Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Eftir Jónas Haraldsson: "Vegna Silfru eru Þingvellir langt frá því að geta talist til óspilltrar náttúru"

Vegna þeirrar atvinnustarfsemi sem níu froskköfunarfyrirtæki reka nú í gjánni Silfru í miðjum friðlýstum þjóðgarðinum á Þingvöllum og þeirra dauðsfalla og alvarlegu slysa sem þar hafa orðið, þá hafa nú verið settar hertar öryggisreglur, eins og skýrt hefur verið frá. Það er allra góðra gjalda vert meðan enn um sinn er leyft illu heilli að stunda þessa köfunarstarfsemi í Silfru. Kjarni málsins snýst þó ekki um öryggisbúnað, fjöldatakmarkanir froskkafara, læknisvottorð o.s.frv., heldur um náttúruvernd Þingvalla, sem virðist vera aukaatriði í samanburði við allar tekjurnar sem ferðaþjónustuiðnaðurinn hefur af þessari atvinnustarfsemi þarna og upplifun froskkafaranna. Engin skylda er til að útvega fyrirtækjum í afþreyingariðnaði aðstöðu til atvinnurekstrar í þjóðgarðinum eða í nokkrum öðrum tilgangi. Þá hefur líka verið á það bent, að ekki sé hugað að vatnsvernd vegna köfunar í Silfru og vísindalega sannað fyrir tveimur árum að lífríkinu hefur verið raskað í gjánni og væntanlega versnað eftir það.

Vegna Silfru eru Þingvellir langt frá því að geta talist til óspilltrar náttúru, sem var þó upphaflegi tilgangurinn með allri þessari friðun þjóðgarðsins á Þingvöllum og þá ekki síður að koma Þingvöllum á heimsminjaskrá UNESCO. Til þess að það sé hægt, þá verður viðkomandi staður að fullnægja ýmsum skilyrðum og er eitt þeirra að full sátt ríki um verndun staðarins. Því miður er það ekki raunin í dag varðandi verndun Þingvalla, eins og deilurnar undanfarið um froskköfunina í Silfru sýna fram á. Sú starfsemi sem rekin er í Silfru brýtur gróflega í bága við grundvallarforsendur þess, að þjóðgarðurinn á Þingvöllum sé á heimsminjaskrá UNESCO og eigi í dag yfirhöfuð nokkurt erindi á þá skrá. Hér verður að ganga hreint til verks. Annað hvort verður að stöðva alfarið þennan atvinnurekstur köfunarfyrirtækjanna, þannig að hægt verði að njóta óskertrar náttúrunnar, eins og tilgangur var alltaf með friðlýsingu Þingvalla eða þá að Þingvellir verði teknir af heimsminjaskránni. Varla vilja menn vera þar á fölskum forsendum eða skreyta sig með stolnum fjöðrum til þess eins að draga erlenda ferðamenn til Þingvalla. Hef ég nú beint því formlega til Heimsminjanefndar Íslands, að hún taki málið til meðferðar af þessum ástæðum.

Það er þó ekki bara að náttúruvernd Þingvalla varðandi Silfru sé ekki höfð í huga, heldur er horft alfarið framhjá því, að lögmæti leyfisveitinga til froskköfunar hefur aldrei verið fyrir hendi. Í 6. mgr. 11. gr. reglugerðar um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð nr. 848/2005, kemur fram að meginreglan er bann við allri köfun. Þingvallanefnd getur þó leyft köfun á vissum svæðum og árstímum, sem yrði í öllu falli að túlka mjög þröngt og afmarkað með tilliti til hins friðlýsta þjóðgarðar. Þetta reglugerðarákvæði hefur aldrei haft lagastoð og hafa því allar leyfisveitingar til köfunar verið ólögmætar frá upphafi. Þetta reglugerðarákvæði brýtur enda gróflega í bága við meginmarkmið, tilgang, forsendur og vilja löggjafans, sem m.a kemur skýrt fram m.a. í 1. mgr. 3. gr. laganna um þjóðgarðinn á Þingvöllum nr. 47/2004, þar sem segir m.a „Land þjóðgarðsins skal vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari.“ Til þess að þessi köfunarstarfsemi geti verið lögleg þarf heimildin til köfunar að koma fram beint og berum orðum í sjálfum lagatextanum, þar sem þessi atvinnustarfsemi brýtur algerlega í bága við frumforsendur laganna, sem eru náttúrvernd og friðlýsing Þingvalla. Hefur örugglega ekki verið gert ráð fyrir því við setningu reglugerðarinnar að til kæmi stórfelldur atvinnurekstur í froskköfun eða sund iðkað í stórum stíl í þessari náttúruperlu, sem gjáin er. Alls voru kafararnir 50 þúsund í fyrra, en einn rekstraraðilinn benti á að hægt væri að taka við 150 þúsund manns, fengist opnunartíminn í gjánni lengdur. Það verður þó varla úr þessu.

Hvað Silfru varðar þá er ekkert sem heitir bæði og, þ.e. náttúruvernd og froskköfun, heldur annaðhvort eða, þ.e. náttúruvernd eða atvinnustarfsemi. Velji menn að hafa þessa köfunarstarfsemi þarna áfram og gefa náttúruverndina þarna upp á bátinn, þá þarf í fyrsta lagi að gera leyfisveitingar til köfunar lögmætar. Einnig þarf að taka þjóðgarðinn á Þingvöllum af heimsminjaskrá UNESCO, enda óheiðarlegt að vera að villa um fyrir mönnum. Þá verður eins og ég hef margsinnis bent á að gæta jafnræðis og leyfa öðrum í afþreyingariðnaðinum að fá líka aðstöðu til að reka starfsemi sína þarna í þjóðgarðinum, enda ýmiss konar möguleikar fyrir hendi. Nú er bara að velja á milli. Annaðhvort eða. Bæði og getur aldrei gengið upp.

Í lagasafninu eru lögin um þjóðgarðinn á Þingvöllum sett í kaflann náttúruvernd og friðun lands. Miðað við stöðuna í dag vegna Silfru, þá er spurning, hvort ekki væri nær raunveruleikanum að setja lögin um Þingvelli í kaflann um fjármál og viðskipti.

Höfundur er lögfræðingur.