Bikarinn Snæfell er sigurvegari í Dominos-deild kvenna 2016-2017 og tók við bikarnum eftir leikinn gegn Keflvíkingum í gærkvöld.
Bikarinn Snæfell er sigurvegari í Dominos-deild kvenna 2016-2017 og tók við bikarnum eftir leikinn gegn Keflvíkingum í gærkvöld. — Ljósmynd/Eyþór Benediktsson
Snæfell tók við bikarnum sem deildarmeistari kvenna í körfuknattleik í þriðja sinn á fjórum árum eftir heimaleik í Stykkishólmi gegn Keflavík í lokaumferðinni í gærkvöld.

Snæfell tók við bikarnum sem deildarmeistari kvenna í körfuknattleik í þriðja sinn á fjórum árum eftir heimaleik í Stykkishólmi gegn Keflavík í lokaumferðinni í gærkvöld.

Keflvíkingar leyfðu Hólmurum hinsvegar ekki að fagna um of og unnu leikinn á sannfærandi hátt, 72:59. Þar með enduðu liðin jöfn að stigum á toppnum, með 44 stig hvort, en Snæfell vann þrjár fyrstu viðureignir liðanna í vetur og var því búið að tryggja sér titilinn eftir næstsíðustu umferð deildarinnar.

Sigur Keflvíkinga er hinsvegar bæði sætur og mikilvægur því það hefði eflaust ekki verið gott fyrir sálrænu hliðina hjá hinu unga liði þeirra að eiga jafnvel fyrir höndum úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn gegn Snæfelli eftir fjögur töp gegn þeim á tímabilinu.

Snæfell mun glíma við Stjörnuna í undanúrslitunum sem hefjast á þriðjudaginn en Keflavík mætir Skallagrími. Þetta lá fyrir áður en flautað var til leiks í gærkvöld.

Ariana Moorer var með 18 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar fyrir Keflavík og var því aðeins einni sendingu frá þrefaldri tvennu. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 15 stig fyrir Snæfell.

Þriðja tap Skallagríms á lokasprettinum

Valur lauk tímabilinu með góðum sigri á Skallagrími á Hlíðarenda, 83:71. Hallveig Jónsdóttir skoraði 18 stig fyrir Val, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 17 og Mia Loyd 15 en Tavelyn Tillman og Kristrún Sigurjónsdóttir gerðu 24 stig hvor fyrir Borgnesinga. Skallagrímur tapaði því þremur af fjórum síðustu leikjum sínum í deildinni sem er líklega ekki alveg besta veganestið fyrir úrslitakeppnina en nýliðarnir mega að öðru leyti vera sáttir við sína stöðu.

Grindavík var þegar fallið niður í 1. deild en kvaddi með góðum útisigri á Stjörnunni, 67:53. Ingunn Embla Kristínardóttir skoraði 19 stig fyrir Grindavík og Angela Rodriguez 15 en Danielle Rodriguez skoraði 23 stig fyrir Stjörnuna og Jónína Þórdís Karlsdóttir 10.

Haukar unnu stórsigur gegn Njarðvík á útivelli, 83:57, og niðurstaða lokaumferðarinnar í gærkvöld var því sú að í öllum fjórum leikjunum sigraði liðið sem var neðar á stigatöflunni. vs@mbl.is