Ágúst Ásgeirsson
Ágúst Ásgeirsson
Eftir Ágúst Ásgeirsson: "Í upphafi haslaði ÍR sér völl á miðborgarsvæðinu og átti lengi félagsheimili og íþróttahús við Túngötu."

Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) fagnar 110 ára afmæli sínu í dag. Félagið hefur starfað óslitið og samfellt lengur en nokkurt annað félag þótt önnur ágæt og merkileg félög teljist eldri.

Aðalhvatamaðurinn að stofnun ÍR var Norðmaðurinn Andreas J. Bertelsen, og var hann fyrsti formaður þess. Núverandi formaður er Ingigerður H. Guðmundsdóttir og er hún fyrsta konan á formannsstóli svo stórs félags sem ÍR er. Allar götur frá 11. mars 1907 hefur ÍR starfað af krafti. Hefur lífskrafturinn í félaginu sjaldan ef nokkru sinni verið meiri en einmitt í dag. Oft hefur blásið á móti og starfsskilyrði verið erfið. Með ötula stjóra í stafni öllum stundum hefur ÍR hins vegar siglt í gegnum allan mótbyr, allt í krafti þess eldmóðs sem ætíð hefur búið í brjóstum þeirra sem borið hafa félagsstarfið uppi.

„Þess herskara manna og kvenna hugsar maður óhjákvæmilega til við lok ritunar aldarsögu ÍR. Þeirra sem setið hafa í stjórnum félagsins, stjórnum einstakra deilda, allra þjálfaranna, sem rétt hafa félaginu hjálparhönd, liðsstjóranna, búningamanna, tímavarðanna, allra starfsmanna við mótahald og allra annarra sem þjónað hafa félaginu og íþróttamönnum þess af mikilli fórnfýsi í heila öld. ÍR á þessum sveitum fyrst og fremst líf sitt að þakka og íþróttamönnunum sem borið hafa hróður þess um víðan völl í samfellt 100 ár. Þessum „týndu hermönnum“ ÍR tileinka ég verkið í einu og öllu,“ segir í aðfaraorðum höfundar aldarsögu félagsins, „Heil öld til heilla“, sem ÍR-ingar gáfu út á aldarafmæli félagsins fyrir áratug. Þessi orð eiga enn vel við því í umræddan hóp hefur bæst mikill og góður starfsafli, sem drifið hefur starfsemi Íþróttafélags Reykjavíkur.

Í upphafi haslaði ÍR sér völl á miðborgarsvæðinu og átti lengi félagsheimili og íþróttahús við Túngötu. Aðstaðan dugði þó hvergi og háði mörgum deildum áratugum saman. Gæfuspor var stigið er hafist var handa um flutning félagsins undir lok sjöunda áratugarins í Breiðholtið. Þar hefur félagið búið íþróttamönnum sínum hina ágætustu aðstöðu sem enn á eftir að stækka og batna.

Þar fara keppni og sýningar afmælishátíðarinnar fram í dag, frá klukkan 10 til 16 (sjá www.ir.is).

Enda félagsmenn svo daginn á afmælishófi í ÍR-heimilinu en þar verður opið hús frá kl. 16-17.30. Þar verða myndasýningar úr sögu félagsins og sýndar myndir og uppdrættir af fyrirhuguðum mannvirkjum á ÍR-svæðinu.

Foreldrar iðkenda og allir ÍR-ingar eru sérstaklega boðnir til að fylgjast með og taka þátt í dagskrá afmælisdagsins, sem fram fer víða í Breiðholti, Laugardalshöll og Egilshöll.

Áfram ÍR!

Höfundur keppti í hlaupum fyrir ÍR á síðustu öld.