Meiðsli Svava Rós Guðmundsdóttir vonast til að geta spilað á ný á morgun en hún er í baráttu um sæti í landsliðinu.
Meiðsli Svava Rós Guðmundsdóttir vonast til að geta spilað á ný á morgun en hún er í baráttu um sæti í landsliðinu. — Morgunblaðið/Eggert
Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég er að reyna að ná mér sem best og vonast til að sýna mig áður en næsti landsliðshópur verður valinn,“ sagði Svava Rós Guðmundsdóttir, knattspyrnukona úr Breiðabliki, við Morgunblaðið í gær.

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég er að reyna að ná mér sem best og vonast til að sýna mig áður en næsti landsliðshópur verður valinn,“ sagði Svava Rós Guðmundsdóttir, knattspyrnukona úr Breiðabliki, við Morgunblaðið í gær. Svava meiddist í ökkla í byrjun janúar sem setti stórt strik í reikninginn hjá henni, bæði varðandi möguleikann á að fara í atvinnumennsku til Svíþjóðar og að vinna sér sæti í EM-hópi Íslands fyrir sumarið.

„Ég missteig mig svo illa að ég sleit smá í liðbandi í ökklanum. Þetta krefst þó ekki aðgerðar og ætti að lagast af sjálfu sér á tveimur mánuðum. Nú eru tveir mánuðir liðnir og ég er byrjuð að æfa á fullu, og planið er að spila næsta leik,“ sagði Svava en Blikar mæta FH í Lengjubikarnum á morgun.

„Þetta er orðið mikið betra en það var. Ég var að kvelja mig til að byrja með því ég vissi ekki hvað þetta var, og fór ekki í myndatöku fyrr en mánuði eftir meiðslin. Ég þurfti því að hvíla mig aðeins lengur og fór svo hægt og rólega af stað,“ sagði Svava.

Áður en eðli meiðslanna kom í ljós hafði hún farið til reynslu hjá Gautaborg, einu af betri liðum sænsku úrvalsdeildarinnar, í janúar.

„Ég gat ekkert gert í raun úti. Ég reyndi að kvelja mig og hélt að þetta væri bara aumingjaskapur í mér, en svo var ekki,“ sagði Svava hlæjandi. „Vegna meiðslanna þá er skiljanlegt að þetta hafi ekki skilað neinu, en þjálfarinn sagðist bara vonast til að sjá meira af mér þegar ég væri orðin góð af þeim,“ bætti Svava við.

Svava er 21 árs gamall kantmaður sem varð bikarmeistari með Breiðabliki í fyrra og Íslandsmeistari árið áður. Með því að spila leikinn á morgun og svo í undanúrslitum Lengjubikarsins 1. apríl vonast hún til að geta unnið sér sæti í landsliðinu sem leikur gegn Slóvakíu og Hollandi ytra, 6. og 11. apríl. Talsvert er um forföll í kantstöðum landsliðsins vegna meiðsla.