Á íslensku má alltaf finna svar og orða stórt og smátt sem er og var

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að nemendur í grunnskóla einum í Hafnarfirði væru farnir að tjá sig á ensku sín á milli í frímínútum. Kennarinn sem sagði frá þessu tók að vísu fram að þetta væri ekki algilt, en ætti þó við um nokkra hópa í skólanum á öllum aldri, ekki bara þeirra sem eru á táningsárum.

Það sem einkum vakti athygli kennarans var að ekki var um að ræða stöku enskuslettu hér og þar, líkt og vænta mætti, heldur væri þarna um heilu og hálfu samtölin að ræða á ensku. Sagði kennarinn að hann hefði heyrt af því að þessi þróun ætti sér stað í fleiri skólum en þeim sem hann kennir í. Umfjöllun Morgunblaðsins í dag rennir því miður stoðum undir þessa frásögn.

Aukin tungumálakunnátta er vissulega af hinu góða en hún má ekki vera á kostnað móðurmálsins. Erfitt er fyrir fámennt málsvæði, og jafnvel þau sem stærri eru, að verjast sterkum áhrifum enskunnar, sem er alltumlykjandi í afþreyingarsamfélagi okkar.

Vandinn kann einnig að liggja í öðru. Í vel heppnaðri herferð Mjólkursamsölunnar var sungið að á íslensku mætti alltaf finna svar. Engu að síður var það reynsla blaðamanns Morgunblaðsins að fólk í viðskiptalífinu væri óspart við enskuslettur, jafnvel svo mjög að blaðamaður þurfi nánast að þýða viðtal áður en hægt er að bjóða lesendum upp á það.

Þeir sem eldri eru þurfa að hafa í huga að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Í því felst meðal annars að gæta þess að þau hafi aðgang að nægu afþreyingarefni á íslensku í bókum, blöðum, tölvum og sjónvarpi, en jafnframt að þeir fullorðnu séu góð fyrirmynd í umgengni sinni við tungumálið.