Pétur Pétursson fæddist í Reykjavík 8. febrúar 1931. Hann lést 2. mars 2017.

Útför Péturs fór fram 14. mars 2017.

„Þar sem mannkostirnir eru, þar eru mannalætin óþörf.“ Þessi orð Sigurðar skólameistara á Akureyri fóru um hug minn, þegar Pétur bekkjarbróðir minn kvaddi. Drengskapur og ljúflyndi einkenndu hann á skólaárunum. Það gleymist heldur ekki, hve sterkur hann reyndist við föðurmissi 17 ára gamall.

Þjóðhagfræði varð fyrir valinu, er haldið var til framhaldsnáms. Þar fékk hann ekki aðeins dýrmætan grundvöll fyrir lífsstarf sitt. Hann reyndist ekki síður aflögufær í þeim efnum fyrir íslenskt atvinnulíf. Pétur var svo fljótur að hugsa og átti nánast óbrigðula dómgreind, þegar kom að þörf þjóðfélagsins og framþróun iðnaðar og skyldra atvinnugreina. Hann varð þar bæði frumkvöðull og framúrstefnumaður og um tíma áhrifavaldur á stefnu íslenskra stjórnvalda.

Viðfangsefnin voru krefjandi, en hann gaf sér einnig tíma fyrir aðra. Ég naut hjálpsemi hans bæði persónulega og fyrir málefni, sem ég barðist fyrir. En hans mátti þá ekki geta. Drengskapur og bróðerni voru ríkjandi í öllu sem við áttum sameiginlegt.

Ég dáðist að því, hve hann tók sjóndepru sinni á efri árum með miklu jafnaðargeði. Hin síðari ár var eins og hann vildi gott úr öllu gera, leggja hvaðeina út á betri veg. Bærist talið að eigin framkvæmdum og stórvirkjum, var það ætíð rætt eins og um sjálfsagða hluti væri að ræða.

Pétur minntist þess gjarnan, þegar við vorum orðnir nágrannar og hittumst þá oft, hve þakklátur hann væri fyrir það, að síðustu 23 árin hefði ekki komið dropi af áfengi inn fyrir hans varir. Það er í raun sterk staðfesting þess, hve öflugur persónuleiki hans var og skal þá minnt á orð Ritningarinnar, að sá, sem sigrar sjálfan sig, er meiri en sá sem vinnur borgir.

Þakklætið var afar sterkt fyrir allt sem honum hafði auðnast að koma í framkvæmd. Það var þó enn sterkara þegar kom að fjölskyldu hans, þar sem hann vissi, að var í raun öll hans auðlegð. Björk, eiginkona hans, var hans góði engill og sterki stuðningsmaður hin síðari ár, og það var gleði hans að geta hlynnt að henni.

Þannig gekk minn góði vinur gæfuleið efri ára. Hann bar enn með sér „authoritet“ starfsáranna, en með lítillæti göfugmennisins. Hann sannaði orð skólameistarans: „Þar sem mannkostirnir eru, þar eru mannalætin óþörf.“

Ég hygg ég mæli fyrir hönd okkar allra bekkjarsystkinanna, stúdentanna frá MR 1951, er ég segi : Góður Guð blessi okkar ágæta bróður.

Þórir Stephensen.