Gróttumaður Elvar Friðriksson lyftir sér upp fyrir framan vörn Vals.
Gróttumaður Elvar Friðriksson lyftir sér upp fyrir framan vörn Vals. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Þegar um 40 mínútur voru liðnar af leik Vals og Gróttu í Olísdeild karla í handknattleik hafa eflaust einhverjir haldið að dómararnir gætu flautað til leiksloka.

Á Hlíðarenda

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Þegar um 40 mínútur voru liðnar af leik Vals og Gróttu í Olísdeild karla í handknattleik hafa eflaust einhverjir haldið að dómararnir gætu flautað til leiksloka. Valsmenn voru með átta marka forskot og ekkert benti til þess að gestirnir frá Seltjarnanesi myndu saxa á það.

En það var eins og við manninn mælt. Varnarleikur gestanna þéttist og þó að sóknarleikurinn hafi ekki verið neitt glimrandi þá söxuðu þeir jafnt og þétt á forskot Valsmanna. Var það mest fyrir tilstilli Finns Inga Stefánssonar en hann fór á kostum og skoraði 10 mörk gegn sínum gömlu félögum.

Án þess að ætla að fullyrða eitthvað um það þá hefur þreytan líka farið að segja til sín hjá Valsmönnum og skortur á sjálfstrausti. Liðið hefur spilað marga leiki upp á síðkastið og gengið hefur verið arfaslakt eftir að liðið fagnaði bikarmeistaratitlinum í lok síðasta mánaðar. Hlíðarendapiltar hafa ekki unnið leik eftir þau fagnaðarlæti og eiga á hættu að missa af sæti í úrslitakeppninni, þó að sú hætta sé kannski ekki mikil.

Sveinn Aron Sveinsson hefði nánast getað gulltryggt sigur Vals en hann skaut í stöng úr víti þegar rúm mínúta var til leiksloka. Seltirningar brunuðu í sókn og bæjarstjórasonurinn úr Vestmannaeyjum, Nökkvi Dan Elliðason, jafnaði þegar hálf mínúta var eftir.

Lokasókn Valsmanna rann út í sandinn, við litla hrifningu heimamanna. Þeir töldu að Seltirningar hefðu brotið af sér og heimamenn ættu að fá vítakast í þann mund sem leiktíminn rann út. Að sama skapi töldu leikmenn Gróttu að Josip Gric, leikmaður Vals, hefði sparkað til leikmanns Gróttu í þann mund er leiktíminn rann út. Nokkur rekistefna myndaðist á gólfinu en dómarar leiksins ákváðu að dæma ekkert; 25:25-jafntefli niðurstaðan.

Stigið er Seltirningum gríðarlega mikilvægt í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en þeir eru í 6. sæti. Valsmenn sigla aftur á móti nokkuð lygnan sjó þrátt fyrir slæmt gengi síðustu vikur.