Á titilsíðu skáldsögunnar Musu eftir Sigurð Guðmundsson, sem kom út fyrir stuttu, er titillinn eðlilega áberandi, en smærra neðan við hann, með bláu letri, er orðið Kvöld. Blái liturinn dregur orðið fram en felur það í senn.

Á titilsíðu skáldsögunnar Musu eftir Sigurð Guðmundsson, sem kom út fyrir stuttu, er titillinn eðlilega áberandi, en smærra neðan við hann, með bláu letri, er orðið Kvöld. Blái liturinn dregur orðið fram en felur það í senn.

„A regnboga ero þrir litir. vatnz litr oc ælds litr oc brennosteins loga litr,“ segir í Hauksbók sem skrifuð var í upphafi fjórtándu aldar (í Hauksbók eru litir regnbogans sagðir þrír og eins í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar: „Hon er með þrim litum,“ segir Hár er hann lýsir Bifröst / regnboganum, en nefnir síðan aðeins einn lit: „Þat er þú sér rautt í boganum er eldr brennandi.“).

Út úr ritgerð Kirsten Wolf um bláan lit í fornnorrænum sögum sem birtist í Scripta Islandica 2006 má meðal meðal annars lesa að til forna hafi liturinn blár yfirleitt ekki þýtt blátt heldur „dökkt“, eða svo yfirleitt notaður í lýsingum. Með tímanum varð blár smám saman blár; fullgildur litur.

Í leiðbeiningum á vefsetri japönsku lögreglunnar má lesa að grænt ljós í umferðarljósum þýði að óhætt sé að halda leið sinni áfram, nema náttúrlega maður sé að lesa leiðbeiningarnar á japönsku: þar segir að viðkomandi ljós sé blátt. Nú kann ég ekki japönsku sjálfur, en hef heimildir fyrir því að ekki sé bara að neðsta ljósið á umferðarljósum sé „blátt“, heldur má víst finna blá tún og bláa grænjaxla í Japan.

Skýringin á þessu er sú að þar til forna létu menn eitt orð duga fyrir þessa liti tvo, þ.e. sama orðið, ao, náði yfir grænt og blátt. Fyrir þúsund árum eða svo varð til annað orð, midori, sem náði yfir græna litinn, en þó ekki – það var í raun notað yfir þann hluta bláa litaskalans sem var grænleitur. Það var víst ekki fyrr en uppúr miðri tuttugustu öldinni sem midori varð litur, grænt varð til, ef svo má segja, með það í huga að það að ekki sé til orð yfir eitthvað þýðir ekki að það sé ekki til.

Mannsaugað getur greint 7,5 milljón litatóna, eða réttara sagt, augað greinir þrjá liti: rautt, grænt og blátt, og svo sér heilinn um rest. Fjögurhundruð árum eftir að Haukr Erlendsson ritaði Hauksbók sá Isaac Newton fimm liti í regnboganum, rauðan, gulan, grænan, bláan og fjólubláan. Síðan bætti hann tveimur litum við, appelsínugulum og indigo, enda vildi hann hafa litina sjö til að ríma við (hljóma með) hinum díatóníska tónstiga alheimsins. (Í tímaritinu Bjarka fyrir 120 árum nefndi Þorsteinn Erlingsson litinn fjóludökkblár er hann lýsti regnboga og má vel koma í stað indigo í íslensku.).

Newton vildi appelsínugulan lit, en heitið á honum rataði inn í ensku úr sanskrít: naranga varð að orange. Íslenska heitið kemur úr annarri átt; úr þýsku í dönsku og þaðan í íslensku um miðja nítjándu öldina; epli frá Kína. Liturinn var til, nema hvað, en þá bara sem litbrigðið rauðgulur. Gleymum því nefnilega ekki að þó það sé ekki til orð yfir eitthvað þýðir það ekki að það sé ekki til eins og áður sagði. arnim@mbl.is

Árni Matthíasson