Guðni A. Jóhannesson
Guðni A. Jóhannesson
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Kynningarfundur um nýtt samstarfsverkefni á sviði jarðhitarannsókna, GEOTHERMICA, var haldinn í gær, en að samstarfinu standa Evrópusambandið og 13 Evrópulönd, þ.ám. Ísland. Í verkefninu felst m.a.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Kynningarfundur um nýtt samstarfsverkefni á sviði jarðhitarannsókna, GEOTHERMICA, var haldinn í gær, en að samstarfinu standa Evrópusambandið og 13 Evrópulönd, þ.ám. Ísland. Í verkefninu felst m.a. að íslenskir vísindamenn haldi út og hjálpi til við að heimfæra jarðhitalausnir á Evrópskri grundu.

Orkustofnun fer fyrir verkefninu fyrir Íslands hönd og ein milljón evra hefur verið lögð í sjóð verkefnisins, sem telur alls um 30 milljónir. Að sögn Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra munu ein til tvær milljónir evra skila sér til baka.

„Það má segja að bæði séum við það land sem lengst er komið í hitaveituvæðingu í heiminum og á undanförnum árum og áratugum hafa verið byggðar nokkrar jarðhitavirkjanir hér. Menn líta til þess að það er reynsla hér,“ segir hann.

Möguleikar á meginlandinu

Að sögn Guðna stendur ekki til að fram fari frumrannsóknir á jarðhita.

„Þetta byggist á hagnýtingu þeirra þekkingar sem þegar er fyrir hendi til að koma jarðhitanum til neytenda í Evrópu,“ segir hann.

Forsvarsmenn verkefnisins telja að um 25 prósent Evrópulanda geti nýtt sér jarðvarma, en Evrópusambandið stefnir að því að fyrir árið 2050 komi 80 prósent allrar orku til húshitunar frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.m.t. jarðhita.

„Hvað varðar lághita, til hitunar, þá eru flest Evrópulönd með möguleika til þess í einhverjum mæli. Svo eru svæði í Evrópu sem eru mjög gjöful, t.d. á sléttum í Ungverjalandi, í Suður-Þýskalandi og inn í Sviss og Alpana.“