— Ljósmynd/Myriam Marti
Opinber heimsókn forsetahjónanna Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid til Noregs hófst formlega í gær. Þetta er önnur heimsókn forsetans utanlands frá því að hann tók við embætti.

Opinber heimsókn forsetahjónanna Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid til Noregs hófst formlega í gær. Þetta er önnur heimsókn forsetans utanlands frá því að hann tók við embætti. Í för með forsetanum er Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sendinefnd úr fræðasamfélagi og viðskiptalífi og embættismenn.

Dagskrá forsetans var þétt í gær og hófst á opinberri móttöku í norsku konungshöllinni í Ósló. Guðni lagði síðan blómsveig við þjóðarminnisvarða Norðmanna. Hann heimsótti norska Stórþingið ásamt því að vera boðinn í hádegisverð í konungshöllinni. Þetta mun vera fyrsta opinbera heimsókn forseta Íslands til Noregs síðan 1997.

Guðni hélt ræðu í Háskólanum í Ósló í gær en hann mun síðar í ferðinni halda ræðu í Háskólanum í Bergen. Eliza Reid hélt einnig ræðu í Háskólanum í Ósló og talaði um jafnréttismál.

Á myndinni má sjá Harald 5. Noregskonung, Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands, Sonju Haraldsen Noregsdrottningu og Elizu Reid forsetafrú. Í bakgrunni sést Hákon krónprins.