Hann tók svo við meðhjálparastarfinu af föður sínum árið 1977, en hafði þá aðstoðað hann í nokkur ár þar á undan. Við þetta bættist hringjarastarfið og einsog það væri ekki nóg þá söng hann líka í kirkjukórnum. Allt var þetta gert í sjálfboðavinnu með bros á vör.

Eiríkur vann með þremur prestum í Hruna og missti varla úr athafnir öll þessi ár, þurfti engan sérstakan afleysingamann. Hann söng undir stjórn allavega sex organista og var í kirkjukórnum m.a. með ömmu og langömmu núverandi organista kirkjunnar. Hann hætti í kirkjukórnum rúmlega áttræður en hélt meðhjálpara- og hringjarastarfinu áfram til 87 ára aldurs.

Eiríkur Þorgeirsson sinnti öllum þessum verkum af þeirri einstöku ljúfmennsku og samviskusemi sem einkenndi hann. Honum þótti þetta svo sjálfsagt að það tók því varla að tala um það. Við hér í Hrunasókn fáum seint fullþakkað allt það sem hann hefur gert fyrir kirkjustarfið í Hruna.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Ég votta aðstandendum samúð mína. Blessuð sé minning Eiríks Þorgeirssonar.

Fyrir hönd Hrunasóknar,

Marta Esther Hjaltadóttir.