Frestur til þess að veita umsögn um frumvarp um afnám einkaréttar ríkisins á smásölu áfengis rann út þann 17. mars sl.

Frestur til þess að veita umsögn um frumvarp um afnám einkaréttar ríkisins á smásölu áfengis rann út þann 17. mars sl. Alls bárust 73 umsagnir, en það virðist hafa farist fyrir hjá nefndasviði Alþingis að setja síðustu umsagnirnar inn á vef þingsins fyrir helgi.

Þrjár jákvæðar umsagnir um frumvarpið hafa borist til viðbótar og eru því jákvæðar umsagnir sex talsins, en ekki þrjár eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Félag atvinnurekenda (FA), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF)eru jákvæð í garð frumvarpsins, en þó með ákveðnum fyrirvörum.

FA segir m.a. í umsögn sinni að félagið telji að málið hafi tekið miklum og jákvæðum breytingum frá síðustu tveimur þingum. FA telur þó að óforsvaranlegt væri að Alþingi samþykkti frumvarpið án þess að bæta við það ákvæðum um breytta inheimtu áfengisgjalds.

Í umsögn SVÞ segir m.a. í niðurlagi: „SVÞ ítreka enn og aftur að samtökin fagna því frumkvæði sem lagt er til í frumvarpinu um að afnema einkarétt íslenska ríkisins varðandi smásölu á áfengi og styðja samtökin það markmið.“ agnes@mbl.is