Ingveldur Alfonsdóttir fæddist 31. ágúst 1935 í Alexandershúsi, Ólafsvík. Hún lést á Landspítalanum þann 16. mars 2017 eftir stutt veikindi.

Foreldrar hennar voru Alfons Kristjánsson sjómaður, f. 8. desember 1905, d. 4. ágúst 1961, og Ásthildur Guðmundsdóttir, húsfreyja í Ólafsvík, f. 3. mars 1910, d. 20. maí 1989. Systkini Ingveldar eru: Guðmundur, f. 27. ágúst 1933, d. 19.6. 2013. Kristján, f. 26. mars 1937, d. 11. desember 1993. Randver, f. 16.3. 1939, d. 12.12. 2006. Svava, f. 2. apríl 1940. Sigríður, f. 19. febrúar 1945. Aldís, f. 14. júní 1950.

Ingveldur giftist Sólbjarti Sigurði Júlíussyni þann 26.12. 1965. Foreldrar Sólbjarts voru Júlíus Sólbjartsson, f. 24.7. 1897, d. 9.7. 1977, sjómaður, lengst af á Arnarstapa á Snæfellsnesi, og Guðrún Sigurgeirsdóttir, f. 14.8. 1905, d. 25.12. 1984, húsmóðir á Arnarstapa.

Dóttir Ingveldar og stjúpdóttir Sólbjarts er Hildur Björnsdóttir, f. 10.5. 1958, en eiginmaður hennar er Ómar Ívarsson og eiga þau saman tvær dætur og tvö barnabörn. Börn Ingveldar og Sólbjarts eru Alfons Sólbjartsson, f. 27.6. 1965, en eiginkona hans er Ingibjörg Steindórsdóttir og eiga þau þrjú börn, þar af tvö saman og eitt barnabarn; Halldóra Sólbjartsdóttir, f. 27.6. 1968, en maður hennar er Guðmundur Bjarni Yngvason og eiga þau saman þrjú börn og eitt barnabarn; Linda Dröfn Sólbjartsdóttir, f. 3.6. 1973, en maður hennar er Ingvar Ragnarsson og eiga þau saman tvö börn.

Útför Ingveldar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði í Reykjavík.

Dag einn í ágúst 1990 var mér boðið á heimili Ingu og Badda, foreldra Halldóru, konunnar minnar, en þau höfðu flutt stuttu áður í Logafold í Reykjavík og byggt þar upp fallegt heimili, en þennan dag voru þau ekki heima.

Ég sá myndaalbúm á stofuborðinu og læddist í það til að reyna að sjá hvaða fólki tilvonandi eiginkona væri komin út af í albúminu. Sá ég fjölskylduna, sem var í alla staði til fyrirmyndar en þó tók ég sérstaklega eftir tilvonandi tengdó, ég var eins og flestir strákar sem óttast tengdamæður sínar. Ingveldur Alfonsdóttur var engin venjuleg tengdamamma.

Hún var dugnaðarforkur, ættuð af Snæfellsnesi, sem stjórnaði búi og börnum af myndugleika. Ég sá strax að ég gat ekki verið með neitt múður við tengdó frekar en aðrir.

Ég mun minnast Ingveldar með söknuði sem ákveðinnar dugnaðarkonu sem gædd var góðum húmor og hafði sérstaklega gott lag á börnum og barnabörnum, á milli okkar ríkti alltaf vinátta og gagnkvæm virðing og það er mikill missir fyrir okkur fjölskylduna að sjá á eftir þessum skörungi. Blessuð sé minning hennar.

Guðmundur Bjarni

Yngvason.

