Sögulegt handaband Martin McGuinness tekur hér í hönd Elísabetar II. Englandsdrottningar árið 2012. McGuinness lést í gær, 66 ára að aldri.
Sögulegt handaband Martin McGuinness tekur hér í hönd Elísabetar II. Englandsdrottningar árið 2012. McGuinness lést í gær, 66 ára að aldri. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Martin McGuinness, einn af helstu forvígismönnum Sinn Féin, stjórnmálasamtaka Írska lýðveldishersins, IRA, lést í gær, 66 ára að aldri, úr sjaldgæfum hjartasjúkdómi.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Martin McGuinness, einn af helstu forvígismönnum Sinn Féin, stjórnmálasamtaka Írska lýðveldishersins, IRA, lést í gær, 66 ára að aldri, úr sjaldgæfum hjartasjúkdómi. McGuinness var á yngri árum einn af liðsforingjum IRA og næstráðandi samtakanna um stund. Síðar á ævinni beitti hann sér fyrir því að koma á friði á Norður-Írlandi og gegndi embætti varaforsætisráðherra norðurírsku heimastjórnarinnar frá 2007 og þar til hann dró sig óvænt í hlé í janúar síðastliðnum, meðal annars af heilsufarsástæðum.

Skjótur frami innan IRA

McGuinness fæddist 1950 í Derry við norðurströnd Norður-Írlands, en mikil spenna ríkti þar á uppvaxtarárum hans milli mótmælenda og kaþólikka. Hann varð meðlimur í írska lýðveldishernum á unglingsaldri og átti þar skjótan frama. Hann var til að mynda næstráðandi IRA í Derry árið 1972, en það ár skutu breskir hermenn á 26 stuðningsmenn sameinaðs Írlands og felldu 14 á „blóðuga sunnudeginum,“ en atvikið jók mjög stuðning við IRA í Derry.

Ári síðar var McGuinness handtekinn í nágrenni bíls, sem hlaðinn var sprengiefnum. Var hann í kjölfarið dæmdur af hryðjuverkadómstól Írlands í sex mánaða fangelsi. Hætti McGuinness í kjölfarið að mestu þátttöku sinni í IRA og hóf að beita sér á vettvangi Sinn Féin.

Beitti sér fyrir friði

Í upphafi tíunda áratugarins hófust þreifingar á milli Sinn Féin og hinna flokkanna á Norður-Írlandi um leiðir til þess að binda enda á ofbeldið sem plagað hafði landið í rúmlega tvo áratugi. McGuinness leiddi þær viðræður og er sagður hafa leikið lykilhlutverk bak við tjöldin þegar friðarsamkomulagið, sem kennt er við föstudaginn langa, var gert árið 1998. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði í yfirlýsingu í gær að ekkert hefði orðið af friði ef McGuinness hefði ekki notið við.

Martin McGuinness braut enn blað í sögubókunum árið 2012, er hann hitti Elísabetu II. Englandsdrottningu og tók í hönd hennar. Þótti handabandið til merkis um það hversu langt friðarferlið á Norður-Írlandi var komið á veg, að einn af fyrrverandi leiðtogum IRA gæti tekið í hönd drottningarinnar, en hvorki Sinn Féin né IRA hafa nokkurn tímann viðurkennt yfirráð hennar yfir Norður-Írlandi. Hefði slíkt handaband því þótt óhugsandi fyrir ekki svo löngu.

Með fráfalli Martins McGuinness má því segja að nýr kafli sé hafinn í norðurírskum stjórnmálum.