Bára Norðfjörð Guðmundsdóttir fæddist á Norðfirði 7. september 1936. Hún lést á Landspítalanum háskólasjúkrahúsi 1. mars 2017.
Foreldrar hennar voru Guðmundur Eyjólfsson, f. 13.1. 1905, d. 26.3. 1968, og Ingibjörg Sigríður Guðjónsdóttir, f. 7.1. 1912, d. 17.3. 1988.
Systkini hennar eru Alda Norðfjörð Guðmundsdóttir, f. 10.12. 1930, Ágúst Norðfjörð Guðmundsson, f. 18.10. 1938, d. 10.7. 1974, Jón Ægir Norðfjörð Guðmundsson, f. 18.8. 1939, d. 18.10. 2011, og Guðjón Veigar Norðfjörð Guðmundsson, f. 6.9. 1940.
Eftirlifandi eiginmaður Báru Norðfjörð er Sigurður Vilhelm Ólafsson, f. 2.11. 1937. Börn Báru og Sigurðar Vilhelms eru 1) Klara, f. 1.7. 1959, d. 11.12. 1963. 2) Eyjólfur, f. 17.10. 1960, giftur Indíönu Eybergsdóttur. Börn þeirra eru: a) Erla Björg, gift Birni Sigurðssyni, börn þeirra eru Björn Tryggvi, Björgvin Thor, Ragnar Sveinn og Birta. Fyrir átti Erla dótturina Andreu Guðnýju. b) Bryndís Bára, dóttir hennar er Arndís Indíana. c) Eyjólfur Fannar, sambýliskona hans er Helga Rut Arnarsdóttir. Dóttir þeirra er Emelía Sigurbjörg. 3) Klara Ólöf, f. 24.9. 1963, börn hennar eru: Bára Lind, Sigurður Vilhelm og Kristófer Fannar. 4) Sólrún Laufey, f. 22.5. 1962, börn hennar eru: Finnbogi Karl, Jón Anton, Alexander og Guðríður Ósk. 5) Helga, f. 21.5. 1965, sambýlismaður hennar er Ásberg M. Einarsson. Börn Helgu eru: a) Guðrún Ósk, maki Dagur Sveinsson. Dóttir þeirra er Óskírð Dagsdóttir. Fyrir átti Guðrún dótturina Maren Dögg. b) Heiðdís Helga, sambýlismaður hennar er Arnar Jónsson Aspar. c) Heiðrún Eva, dóttir hennar er Ylfa Dís. d) Henný Mist. e) Aldís María. 6) Guðmundur Eyjólfs, f. 25.1. 1969, d. 10.11. 2015. Dætur hans eru Marey Þóra, Birgitta Ýr og Bríet Myrra.
Fyrir átti Bára dótturina Svanhildi Norðfjörð Erlingsdóttur, f. 30.6. 1954, börn hennar eru: a) Helga Heiða, gift Magnúsi Þ. Yngvasyni. Synir þeirra eru Egill Örn, Atli Már, Yngvi Jóhann og Helgi Aron. b) Eva Björg, dóttir hennar er Karen Ósk. c) Jónas Ævarr, kvæntur Lindu Berry. Dóttir Jónasar er Svanhildur Mörk og sonur Lindu er Aaron Ísak.
Fyrir átti Bára soninn Sigurð H. Einarsson, f. 8.8. 1957, sambýliskona hans er Hrafnhildur Stella. Dóttir Sigurðar er Salka Margrét.
Bára fæddist í Kastalanum í Neskaupstað árið 1936 og ólst þar upp til níu ára aldurs. Þegar Bára var um níu ára gömul veiktist Sigríður móðir hennar af berklum og dvaldi Bára hjá vinafólki foreldra sinna í eitt ár, á meðan móðir hennar lá á spítala. Eftir það bjó Bára í nokkur ár í Reykjavík eða þar til fjölskyldan flutti í Hafnir, þar sem þau bjuggu um árabil. Síðar flutti fjölskyldan aftur til Reykjavíkur og bjó þar alla tíð.
Þegar Bára var ung starfaði hún við fiskvinnslu á Kirkjusandi. Síðar starfaði hún á gæsluvöllum Reykjavíkurborgar.
Útför Báru Norðfjörð fer fram frá Seljakirkju í dag, 10. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Kveðjustundin er runnin upp. Öll vissum við að við þyrftum að kveðja þig einhvern tíma á næstu mánuðum eða árum. Við vissum öll hvað þú varst orðin veik og máttfarin en samt var það svo mikið högg þegar fregnin kom. Nóttina sem þú kvaddir lá ég andvaka og í gegnum huga minn fóru minningar um þig. Minningar frá því ég man eftir mér fyrst og þangað til ég kvaddi þig hinstu kveðju niðri á spítala þegar þú lagðir af stað til Sumarlandsins fagra. Þessar minningar eru eins og gull í hjartanu mínu núna og þú hafðir meiri áhrif á mig en ég hafði gert mér grein fyrir. Einhvers staðar las ég það fyrir stuttu hvað börn hefðu gott af því að umgangast ömmur sína og afa. Ég var svo heppin að vera mikið í kringum þig enda þótti þér ekki slæmt að vera með aukabörn að skoppast í kringum þig, þegar afi var á sjónum. Þá lágum við oft öll í einni kös uppi í hjónarúminu þínu, ég og börnin þín sem enn bjuggu heima. Þá var mikið grínast, spjallað og hlegið. Ég á óteljandi minningar úr sundferðum á helgarmorgnum en þá mættir þú heim til barnanna þinna eldsnemma um helgar og sóttir okkur barnabörnin til að fara með okkur í sund. Já þannig fengu ungu foreldrarnir að sofa aðeins út. Eftir sundið þá þurfti að fóðra alla ungana og fengum við öll buddu eins og við kölluðum það, eða pylsu á eftir. Eftir að við vorum búin að gæða okkur á buddunni þá kíktum við oft í heimsókn til Siggu ömmu í kjölfarið.

Sjálf varstu að vinna innan um börn alla daga á gæsluvöllum Reykjavíkur. Þar sá ég hvað þú varst ofboðslega kærleiksrík mannvera. Í minningunni sé ég þig taka lítil, köld og grátandi krútt í fangið, þerra tárin þeirra, snýta þeim og hugga. Eins voruð þið vinkonurnar á gæsluvellinum yfirleitt með eitthvað gott til að stinga upp í svanga munna. Elstu strákarnir mínir voru það heppnir að fá að upplifa róló- og sundferðir með þér.

Ég á fallegar minningar frá jólunum með þér, þegar við komum öll til þín og afa í mat á aðfangadagskvöld og þar var sko fjölmennt og glatt á hjalla. Börn, tengdabörn, barnabörn, systkini, makar og börnin þeirra og að sjálfsögðu Sigga amma líka. Þá var svo búið að leggja kræsingar á langborð og oft ýmislegt á boðstólum sem ekki fékkst í búðum á Íslandi. Afi hafði þá komið með úr siglingu kassa af eplum og ekta skinku í stórum dósum. Það voru skemmtileg jól með allt fólkið sitt í kringum sig. Ég á líka minningar frá útilegum og á þeim tíma svaf fólk í tjaldi. Það voru engir lúxustjaldvagnar eða hjólhýsi. Nei, við gistum í gömlu góðu gulu tjöldunum og hitað var upp og eldað með prímus. Svo sátu allir saman úti, spjölluðu og sungu. Sumarbústaðaferðirnar voru einnig nokkrar og þá var nú heiti potturinn vinsæll og amma oft ein með allan barnahópinn ofan í.

Þú varst svo dugleg amma mín að hugsa um hópinn þinn þegar afi var á sjónum og alltaf var svo hreint og fínt heima hjá þér. Þegar ég flutti til ykkar á unglingsárum mínum þá kenndir þú mér hvernig átti að þurrka af fínu hillusamstæðunni ykkar og fínu spariborðunum með sérstöku spreyi og klút. Þér fannst það heldur ekki leiðinlegt þegar ég var búin að þrífa þegar þú komst heim eftir vinnu í lok vikunnar. Á þeim tíma áttum við öðruvísi stundir saman. Þá vorum við meira að spjalla og þá varstu meira eins og vinkona mín. Það voru yndislegar stundir. Þú varst alltaf svo hress, kraftmikil og mikill grínisti enda gátum við grínast mikið saman. Þú hélst í þessa gleði allt til dauðadags, þó að þér liði ekki vel, þá reyndir þú alltaf að vera hress. Vináttan var líka mikilvæg í þínu lífi. Þið voruð samrýndar fjórar vinkonurnar og það er núna að saxast á hópinn ykkar. Það er ekki langt síðan þið Dídí láguð á hjartadeildinni á sama tíma og vorum við í fjölskyldunni að spá í að fá sérherbergi fyrir ykkur, bara svo þið gætuð verið saman í friði, því þið gátuð spjallað svo mikið saman og hlegið dátt. Við sem komum í heimsókn héldum að við værum að koma til að stytta ykkur stundir eða að reyna að gleðja ykkur, en það fór nú oft á hinn veginn og yfirleitt kvaddi ég ykkur skellihlæjandi. Þannig ætla ég að minnast þín elsku amma mín. Ég ætla að minnast kærleikans og hlátursins. Ég ætla að þakka fyrir öll árin okkar saman og ég ætla að þakka fyrir að nú ertu laus úr viðjum veikindanna. Ég ætla að þakka fyrir að nú ertu sameinuð fólkinu þínu, elsku börnunum þínum, þeim Klöru og Tuma, foreldrum þínum og bræðrum. Hugur minn er hjá afa og börnunum ykkar, sem sjá á eftir mömmu sinni. Hugurinn er einnig hjá barnabörnum og barnabarnabörnum, því öll tengdumst við þér á einstakan hátt. Minning þín verður ljós í lífi mínu.
Hvíl í friði elsku amma mín, takk fyrir allt og allt.
Þín

Heiða.