Fillon á við ramman reip að draga

Franskir hægrimenn þóttust sumir hafa himin höndum tekið þegar Francois Fillon var útnefndur sem forsetaefni þeirra fyrr á þessu ári. Fillon, sem áður gegndi starfi forsætisráðherra Frakklands, þótti nefnilega vera hægrisinnaðasti frambjóðandinn sem Repúblikanaflokkurinn franski gat boðið upp á og þar með líklegastur til þess að geta haldið velli gegn ásókn Þjóðfylkingar Marine Le Pen í fylgi þeirra. Þá bentu kannanir til þess að Fillon væri langsigurstranglegastur allra þegar í seinni umferð forsetakosninganna væri komið.

En margt getur hent á langri vegferð í kosningabaráttu og þegar ásakanir komu fram um að Fillon hefði ráðið fjölskyldumeðlimi sína í fölsk störf, fór fljótt að halla undan fæti hjá frambjóðandanum. Glæpurinn var þó ekki frændhyglin í ráðningum, heldur virtist sem eiginkona Fillons og börn hefðu ekki innt neina vinnu af hendi fyrir þau laun sem þeim voru greidd. Í síðustu viku fór málið svo upp á nýtt stig þegar tilkynnt var að formleg rannsókn væri hafin á Fillon og launamálum fjölskyldu hans.

Það hefur því verulega syrt í álinn fyrir Fillon, ekki síst þar sem hann sagði sjálfur við upphaf þessa máls að enginn ætti að vera frambjóðandi sem búið væri að hefja formlega rannsókn á. Fillon sýnir þó ekkert fararsnið á sér. Í ljósi þess að bæði Le Pen og Emmanuel Macron, sem nú þykir líklegastur til þess að vinna kosningarnar, hafa glímt við lagaleg vandræði í þessari kosningabaráttu, þarf hann þess kannski ekki.

Skoðanakannanir sýna nefnilega að þrátt fyrir allt myndi duga Fillon að komast í aðra umferð kosninganna gegn Le Pen. Andstæðingar hennar myndu þá sameinast gegn Le Pen og kjósa Fillon, þrátt fyrir ásakanirnar. Macron og Fillon eru því í raun að berjast um annað sætið í fyrri umferðinni.

Gallinn fyrir Fillon er sá að hann er óravegu frá því að ná inn í aðra umferð, um sex prósentustigum frá Macron. Kappræður helstu frambjóðenda, sem sjónvarpað var á mánudagskvöldið, breyttu litlu þar um. Enginn telst ótvíræður sigurvegari þeirra. Fyrir Fillon voru þær þó kærkomið tækifæri til þess að ræða eitthvað annað en vandamál sín.

Þau eru hins vegar ekki á förum og sú málsvörn Fillons að hér sé eingöngu um nornaveiðar fjölmiðla að ræða virðist hafa haft lítil áhrif á kjósendur. Í ljósi þess að nú er rétt rúmlega mánuður til stefnu áður en Frakkar kjósa má gera ráð fyrir að tækifærum Fillons til þess að rétta úr kútnum fari ört fækkandi.