Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Óla Björn Kárason: "Sá tími er löngu liðinn að stjórnendur Reykjavíkurborgar líti á það sem skyldu sína að tryggja nægjanlegt framboð á lóðum á sanngjörnu verði."

Meðalfjöldi íbúa höfuðborgarinnar var tæplega 40 þúsund á árunum 1937 til 1944 – fjölgaði úr 36 í 44 þúsund. Á þessum árum voru byggðar 2.042 íbúðir í Reykjavík. Á síðustu átta árum er meðalfjöldi höfuðborgarbúa liðlega 120 þúsund og lokið hefur verið smíði á 2.068 íbúðum.

Með öðrum orðum:

Á sama tíma og meðalfjöldi Reykvíkinga hefur þrefaldast er lokið við 26 fleiri íbúðir en á árunum fyrir lýðveldisstofnun.

Á árunum 1937 til 1944 var fjölgun íbúða sem hlutfall af íbúafjölda liðlega 5% en aðeins 1,7% á síðustu átta árum. Ef hlutfallið hefði verið það sama og fyrir og á stríðsárunum hefði íbúðum fjölgað um 6.200. Með öðrum orðum; íbúðir væru 4.100 fleiri en þær eru í dag.

Án fordæma

Skúli Halldórsson blaðamaður birti 12. mars sl. sérlega áhugaverða úttekt á stöðu húsnæðismála á mbl.is undir fyrirsögninni, „Ládeyða án fordæma á lýðveldistímanum“. Þar varpar hann ljósi á þann vanda sem er við að glíma í húsnæðismálum – kemst að rótum vandans: Á síðustu átta árum hafa ekki verið reistar jafnfáar íbúðir í Reykjavík í áratugi og aldrei á lýðveldistímanum.

Í fréttaskýringunni kemur fram að Íslendingar hafi verið tæplega 128 þúsund á stríðsárunum en eru nú 338 þúsund. Síðan segir:

„Væntanlega þarf engan að furða að eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu í dag sé langt umfram framboð, þegar reistar eru í höfuðborg landsins álíka margar íbúðir og gert var á tímum Kristjáns tíunda.“

Á síðustu átta árum hafa að meðaltali verið byggðar 259 íbúðir á ári í Reykjavík, að því er fram kemur í fréttaskýringunni. Allt frá 2008 hefur fjöldi nýrra íbúða verið langt undir árlegu meðaltali frá árinu 1929. Þá voru Reykvíkingar 26.428.

Hirðuleysi og tómlæti

Það þarf ekki sérfræðing til að komast að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefur sýnt hirðuleysi og tómlæti þegar kemur að húsnæðismálum. Stefna meirihluta borgarstjórnar í skipulagsmálum hefur búið til lóðaskort sem aftur hefur kallað fram gríðarlega hækkun á kaupverði íbúða og jafnvel enn meiri hækkun á húsaleigu.

Sá tími er löngu liðinn að stjórnendur Reykjavíkurborgar líti á það sem skyldu sína að tryggja nægjanlegt framboð á lóðum á sanngjörnu verði. Meirihluti borgarstjórnar hefur fyrst og síðast áhuga á að þétta byggðina en hefur hvorki skilning né áhuga á að koma í veg fyrir lóðaskort. Þétting byggðar getur verið ágæt en slíkar lóðir eru dýrar, með tilheyrandi flækjustigi. Til að kóróna lóðaskortsstefnuna, hefur meirihluti borgarstjórnar sýnt ótrúlega hugmyndaauðgi við að hækka álögur á húsbyggjendur, jafnt með því að hækka gjöld og innleiða ný s.s. sérstaka viðbótargreiðslu og gatnagerðargjald fyrir stækkun og nýbyggingar.

Öllum öðrum að kenna

Í raun hefur Reykjavíkurborg sagt sig frá húsnæðismálum – hætt að taka ábyrgð á þróun þeirra. Vill ekki kappkosta að tryggja nægjanlegt framboð lóða undir fjölbýli, einbýli og raðhús, á skikkanlegu verði. Allur vandi sem borgarbúar glíma við í húsnæðismálum er sagður ríkisvaldinu að kenna.

Fyrr í mánuðinum sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kokhraustur við mbl.is að ríkið hefði skilið unga fólkið eftir með því að þrengja að möguleikum þess. Og svo kenndi hann bönkunum um stöðuna og benti á byggingariðnaðinn. Í huga borgarstjóra er Reykjavíkurborg með öllu ábyrgðarlaus á ástandinu. Engu er líkara en að skorturinn, sem hefur verið drifkraftur hækkandi íbúðaverðs og þar með leiguverðs, komi meirihluta borgarstjórnar ekkert við.

Í þessum efnum eins og öðrum sem miður fara í höfuðborginni liggur sökin hjá öðrum. Fjárhagur A-hluta er bágborinn (svo ekki séu notuð sterkari orð) – ekki vegna fjárhagslegrar óstjórnar heldur vegna „skorts á tekjustofnum“, eins og borgarstjóri skýrði út. Þessi skortur á tekjustofnum varð líklega til þess að borgin taldi sig illa ráða við að fjarlægja dekkjakurl af sparkvöllum án sérstakrar fjárhagsaðstoðar frá ríkinu.

Undirliggjandi mein

Vandinn sem blasir við í húsnæðismálum verður því miður ekki leystur með því einu að ríkissjóður auki húsnæðisstuðning, – hækki leigu- og/eða vaxtabætur. Vandinn verður heldur ekki leystur með því að búa til fjárhagslegt svigrúm fyrir ungt fólk með því að gefa því heimild til að nýta séreignasparnað – skattfrjálst – til að eignast fyrstu íbúðina. Við þær aðstæður sem ríkja á húsnæðismarkaði er ekki við öðru að búast en að mestallt verði étið upp í tilbúnum skorti. Þannig eru líkur á því að aukinn stuðningur við leigjendur leiði til hærra leiguverðs og þar sem hagur leigusala batnar en leigjendur sitja eftir með sárt ennið, jafnvel í verri stöðu en áður. Svipað kann að gerast á sölumarkaði íbúða. Þegar barist er við skort munu seljendur en ekki kaupendur hagnast.

Þegar allt er komið í kaldakol í húsnæðismálum og leiga íbúðarhúsnæðis í hæstu hæðum, vegna skorts á lóðum undir nýjar íbúðir, eru dregnar fram gamalkunnar hugmyndir vinstri manna. Þak skal sett á húsaleigu. Lausnin eykur hins vegar vandann og leysir hann ekki. Framboð á leiguhúsnæði dregst saman – íbúðum sem boðnar eru til leigu fækkar og staða leigjenda versnar. Góðhjartaðir stjórnmálamenn geta ekki tekið einfalt lögmál hagfræðinnar úr gildi. Þeir geta hins vegar unnið að því að lagfæra undirliggjandi mein – skort á lóðum. Meirihluti borgarstjórnar hefur hins vegar ekki áhuga á lækningum af því tagi. Á meðan nærir og magnar heimatilbúinn skortur húsnæðisvandann.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.