Sprenghlægileg Miranda Hart í góðu stuði.
Sprenghlægileg Miranda Hart í góðu stuði.
Miranda Hart hlýtur að vera fyndnasta kona Bretlandseyja – ef ekki Evrópu. Í það minnsta norðan Alpafjalla.

Miranda Hart hlýtur að vera fyndnasta kona Bretlandseyja – ef ekki Evrópu. Í það minnsta norðan Alpafjalla. Takk, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, fyrir að kaupa gamanþætti Miröndu og sýna þá á besta tíma, þegar helgin er framundan og fjölskyldan nýbúin að borða kvöldmat. Miranda er nefnilega þeim hæfileika gædd að geta skemmt fólki á öllum aldri og hafa húmor fyrir sjálfri sér. Að sjá þessa hávöxnu konu hrasa um sjálfa sig og falla kylliflata á gólfið eins og viðardrumb er góð skemmtun, að ekki sé minnst á misheppnuð ástarævintýri hennar og undarlega tilhneigingu til að villa á sér heimildir með oftast nær hörmulegum afleiðingum.

Þegar breskt grín er gott er það einfaldlega best í heimi. Segi ég og skrifa. Og nú býður Skarphéðinn ekki bara upp á einn heldur tvo breska snilldargrínista og það tvö kvöld vikunnar í röð. Fyrst er það Miranda á föstudegi og svo David Walliams á laugardegi! Walliams er, líkt og Miranda, algjör grínmeistari og fyrsti þátturinn í syrpu hans, Walliams and Friend, lofar sannarlega góðu um framhaldið. Ævi íslenskrar þjóðar hlýtur að lengjast um nokkur ár.

Helgi Snær Sigurðsson