Í Parma Kristján Jónsson kris@mbl.is Karlalandsliðið í knattspyrnu er nú í Parma á Ítalíu þar sem liðið hefur æft tvívegis til að undirbúa sig fyrir næsta verkefni í undankeppni HM. Ísland mætir Kósóvó á föstudagskvöldið.

Í Parma

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Karlalandsliðið í knattspyrnu er nú í Parma á Ítalíu þar sem liðið hefur æft tvívegis til að undirbúa sig fyrir næsta verkefni í undankeppni HM. Ísland mætir Kósóvó á föstudagskvöldið. Liðið mun einnig æfa fyrir hádegi í dag en eftir hádegið verður flogið yfir til Albaníu. Þar fer leikurinn fram gegn Kósóvó, nánar tiltekið í borginni Shköder.

Allir leikmenn Íslands hafa getað tekið þátt í æfingum liðsins. Óttast var að þeir Kári Árnason og Arnór Ingvi Traustason kynnu að vera tæpir vegna meiðsla en þeir hafa getað beitt sér á báðum æfingunum til þessa. Útlitið virðist því vera gott varðandi þá tvo og hópinn í heild sinni.

„Allir voru með á æfingunni í gær en þeir sem spiluðu með sínum félagsliðum á sunnudag tóku létt á því í gær (á mánudagskvöld). Við höfðum mestar áhyggjur af Kára Árna og Arnóri Ingva varðandi meiðsli en þeir voru báðir með alla æfinguna og stóðu sig vel. Þeir eru aftur með í dag og því kom ekkert bakslag eftir æfinguna í gærkvöldi. Við erum því ánægðir með stöðuna eins og hún er,“ sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is í gær.

Liðið æfði við fínar aðstæður í gær, tíu stiga hita og skýjað. Þá æfði liðið á aðalvelli Parma Calcio 1913 sem heitir Ennio Tardini. Fornfrægur völlur en hann er á meðal þeirra elstu sem enn eru í notkun á Ítalíu. Lið Parma leikur nú í C-deildinni á Ítalíu eftir að hafa gengið í gegnum fjárhagserfiðleika. Áður riðu þó hetjur um héruð og miklar kempur héldu til á Ennio Tardini. Um síðustu aldamót var lið Parma til að mynda firnasterkt og vann Evrópumeistaratitil. Á þeim árum léku með liðinu ekki ófrægari menn en Gianluigi Buffon, Fabio Cannavaro, Lilian Thuram, Nestor Sensini, Dino Baggio, Juan Sebastian Veron, Diego Fuser, Stefano Fiore, Mario Stanic, Enrico Chiesa, Abel Balbo, Faustino Asprilla og Hernan Crespo svo einhverjir séu nefndir.

Á mbl.is/sport er að finna viðtöl við Heimi, Viðar Örn Kjartansson, Ragnar Sigurðsson, Jón Daða Böðvarsson og Emil Hallfreðsson.