Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is „Alþingi ályktar að fela ráðherra mennta- og menningarmála að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands og leysa þannig til frambúðar þann húsnæðisvanda sem skólinn hefur búið við um langa hríð.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

„Alþingi ályktar að fela ráðherra mennta- og menningarmála að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands og leysa þannig til frambúðar þann húsnæðisvanda sem skólinn hefur búið við um langa hríð.“

Þannig hljóðar þingsályktunartillaga sem Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður að, en 12 aðrir stjórnarandstöðuþingmenn eru meðflutningsmenn hans að tillögunni.

Alls höfðu í gær borist 20 umsagnir um frumvarpið til nefndasviðs Alþingis, en umsagnirnar fara til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Umsagnirnar eru frá 14 einstaklingum og Íslensku óperunni, Nemendaráði Listaháskólans, Listaháskólanum, Hönnunar- og arkítektúrdeild Listaháskólans, Hollnemafélagi Listaháskólans og forseta sviðs listadeildar Listaháskólans. Einstaklingarnir sem veita umsagnir eru flestir nemendur Listaháskólans og umsagnirnar eru mjög keimlíkar, þar sem kvartað er yfir heilsuspillandi húsnæði og ófullnægjandi aðstöðu til þess að stunda nám og lýst yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna.

Á ábyrgð stjórnvalda

Við sama tón kveður í umsögnum mismunandi starfsmanna og deilda Listaháskólans. Þannig segir forseti sviðslistadeildar m.a. í umsögn sinni: „Listir og hönnun eru ein af grunnstoðum í samfélaginu og er það ábyrgð stjórnvalda að hlúa að uppbyggingu fagsviðsins með því að tryggja listmenntun á háskólastigi viðeigandi aðbúnað.

Ég hvet stjórnvöld að leysa sem fyrst þann brýna húsnæðisvanda sem steðjar að Listaháskólanum með varanlegum lausnum sem hafa reisn lista og menningar að leiðarljósi og endurspegla þau gildi sem þjóðin hefur.“