Námsefni Menntamálastofnun gefur að langmestu leyti út það námsefni sem grunnskólarnir í landinu nota.
Námsefni Menntamálastofnun gefur að langmestu leyti út það námsefni sem grunnskólarnir í landinu nota. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Aðalmálið er að námsgögn séu við hæfi nemenda og þau séu þeim að kostnaðarlausu,“ segir Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, en mikil umræða fer fram meðal kennara og skólastjórnenda um námsgögn, gæði þeirra, úrval og fjölbreytni.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. laugardag gagnrýnir Viðskiptaráð fyrirkomulag á útgáfu námsefnis fyrir grunnskólana. Með því að hafa útgáfuna á einni hendi, hjá Menntamálastofnun, jafnist fyrirkomulagið á við ríkiseinokun og það dragi úr hvata til framþróunar námsgagna.

Námsefni ekki eini mælikvarðinn á árangur nemenda

„Fagfólk þarf að koma að gerð námsgagna og vissulega er ákveðinn skortur á efni í tilteknum greinum, eins og list- og verkgreinum. Þannig hefur það verið í langan tíma, ekki bara hjá Menntamálastofnun í dag. Það vantar meira námsefni, ekki síst til að uppfylla kröfur um að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir. Um það snýst starf okkar kennara. Þá er mjög mikilvægt að nemendur fái sambærilegt námsefni og fjölbreytileikinn sé nógu mikill til að þetta sé gerlegt,“ segir Guðbjörg, sem telur smæð tungumálsins koma niður á námsgagnaúrvalinu.

Viðskiptaráð telur að fyrirkomulag á útgáfu námsefnis í grunnskólana standi með beinum hætti í vegi fyrir bættum námsárangri nemenda. Spurð um þetta segir Guðbjörg fjölmarga þætti hafa áhrif á árangur nemenda. Námsefnið sé þar ekki eini mælikvarðinn. Jafnvel megi færa rök fyrir því andstæða, að færa útgáfu á almennan markað geti leitt til minni útgáfu. Að hvatinn til að gefa út námsefni í námsgreinum, sem fáir stunda eða kostar mikið að gefa út, hverfi.

Ef setja ætti útgáfu námsefnis á almennan markað þá segir Guðbjörg það skipta miklu máli að efnið verði skólunum að kostnaðarlausu og framboð verði tryggt af nauðsynlegu efni. Kostnaður megi ekki koma í veg fyrir að sumir skólar geti haft aðgang að námsefninu en aðrir ekki. „Ef fagfólk kemur að, og ef efnið er fjölbreytt og ókeypis, þá er það aðalmálið.“

Guðbjörg tekur undir með Viðskiptaráði að fjármagn í Námsgagnasjóði sé of takmarkað. Kennarar og skólastjórnendur þurfi virkilega að vanda sig við ákvörðun um í hvað nota eigi peningana.

„Fjárráð skólanna eru ekki með þeim hætti að hægt sé að kaupa mikið aukreitis efni. Önnur hvor leiðin er fær; að framleiða meira ókeypis efni eða auka fjármagn til að sé hægt að leita víðar fanga.“

Dýrara á almennum markaði?

Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands, segir Menntamálastofnun hafa tekist ágætlega til við útgáfu námsefnis og engar rannsóknir sýni að sá þáttur hafi haft áhrif á námsárangur nemenda, líkt og Viðskiptaráð hélt fram. Þar komi til ýmsir aðrir þættir en sjálft námsefnið. Námsgögnin séu yfirleitt vönduð og fjölbreytt, en eflaust megi alltaf gera betur. Ekkert fyrirkomulag sé fullkomið.

Hún bendir á að Menntamálastofnun beri lögum samkvæmt að tryggja nægt framboð á námsefni og mikilvægt sé fyrir skólana að halda þeim kostnaði í lágmarki. Svanhildur segir skólastjóra óttast að námsefnið verði dýrara ef það fer út á almennan markað.

„Það hafa orðið miklar breytingar í þessu. Í dag er töluvert af námsefni á netinu, sem kennarar hafa nýtt sér vel. Við þurfum líka að horfa til þeirra breytinga sem hafa orðið með tilkomu rafræns námsefnis,“ segir Svanhildur.

Hún tekur undir það með Viðskiptaráði að fjármagn til Námsgagnasjóðs megi vera meira, þannig að skólarnir hafi meira svigrúm til að verða sér úti um efni sem Menntamálastofnun nær ekki að gefa út. Það eigi ekki hvað síst við um margskonar sérhæft kennsluefni og bókaflokka.