Amma mín var engin venjuleg kona, hún var einstök. Skemmtilegri og sterkari karakter er erfitt að finna. Amma tók alltaf á móti manni með brosi og veitingum. Hún var alltaf svo glöð að sjá mig og faðmaði mig og sagði mér ósjaldan hvað ég væri dugleg og hversu stolt af mér hún væri. Amma var hreinskilin og sagði manni alltaf hvað henni fyndist um ýmsa hluti, manni til mismikillar gleði. Hún var einnig dugleg að hrósa manni. Hvert einasta skipti sem ég kom til hennar hrósaði hún mér fyrir hversu fallega húð ég væri með og hversu falleg og lík móðir minni ég væri. Ég er heppin að hafa fengið að hafa ömmu hjá mér í 28 ár en það er samt hrikalega erfitt að kveðja. Ég á eftir að sakna þess að fara til hennar og spjalla við hana um tilveruna og lífið. Ég gæti skrifað endalausar sögur um hana ömmu en ég læt þetta nægja. Ég kveð þig með söknuði, amma mín, minning þín mun lifa með mér þar til við hittumst á ný.

Harpa Ýr Ómarsdóttir.

Elsku yndislega amma mín, takk fyrir allar fallegu og góðu minningarnar sem þú hefur gefið mér. Mér er svo minnisstætt þegar ég var hjá þér og afa á Gufuskálum þegar ég var 4 ára, man svo vel hvað mér leið vel hjá ykkur og hvað við skemmtum okkur vel. Ég fékk að koma með á leikskólann sem þú varst að vinna á, þú sagðir mér sögur og við sungum saman. Ég er svo ánægð að Nadía og Nökkvi fengu að kynnast þér og alast upp með langömmu og langafa. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera hjá þér síðustu dagana og hafa getað sagt þér hvað við elskum þig mikið. Ég mun alltaf varðveita minningarnar okkar, elsku amma mín, við elskum þig. Sendi þér fallegu bænina sem þú kenndir mér.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Helena Ómarsdóttir.

Elsku amma mín, ég trúi ekki að ég fái ekki að sjá þig aftur eða að ég geti ekki komið og spilað við þig Scrabble sem þér þótti svo skemmtilegt eða koma við og fá pönnukökur eða vöfflur hjá þér og afa á sunnudögum sem var alltaf svo gaman. Ég gleymi ekki öllum sumarbústaðaferðunum sem við fórum saman, þú varst svo skemmtileg, ég geymi allar þessar minningar um þig, amma mín, í hjarta mínu.

Þín verður sárt saknað, elsku amma.

Elsku amma mín, hvíldu í friði, ég elska þig.

Þín

Heiðdís Tinna

Guðmundsdóttir.

Ástkæra amma mín, Ingveldur Alfonsdóttir, þú hefur alla tíð verið mér ofarlega í huga þegar ég minnist þess þegar ég var lítill á leikskóla skammt frá heimili ykkar afa, ég fann sem oftar, þegar ég var að leika úti, þessa yndislegu bökunarlykt sem ekkert ömmubarn gat staðist.

Við það sama og þessi lykt greip mig var ég farinn að moka mig út undir girðingu leikskólans.

Fljótlega fann leikfélagi minn á þessari góðu lykt hvað ég átti góða ömmu og hjálpaði mér að moka svo að við gætum farið saman í heimsókn til ömmu sem bjó í næsta húsi við leikskólann og skömmu síðar vorum við komnir óséðir til ömmu, það var eins og við manninn mælt, amma var að baka.

Amma spurði mig hvort við ættum ekki að vera á leikskólanum. Ég skrökvaði að það væri frí, amma bauð okkur inn og þremur yndislegum pönnukökum seinna hringdi síminn, spurt var um lobbana sem höfðu skrökvað að ömmu, en við vorum sóttir og vorum hinir hressustu eftir pönnsurnar hjá ömmu.

Það mætti einnig segja að hún amma Inga, eins og við kölluðum hana, hafi átt stóran part í því að gera mig að þeim manni sem ég er í dag.

Þar sem hún var alltaf svo yndisleg að hjálpa mér með heimanámið í skólanum og lagði mikið upp úr föstu verklagi, amma sagði mér alltaf að koma beint heim til ömmu og læra, svo gæti ég farið út að leika. Mér gekk alltaf vel að vinna með ömmu.

