Menntastofnun Snjallsímar og afþreyingarveitur ýmiskonar eru meðal þess sem veikir stöðu íslenskunnar, en krakkar grípa margir til enskunnar.
Menntastofnun Snjallsímar og afþreyingarveitur ýmiskonar eru meðal þess sem veikir stöðu íslenskunnar, en krakkar grípa margir til enskunnar. — Morgunblaðið/Eyþór
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Mjög margt hefur breyst í umhverfi tungumálsins á undanförnum þremur til fimm árum og er það bæði vegna samfélagslegra breytinga og tæknibreytinga,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands. Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að margir grunnskólanemendur væru byrjaðir að nota ensku til samskipta í skólanum. Sagði kennari nemendur m.a. halda uppi samræðum á ensku.

„Við teljum okkur vita að allt niður í ungbörn noti snjallsíma og spjaldtölvur reglulega og um leið alls kyns efni á ensku. Eins horfa krakkar mikið á óþýdda og ótextaða þætti á YouTube og Netflix, en við þetta bætast svo m.a. tölvuleikir,“ segir Rögnvaldur og bætir við að erfitt sé að meta hversu algengt þetta sé og um leið hvaða áhrif það mun hafa til lengri tíma.

„Við erum hins vegar að fara að hefja undirbúning að rannsókn á þessu. Á næsta ári vitum við vonandi meira um þetta,“ segir hann, en Eiríkur og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, fengu í fyrra styrk frá Rannsóknasjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands (RANNÍS) til að kanna áhrif ensku á íslenska tungu í gegnum stafræna miðla.

„Ég hef aldrei haft neinar sérstakar áhyggjur af slettum – þær koma og fara. [...] Þegar krakkar eru hins vegar byrjaðir að tala saman og leika sér á ensku, þá erum við komin á allt annað stig,“ segir Eiríkur.

Sigrún Birna Björnsdóttir, formaður stjórnar Samtaka móðurmálskennara, segir brýnt að þeir sem fullorðnir eru sýni móðurmálinu virðingu og ali börn sín upp eftir því.

„Við verðum öll að leggjast á eitt og bera virðingu fyrir þessari menningararfleifð sem tungumálið er,“ segir hún.