Leyndarhjúpur er um starfsemi Fjármálaeftirlitsins og stofnunin er nær ófáanleg til að veita fjölmiðlum svör við eðlilegum spurningum sem að henni er beint.

Leyndarhjúpur er um starfsemi Fjármálaeftirlitsins og stofnunin er nær ófáanleg til að veita fjölmiðlum svör við eðlilegum spurningum sem að henni er beint. Neitunin er oftast í formi loðinna svara um að stofnunin telji sér ekki heimilt að veita svör við atriðum er varða starfsemina og þau mál sem hún hefur til umfjöllunar. Í ofanálag er sett ofan í við fjölmiðlamenn sem hafa samband við forstjórann beint í gegnum tölvupóst og þeim bent með yfirlæti á að öll samskipti skuli fara fram í gegnum fjölmiðlafulltrúa, sem virðist hafa það hlutverk að áframsenda tölvupósta frá fjölmiðlum á þá sem helst geta þvælt málin í kjölfarið. Hvergi í ríkiskerfinu er að finna viðlíka vinnubrögð og viðhorf til þess hlutverks sem fjölmiðlar gegna í samfélaginu. Í stærri og fjölmennari stofnunum hafa fjölmiðlar beint aðgengi að forstöðumönnum sem sjaldnast eiga bágt með að svara þeim erindum sem að þeim er beint. Sannarlega eru svörin ekki alltaf efnismikil en aðgengið er til staðar og það er mikilvægt.

Eitt dæmi lýsir viðhorfi forsvarsmanna FME ágætlega til þess hlutverks sem stofnunin sinnir og hvernig þeir umgangast upplýsingagjöf til fjölmiðla og almennings. Dæmið tengist útgáfu FME á skýrslu í júní 2015 er varðaði ársreikninga fjármálastofnana árið 2014. Þegar blaðamaður Morgunblaðsins rýndi í skýrsluna kom í ljós að á árinu 2014 höfðu útlán bankastofnana aukist um 411 milljarða króna, hvorki meira né minna. Það var fréttnæmt og fréttin var birt 1. júlí 2015. Hún vakti mikla athygli.

Degi síðar ákvað blaðamaður að nálgast skýrsluna að nýju á heimasíðu FME til að gaumgæfa tölurnar enn frekar. Kom þá í ljós að skýrslan var horfin af vefnum. Eftir mikla eftirgrennslan viðurkenndi fjölmiðlafulltrúi stofnunarinnar að skýrslan hefði verið fjarlægð en gaf ekki frekari skýringar á því. Þegar eftir því var gengið viðurkenndi hann að villur hefðu fundist í skýrslunni en vildi helst ekki fara nánar út í það. Þegar uppfærð útgáfa var sett á vefinn kom í ljós að villan tengdist útlánaukningu bankanna. Í reiknistokki FME hafði komið upp villa og útlánaaukningin var ofmetin um 287 þúsund milljónir króna!

Þegar Fjármálaeftirlitið uppgötvaði eigin reikniskekkju við lestur fréttar Morgunblaðsins í byrjun júlí 2015 ákváðu forsvarsmenn hennar að kippa skýrslunni af vefnum og birta annað eintak með leiðréttum tölum. Enginn reki var gerður að því að upplýsa Morgunblaðið um að fréttin sem fjölmiðillinn birti hefði verið byggð á röngum gögnum frá FME. Stofnunin ætlaði með öðrum orðum að láta það líta út sem fréttin sem blaðið birti hefði verið röng, í besta falli laga skekkjuna og vona að enginn tæki eftir hinum hrapallegu og vandræðalegu mistökum. Í desember síðastliðnum gaf FME út skýrslu undir hátimbruðum titli: „Verðskuldað traust“. Óvíst er að fólki þyki fyrrnefnt dæmi til marks um að stofnunin verðskuldi það. ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson