[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsstofnun telur að nægilegur grundvöllur sé til að veita leyfi fyrir 1. áfanga landfyllingar við Elliðaárvog miðað við það mat á umhverfisáhrifum sem farið hefur fram.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsstofnun telur að nægilegur grundvöllur sé til að veita leyfi fyrir 1. áfanga landfyllingar við Elliðaárvog miðað við það mat á umhverfisáhrifum sem farið hefur fram. Á þessum landfyllingum á að rísa mikil íbúðabyggð vestan við núverandi Bryggjuhverfi, sem brátt verður fullbyggt.

Skipulagsstofnun setur eftirfarandi þrjú skilyrði fyrir leyfisveitingunni.

• Gengið verði úr skugga um hættu á mengun úr neðri lögum botnsets, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

• Framkvæmdasvæði verði afmarkað með görðum eða öðrum aðgerðum til að takmarka eins og kostur er að grugg berist til búsvæða laxfiska á ósasvæði Elliðaánna. Haft verði samráð við Hafrannsóknastofnun um útfærslu þeirra aðgerða.

• Framkvæmdatími verði bundinn við þann tíma árs þegar laxfiska er almennt ekki að vænta á ósasvæðinu.

Hinn 3. maí 2016 lagði Reykjavíkurborg fram frummatsskýrslu um landfyllingu í Elliðaárvogi til athugunar hjá Skipulagsstofnun, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í framhaldinu leitaði Skipulagsstofnun umsagna um málið hjá fjölda stofnana og fyrirtækja. Hinn 7. desember 2016 lagði Reykjavíkurborg fram matsskýrslu og óskað eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Í matsskýrslu kemur fram að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé Elliðaárvogur eitt af þremur lykilsvæðum í framtíðaruppbyggingu borgarinnar. Markmið landfyllingar sé að fylgja eftir stefnumörkun aðalskipulagsins og styðja við þá stefnu með auknu framboði á byggingarlandi.

Fram kemur í matsskýrslunni að heildarstærð fyllingar verði um 13 hektarar og sé efnisþörf gróflega áætluð um 1-1,2 milljónir rúmmetra. Fyllingin verði varin með sjóvarnargörðum og sé áætluð grjótþörf í garðanna um 21.000 rúmmetrar. Gert sé ráð fyrir að gerð landfyllingar geti tekið a.m.k. 3-4 ár eftir að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út. Fyllingarefni verður komið fyrir á svæðinu og það látið setjast til í ákveðinn tíma áður en framkvæmdir geti hafist.

Í matsskýrslu kemur einnig fram að við gerð 1. áfanga, sem er áætlaður 2,5 hektarar, verði nær eingöngu notast við efni sem safnast hafi upp á athafnasvæði Björgunar. Það sem vantar upp á sé gert ráð fyrir að fáist með sjódælingu á efni. Samið hefur verið við Björgun um að fyrirtækið geri landfyllinguna en Björgun mun hætta starfsemi við Elliðaárvog í maí 2019. Þegar 1. áfanga sé lokið verði framhaldið metið með tilliti til niðurstaðna vöktunar á laxfiskum.

Viðkvæm staðsetning

Eðli málsins samkvæmt er þessi staðsetning landfyllingarinnar viðkvæm vegna nálægðarinnar við ósa Elliðaánna. Rannsóknir hafi sýnt mikilvægi ósasvæðisins fyrir gönguseiði sem og fullorðna laxa við lífeðlisfræðilega aðlögun að breyttu seltumagni. Í Elliðaám og Elliðavatni sé að finna allar tegundir ferskvatnsfiska hérlendis, þ.e. lax, bleikju, urriða, hornsíli og ál. Allar þessar tegundir geti farið á milli ferskvatns og sjávar á einhverju tímaskeiði á lífsferlinu.

Samkvæmt matsskýrslu sýna efnagreiningar jafnan styrk þungmálma í botnseti á svæðinu. Flest gildin flokkist sem lág eða mjög lág að undanskildum kopar og nikkel. Af þessum sökum verði lögð áhersla á að hreyfa botnset sem minnst við framkvæmdir. Niðurstaða rannsókna á yfirborðslagi botnsets styðji það vinnulag að byggja garða til þess að loka af fyllingarsvæði að hluta sem komi í veg fyrir að grugg og mengað set berist frá svæðinu .