[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Parma Kristján Jónsson kris@mbl.

Í Parma

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bakvörðurinn sprettharði, Birkir Már Sævarsson, er leikjahæstur í íslenska landsliðinu sem nú undirbýr sig fyrir leik gegn Kósóvó í undankeppni heimsmeistaramótsins 2018 en leikurinn fer fram í Albaníu á föstudagskvöldið. Morgunblaðið ræddi við Birki í Parma þar sem landsliðið æfir í þrjá daga áður en haldið verður til Albaníu.

Birkir hefur leikið 69 A-landsleiki og sá næsti verður því tímamótaleikur hjá Birki. „Persónulega finnst mér þetta mjög skrítið. Ég verð að viðurkenna það,“ sagði Birkir og hló. „Maður sá það ekki alveg fyrir sér þegar maður var að byrja í þessu fyrir nokkrum árum að maður yrði einhvern tíma leikjahæstur. En þetta er frábært og ég er mjög stoltur af þessu,“ sagði Birkir.

Hann áttaði sig raunar ekki á þessari stöðu fyrr en landsliðshópurinn var kynntur síðasta föstudag. Hann gerði ráð fyrir því að fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson væri leikjahæstur en Aron er aðeins leik á eftir með sína 68 A-landsleiki.

„Mér fannst mjög sérstakt þegar ég sá þetta á glærunni hjá Heimi á blaðamannafundinum. Ég hafði ekkert pælt í þessu en hélt að Aron væri með fleiri leiki en ég. Sennilega næ ég honum alltaf í janúarleikjunum og fer þá aðeins fram úr honum. Ég þarf að spila eins mikið og hægt er til að halda honum fyrir aftan mig,“ sagði Birkir léttur.

Varnarlína íslenska liðsins hefur í flestum mótsleikjum frá því sumarið 2013 verið skipuð þeim Birki og Ara Frey Skúlasyni í bakvarðastöðunum og Kára Árnasyni og Ragnari Sigurðssyni í miðvarðastöðunum. Nú bregður svo við að Ragnar og Kári hafa ekki spilað ýkja mikið að undanförnu en Birkir segist ekki hafa áhyggjur af stöðunni.

„Nei ég hef engar áhyggjur. Hjá þeirra félagsliðum hefur Kári misst af nokkrum leikjum en ekki mörgum og Ragnar verið inn og út þótt hann hafi að mestu verið á bekknum upp á síðkastið. Ég veit ekki hvað þetta eru margir landsleikir sem þeir hafa spilað, og við Ari með þeim. Ég held að það gleymist ekkert á nokkrum vikum eða mánuðum hvernig við spilum saman. Ef við spilum saman á móti Kósóvó þá held ég að það verði ekkert vandamál,“ sagði Birkir Már Sævarsson í samtali við Morgunblaðið.

„Landsliðið er annað lið“

Sjálfur sagðist Ragnar Sigurðsson ekki láta stöðu mála hjá Fulham hafa áhrif á sig í landsliðsverkefnum. „Það er alltaf langbest að spila reglulega og vera í þeim takti. Það hefur því væntanlega áhrif á sjálfstraustið hjá öllum sem ekki eru reglulega í byrjunarliðinu hjá sínu félagsliði. Þessi staða hefur þó ekki áhrif á sjálfstraust mitt hér. Landsliðið er allt annað lið og hjá íslenska landsliðinu bakka allir hver annan upp. Hjá Fulham hefur þessi staða haft smá áhrif á mig,“ sagði Ragnar en viðtalið við hann í heild sinni er að finna á mbl.is/sport/fotbolti frá því í gær.