Fyrir ekkert svo löngu rifjuðum við amma upp saman þegar við frændurnir voru litlir og vorum gripnir á bak við sófa í stofunni hjá afa og ömmu. Við vissum að afi og amma áttu mikið af íspinnum sem voru okkar besta sælgæti og læddumst inn um glugga þegar enginn var heima, afi og amma komu þó óvænt heim, allt í einu opnast dyrnar og afi og amma gengu inn.

Amma fór strax að segja við afa að þetta væri eitthvað skrýtið. Við frændurnir gátum varla haldið niðri í okkur hlátrinum og amma ekki lengi að finna okkur í fjöru. Amma tók öllu svo vel enda sjálf grínisti mikill. Ég naut þess alltaf að heimsækja ömmu og afa.

Það hafa verið algjör forréttindi að hafa fengið að verja með henni þessum árum, þó ég hefði helst óskað að þau væru fleiri.

Hvíldu í friði, elsku amma mín, þín verður sárt saknað, þú átt stóran stað í hjarta mér.

Friðrik Atli.

Elsku besta amma mín,

þú sem varst svo hjartahlý.

Alltaf varstu glöð og góð,

hugsaðir mikið um Hinrik Þór.

Okkur kom svo vel saman,

með þér var alltaf gaman.

Ég mun sakna þín,

elsku uppáhalds amma mín.

Hvíldu í friði, elsku engillinn minn.

Ástarkveðja,

Hinrik Þór Guðmundsson.

Elsku systir mín hún Inga er látin. Mér er mikill söknuður í hjarta. Inga var fimmtán árum eldri en ég og var mér oft sem móðir. En stundum vorum við líka vinkonur og þá hafði aldursmunurinn ekkert að segja. Við fórum í margar sumarbústaðarferðir saman og þá var nú heldur betur glatt á hjalla með hennar fjölskyldu og minni. Hún og yndislegasti mágur minn, hann Baddi maðurinn hennar, tóku okkur og drengjunum okkar Jims alltaf opnum örmum til sín þegar við vorum stödd á Íslandi. Alltaf þau fyrstu og síðustu sem við heilsuðum og kvöddum. Svo komu þau líka í heimsókn til okkar í Englandi nokkrum sinnum.

Ég á margar minningar um Ingu frá bernskuárunum í Ólafsvík. Við vorum 7 systkinin. Inga var stjórnsöm, þessi elska, enda elsta systirin.

Hún var dugleg að hjálpa mömmu með veika pabba okkar sem féll frá á besta aldri, enda elskaði hún hann og dýrkaði. Nú er hún komin í faðm hans aftur, litla pabbastelpan.

Inga kom líka með litlu dúlluna sína hana Hildi inn á heimilið og ólst Hildur upp hjá okkur fjölskyldunni til 7 ára aldurs. Það var mikill fögnuður að fá að leika sér með litla krúttið og aðallega fyrir pabba sem komst ekki til vinnu.

Inga og Baddi voru svakalega skemmtileg hjón og voru ákaflega stolt af börnunum sínum Alla, Halldóru, Lindu og Hildi, enda eru þau sérstaklega vel upp alin börn og góðar sálir sem voru foreldrum sínum ávallt stoð og stytta, báru þau á örmum sér, má segja

Inga var framúrskarandi dugleg til vinnu og svo var hún mjög mikil hannyrðakona enda fékk hún 10 í einkunn fyrir hannyrðir í Blönduósskóla og svo var hún mikið fyrir að vera fín og hafa fínt í kringum sig.

Drengjunum okkar þrem þótti voða vænt um Ingu frænku sína, fiskibollurnar hennar voru þær bestu í heimi og svo var hún svo voða hreinskilin og prakkari í tilsvörum.

Elsku Hildur, Alli, Halldóra og Linda. Barnabörn og barnabarnabörn, Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðaróskir. Guð gefi ykkur styrk.

Aldís, Jim, Daníel, Alison, Stefan, Beth, Kristófer, Jessica og barnabörn.