Kvartett Félagarnir Eyþór Gunnarsson, Þorgrímur Jónsson, Ólafur Jónsson og Scott McLemore leika á Múlanum í kvöld og eru á leið í hljóðver.
Kvartett Félagarnir Eyþór Gunnarsson, Þorgrímur Jónsson, Ólafur Jónsson og Scott McLemore leika á Múlanum í kvöld og eru á leið í hljóðver.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Efnisskráin samanstendur að mestu af frumsaminni tónlist ásamt vel völdum lögum nokkurra djassmeistara samtímans,“ segir saxófónleikarinn Ólafur Jónsson sem ásamt kvartetti sínum leikur á tónleikum Jazzklúbbsins Múlans á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, í kvöld kl. 21. „Flest laganna samdi ég á síðustu tveimur árum, en síðan slæðast eldri lög með í bland. Meðal annars tvö lög sem eru ríflega tuttugu ára gömul,“ segir Ólafur og tekur fram að lögin séu af ýmsum toga. „Þetta er frekar aðgengileg djasstónlist í hefðbundnum stíl, allt frá sving til ballaðna með viðkomu í latíntónlist.“

Kvartett Ólafs Jónssonar skipa auk Ólafs Eyþór Gunnarsson á píanó, Þorgrímur Jónsson á bassa og trommuleikarinn Scott McLemore. „Við Þorgrímur og Scott höfum leikið saman undir merkjum Jónsson & More, en nú bætist Eyþór í hópinn. Við þekkjumst vel í bransanum, enda leikið saman í ýmsum myndum með ólíkum hópum,“ segir Ólafur sem komið hefur víða við og tekið þátt í fjölmörgum tónleikum og uppákomum síðustu tvo áratugina eða svo ásamt því að vera meðlimur í Stórsveit Reykjavíkur.

„Við lékum hluta laganna á tónleikum í fyrra, en mikilvægt er að prófa efnið á tónleikum áður en farið er í upptökur,“ segir Ólafur, en kvartettinn heldur í hljóðver í lok apríl til að taka upp fyrstu sólóplötu Ólafs. „Platan er væntanleg í ágúst, en í þeim sama mánuði fagna ég fimmtugsafmæli mínu.“

Þess má að lokum geta að miðar fást í miðasölu Hörpu og á vefsíðunum harpa.is og tix.is.