Fyrir viku rúmri skrifaði Hjálmar Freysteinsson á fésbókarsíðu sína: „Ég sé Morgunblaðið örsjaldan og les þá bara eitt: Hér kemst á hæsta stig hroðvirkni og sleifarlag. Það vantar vísu eftir mig í Vísnahornið í dag!

Fyrir viku rúmri skrifaði Hjálmar Freysteinsson á fésbókarsíðu sína: „Ég sé Morgunblaðið örsjaldan og les þá bara eitt:

Hér kemst á hæsta stig

hroðvirkni og sleifarlag.

Það vantar vísu eftir mig

í Vísnahornið í dag!“

Páll Imsland heilsaði Leirliði undir miðnætti á laugardag með limru um kaptein Sigurbjörgu:

Á báti' reri Sigurbjörg sæla

og sú var nú ekki að væla.

Hún sneri' ei til hlés

þó að sædrífa blési',

hvort sem sjólag var blítt eða bræla.

Helgi R. Einarsson hefur orð á því, að í pólitíkinni skipist fljótt veður í lofti:

Í þingheimi riðu menn röftum

og ruddu burt axarsköftum.

Við annað nú kljást,

því kræsingar fást

og krónur með engum höftum.

Um tryggingabæturnar hefur Helgi þetta að segja:

Ég man eftir Guðmundi gikk,

sem græddi' er á bakið fékk hnykk.

Þá hleypti' ann í brýrnar,

keypti sér kýrnar

og konuna, allt fyrir slikk.

Því safnaðist að honum auður,

sem ævistig þrætt hafði snauður.

Hann tryggur er frúnni,

tutlar úr kúnni,

(en tryggingasalinn er dauður).

Sagan endurtekur sig, – hér yrkir Helgi um Tyrkjaárið 2017:

Um atkvæðin Erdogan biður

og í Evrópu riðlast því friður.

Til höfðingjans sást

er af einlægri ást

hann óskar oss norður og niður.

(Fyrir Erdogan má setja Eddi nú)

Gunnar J. Straumland yrkir á Boðnarmiði og veit hvað hann syngur!:

Oft ég gleymi hvað ég kvað

og hvað ég þyrfti að muna.

Ringlaður svo ég reyni að

ráða í lífsgátuna.

Ef við sjáum sannleikann

síst við megum treysta á hann.

Með sínum augum annar fann

útgáfuna sem hann kann.

Hreinn Guðvarðarson gefur vísnasmiðum holl ráð á Boðnarmiði:

Flestir andann vilja virkja.

Vert og skylt að keppa að því.

En þeir sem kunna ekki að yrkja

ættu bara að sleppa því.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is