Sturla Sighvatsson fæddist 18. nóvember 1947 í Reykjavík Hann lést 15. mars 2017 á Landspítalanum við Hringbraut.

Foreldrar hans voru Sighvatur Bjarnason frá Akranesi, f. 17. september 1911, d. 29. janúar 1991, og Jórunn Ármannsdóttir frá Akranesi, f. 2. janúar 1917, d. 8. nóvember 2000. Systur hans eru Kristín Sighvatsdóttir, f. 14. júní 1946, á Akranesi og Helga Sighvatsdóttir, f. 21. júní 1952 í Reykjavík, og systurdóttir er Guðlaug Jónsdóttir, f. 1. nóvember 1968 í Reykjavík. Sturla var félagi í Arkitektafélagi Íslands og öflugur liðsmaður í Íslenska íhugunarfélaginu.

Sturla verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í dag, 22. mars 2017, klukkan 15.

Elsku Sturla kvaddi okkur í hinsta sinn 15. mars, friðsæll að vanda og í blíðum svefni.

Sturla var langt á undan sinni samtíð og snemma á skólaárunum í Þýskalandi þar sem hann stundaði nám í arkitektúr, kynntist hann innhverfri íhugun og Maharishi Mahesh Yogi.

Þetta var ekki svo þekkt þá nema bara Bítlarnir sem sóttu í aðstoð og friðsæld Maharishi og innhverfa íhugun. En Sturla okkar hafði trú á alheiminum og þeirri jákvæðu orku sem skapast þegar fallegar hugsanir og friðsæld ráða ríkjum yfir ótta og reiði. Hann helgaði líf sitt þessari iðju og stóð sem næst Maharishi sjálfum í Hollandi og ferðaðist þaðan til Indlands, Bandaríkjanna, Ítalíu og víðar í þeirri trú að ljósið skíni hæst þegar fólk kemur saman og biður fyrir friðsælli og betri heimi. Í dag hefur verið vísindalega sannað að hugurinn, orkan og innhverf íhugun hefur varanleg bætandi áhrif á heiminn.

Sturla þurfti enga sönnun, hann vissi þetta bara, enda bráðvelgefinn maður og lét gott af sér leiða hvar sem hann kom.

Sturla Sighvatsson var fæddur 18. nóvember, 1947 í Reykjavík. Hann er sonur yndislegra foreldra, Sighvats Bjarnasonar og Jórunnar Ármannsdóttur.

Hann var besti vinur systra sinna, Kristínar Sighvatsdóttur og Helgu Sighvatsdóttur, á uppeldisárum þeirra systkina og mikill leikfélagi. Hann vildi alltaf passa upp á systur sínar og á sumrin nutu þau útivistar hja frændfólki í sveitinni í Þykkvabæ.

Sturla útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1967, og varð master í arkitektúr frá Technische Universität Carolo Wilhelmina zu Braunschweig árið 1974.

Hann vann sem arkitekt í fjölda ára víðs vegar um heiminn.

Veikindi hrjáðu bróður okkar og frænda þegar hann flutti til Íslands aftur árið 2000 og lifði hann einföldu, friðsælu lífi s.l. ár við sjávargötuna í Reykjavík.

Við munum sakna þess að fara með honum í göngutúra og eftirmiðdagskaffi og alltaf var hann mikill herramaður við systur sínar, hann elsku Sturla.

Ljós Sturlu mun skína áfram þótt farinn sé hann af jörðu og hans framlag til friðar mun lifa áfram. Hans trú á alheiminn mun styrkja okkar trú um friðsæld og umhyggju.

Megir þú hvíla í friði, elsku Sturla okkar, og ljós þitt halda áfram að skína.

Kristín Sighvatsdóttir,

Helga Sighvatsdóttir,

Guðlaug Jónsdóttir.

Kveðja frá Íslenska íhugunarfélaginu

Sturla var við nám í arkitektúr í Þýskalandi árið 1970 þegar hann kynntist Maharishi Mahesh Yogi sem þá var heimsfrægur fyrir að hafa kennt Bítlunum hugleiðslutækni sína: Transcendental Meditation. Sturla hreifst af kenningum þessa indverska yoga um heilbrigða lífshætti og frið á jörð, einkum því atriði að ein einföld andleg tækni gæti komið einstaklingnum andlega og líkamlega í svo friðsælt ástand að ekki bætti aðeins persónulega líðan heldur hefði jafnframt jákvæð áhrif á alla aðra í kring og framgöngu þeirra í veröldinni.

Heim kominn nýútskrifaður arkitekt vann hann við teikningar hjá ýmsum þekktum arkitektum svo sem Ingimundi Sveinssyni. Fljótlega opnaði Sturla eigin teiknistofu á Hverfisgötu 18 þar sem hann teiknaði meðal annars einbýlishús frændfólks síns á Akranesi, ýmis smærri verk í Reykjavík og tók þátt í samkeppnum eins og kappsamra ungra arkitekta er háttur.

Sturla lagði áfram stund á hugleiðsluna og hóf, ásamt nokkrum félaga sinna sem einnig höfðu lært Transcendental Meditation erlendis, að kynna þessa aðferð á Íslandi undir nafninu Innhverf íhugun. Brátt tóku hin andlegu fræði hug hans allan. Hann lagði niður arkitektastofuna, flutti aftur utan og settist að í höfuðstöðvum Maharishi, fyrst í Sviss og síðar í Hollandi og Bandaríkjunum. Þar tók hann þátt í byggingarstarfsemi á vegum íhugunarhreyfingar Maharishi og stóð meðal annars, ásamt öðrum arkitektum, að byggingu bústaðar meistarans í Vlodrop í Hollandi meðfram því að stunda íhugunina og leggja sig af kappi eftir fræðilegri hlið tækninnar undir handarjaðri Maharishi. Þannig má til sanns vegar færa að Sturla hafi varið starfsævi sinni á andlegum sviðum í þágu meðborgara sinna, trúr hugsjóninni um að bæta heiminn með einfaldri huglægri einstaklingstækni. Eftir 25 ára dvöl erlendis flutti Sturla heim á ný eftir að hann fór að finna fyrir veikindum. Hann bjó alla tíð einn og stundaði andlega iðkun sína í Reykjavík til æviloka.

Íslenska íhugunarfélagið þakkar að leiðarlokum fyrir það óeigingjarna starf sem Sturla vann í þágu íhugunarhreyfingar Maharishi og vottar fjölskyldu hans og vinum dýpstu samúð.

Ari Halldórsson,

Kristinn Arnbjörnsson,

Sigurþór Aðalsteinsson.