Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson
„Við erum með ákvæði í stjórnarsáttmálanum um að ríkið færi útgáfu námsefnis í auknum mæli til sjálfstæðra útgefenda. Ég hyggst vinna að því að það geti með einhverjum hætti náð fram að ganga.

„Við erum með ákvæði í stjórnarsáttmálanum um að ríkið færi útgáfu námsefnis í auknum mæli til sjálfstæðra útgefenda. Ég hyggst vinna að því að það geti með einhverjum hætti náð fram að ganga. Við erum að undirbúa það í ráðuneytinu að gera einhverjar breytingar á þessu fyrirkomulagi,“ segir Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra.

Hann segist hafa heyrt þau sjónarmið Viðskiptaráðs að núverandi fyrirkomulag jafngildi ríkiseinokun í útgáfu námsefnis og hindri beinlínis framþróun á sviði námsgagna. Einnig hafi hann átt fund með fulltrúa Félags bókaútgefenda, sem telji einokun ríkisins í námsgagnaútgáfu óeðlilega.

Kristján Þór segir Menntamálastofnun í sínum huga fyrst og fremst eftirlitsstofnun en hvaða leiðir eigi að fara til breytinga sé erfitt að segja til um. Það verði verkefni ráðuneytisins á næstunni og m.a. hljóti að koma til skoðunar að efla Námsgagnasjóð þannig að hann fjármagni alla þessa útgáfu. Innihald efnisins skipti mestu máli.

„Ég er ekki í stöðu til að ákveða hvað sé best að gera. Það er hins vegar augljóst að ákveðnar breytingar hafa átt sér stað með aukinni tækni. Í nágrannalöndunum er vinna við námsefni meira tengd við skólana en áður var. Flestir sem um þessi mál véla horfa til þess að fyrirkomulagið sé barn síns tíma og það beri að skoða aðrar leiðir,“ segir Kristján Þór.