[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Útlit er fyrir að loðnukvóti upp á tæplega 200 þúsund tonn náist á innan við fjórum vikum. Vertíð hófst ekki fyrr en að loknu sjómannaverkfalli 20.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Útlit er fyrir að loðnukvóti upp á tæplega 200 þúsund tonn náist á innan við fjórum vikum. Vertíð hófst ekki fyrr en að loknu sjómannaverkfalli 20. febrúar og síðan hefur verið látlaus veiði í einstaklega góðu veðri miðað við árstíma. Reikna má með síðustu dögum loðnuvertíðarinnar um miðja næstu viku og það má ekki seinna vera því hrygning virðist vera byrjuð. Tæpast fá sjómenn þó langt frí því framundan er veiði á kolmunna vestur af Írlandi.

Það sem einkennt hefur þessa vertíð meðal annars er að loðnan hefur gengið þéttar heldur en mörg síðustu ár suður með Austfjörðum og vestur með landinu á leið sinni á hrygningarstöðvar í Faxaflóa og Breiðafirði. Á árum áður voru oft yfir 80% hrygningargöngunnar í þeirri bylgju og af fréttum frá skipstjórum undanfarið gæti það sama hafa verið uppi á teningnum í ár.

Fram hafa komið þau sjónarmið að þennan þétta flekk megi skýra með því að ekkert var veitt með flotvörpu fyrir norðan og austan, en íslenskum skipum er heimilt að nota troll á svæði frá Melrakkasléttu austur um að miðjum Mjóafirði. Undanfarin ár hefur talsvert verið veitt í troll á því svæði framan af janúarmánuði, en á þeim tíma var verkfall í ár. Meðal skipstjóra eru mjög skiptar skoðanir um áhrif þess að nota troll við loðnuveiðar.

„Þegar trollað er í loðnunni fyrir austan land truflast göngumynstur hennar. Núna var ekkert trollað fyrir austan og loðnan gekk óáreitt sína leið suður með landinu, ósærð og virkilega myndarleg. Hana á einungis að veiða í nót,“ skrifaði einn skipstjórinn í vetur.

815 þúsund tonn óvænt gleðiefni

Annað sem sett hefur mikinn svip á vertíðina er niðurstöður mælinga fiskifræðinga. Í kjölfar haustrannsókna 2015 og 2016 var útlitið ekki bjart því niðurstöður gáfu ekki tilefni til þess að gefa út upphafskvóta. Það var ekki til að auka vonir um breytingar á þeim niðurstöðum að í leiðangrinum í september síðastliðnum var gerð umfangsmesta haustmæling frá 1983.

Eftir leiðangur upp úr áramótum hafði aðeins rofað til og kvótinn var orðinn 57 þúsund tonn, sem reyndar kom að stærstum hluta í hlut erlendra veiðiskipa. Í leiðangri í febrúar mældust hins vegar mjög óvænt 815 þúsund tonn og heildarkvóti var gefinn út upp á um 300 þúsund tonn. Þar af komu 196 þúsund tonn í hlut íslenskra veiðiskipa og var verðmætið áætlað um 17 milljarðar króna.

Einhverjir voru alla tíð bjartsýnir á að loðnan fyndist, en flestum komu tíðindin á óvart og menn spyrja hver annan hvar loðnan hafi haldið sig. Fiskifræðingar hafa ítrekað óskað eftir auknu fjármagni til að geta kortlagt breyttar göngur loðnunnar.

390 mílur til heimahafnar

Eftir einmunatíð flesta daga frá upphafi vertíðar er búist við lægðagangi næstu daga. Útgerðarmenn sem rætt var við í gær sögðust eigi að síður vonast til að vinnuveður yrði á miðunum.

Hoffellið SU 80 var nýlega lagt af stað af miðunum suðvestur af Bjargtöngum þegar rætt við Pál Rúnarsson, stýrimann um hádegi í gær. Hann sagði að eitthvað minna hefði verið að sjá á miðunum en áður og veitt væri úr minni einingum. Eigi að síður hefði gengið vel. Loðnan ætti stutt eftir í hrygningu og trúlega hefði eitthvað af henni þegar lagst á botninn. Hann reiknaði með að sigling til heimahafnar í Fáskrúðsfirði tæki um 36 tíma, en þangað voru um 390 mílur.

„Ef allt gengur upp gætum við verið komnir aftur á miðin á mánudagskvöld og þá í síðasta túrnum.

Þetta er búin að vera ævintýralega góð vertíð og aðalvandamálið að fá ekki of mikið í kasti,“ sagði Páll.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er eftirfarandi m.a. haft eftir Hjörvari Hjálmarssyni, skipstjóra á Berki NK: „Alla vertíðina hafa menn helst þurft að passa sig á að fá ekki of mikinn afla í kasti. Það hefur gengið misjafnlega og hafa mörg skip lent í veiðarfæratjóni. Segja má að þetta sé lúxusvandamál og mörg dæmi eru um gríðarstór köst á vertíðinni, jafnvel stærri köst en áður hefur heyrst um. Elstu menn í flotanum telja þessa vertíð vera á borð við þær bestu hvað loðnumagnið varðar.“

Kraftmikil vertíð
» Loðnuvertíð hófst 20. febrúar og hefur gengið mjög vel.
» Útlit er fyrir að 190 þúsund tonna kvóti náist.
» Verðmæti er áætlað um 17 milljarðar króna og hefur mikið verið fryst af hrognum.
» Kolmunnaveiðar taka nú við.