Nýliði Viðar Ari Jónsson spilaði fyrstu landsleikina í vetur.
Nýliði Viðar Ari Jónsson spilaði fyrstu landsleikina í vetur. — AFP
Kristján Jónsson í Parma Miklar breytingar hafa átt sér stað á ferli knattspyrnumannsins Viðars Ara Jónssonar á skömmum tíma.

Kristján Jónsson

í Parma

Miklar breytingar hafa átt sér stað á ferli knattspyrnumannsins Viðars Ara Jónssonar á skömmum tíma. Fyrir nokkrum mánuðum var hann leikmaður Fjölnis í Pepsí-deildinni og nafn hans var ekki í umræðunni um leikmenn sem væru að banka á dyr A-landsliðsins. Viðar fékk hins vegar tækifæri í vináttulandsleikjum í janúar. Nú er hann í landsliðshópnum í fyrsta skipti í aðdraganda mótsleiks og í millitíðinni hefur hann gert samning við Brann í Noregi um að gerast atvinnumaður.

„Heldur betur. Síðustu tvær vikur hafa verið virkilega „busy“ hjá karlinum. Maður er búinn að vera á ferðinni fram og til baka. Ég fékk samning hjá Brann eftir að hafa verið þar til reynslu. Ég fór í æfingaferð með Brann í kjölfarið og fékk síðan þær fréttir að ég hefði verið valinn í landsliðið. Ég fór því beint þaðan í landsliðsverkefnið. Það er því búið að vera rót á mér en þetta er hrikalega spennandi og nákvæmlega það sem maður hefur unnið að. Ég er kannski ekki búinn að átta mig á þessu enn þá en það kemur,“ sagði Viðar og fer ekki leynt með ánægju sína yfir því að vera í landsliðinu í aðdraganda leiks í undankeppni HM.

Gersamlega geggjað

„Þetta er það stærsta sem maður hefur fengið að taka þátt í á ferlinum og staður sem maður vill vera á. Engin spurning. Mér fannst ganga vel bæði í Kína, þar sem ég fékk minna að spila, og svo í Las Vegas þar sem ég fékk að spila. Ég var sáttur við hvernig ég stóð mig þar. Mér fannst virkilega gaman að heyra á blaðamannafundinum að þjálfarateymið hafi verið ánægt með mig. Þetta er það sem maður lét sig dreyma um, ekki síst þegar maður var gutti. Þetta er svolítið óraunverulegt en gersamlega geggjað,“ sagði Viðar Ari Jónsson í samtali við Morgunblaðið á landsliðsæfingu í gær. kris@mbl.is