Guðni Einarsson gudni@mbl.is Varðskipin hafa ekki tekið olíu á Íslandi síðan 1. nóvember 2015. Fjórum sinnum var fyllt á olíutanka þeirra í Færeyjum í fyrra og einu sinni það sem af er þessu ári. Þetta kemur m.a. fram í skriflegu svari Sigríðar Á.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Varðskipin hafa ekki tekið olíu á Íslandi síðan 1. nóvember 2015. Fjórum sinnum var fyllt á olíutanka þeirra í Færeyjum í fyrra og einu sinni það sem af er þessu ári. Þetta kemur m.a. fram í skriflegu svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gunnari I. Guðmundssyni, varaþingmanni Pírata, um úthaldsdaga Landhelgisgæslunnar.

Þrjú skip, þrír bátar

Í svarinu kemur m.a. fram að á árunum 2013-2016 hafi Landhelgisgæslan gert út þrjú stór varðskip (Þór, Tý og Ægi) og þrjá minni báta (Óðin, Leiftur og sjómælingabátinn Baldur). Skipin sex voru samtals 301 dag á sjó árið 2013, 386 daga 2014, 297 daga 2015 og 405 daga árið 2016, alls. 1.389 daga. Dagarnir sem varðskipin sinntu erlendum verkefnum, t.d. við landamæragæslu í Miðjarðarhafi, eru ekki taldir með. Varðskipið Þór var með flesta úthaldsdaga eða samtals 672 á umræddum fjórum árum.

Landhelgisgæslan setti olíu á varðskipin í 32 skipti frá 1. janúar 2013 til 24. febrúar 2017. Hluti olíu sem keypt var í útlöndum var vegna erlendra verkefna.

Oftast var olía keypt í Færeyjum eða í 14 skipti á tímabilinu. Þar voru keyptar rúmlega 5,27 milljónir lítra sem kostuðu tæplega 380 milljónir króna. Sjö sinnum var tekin olía á Möltu, tæplega 570 þúsund lítrar sem kostuðu 39,6 milljónir kr. Olía var tekin fjórum sinnum á Spáni, 394 þúsund lítrar fyrir tæplega 32 milljónir króna, þrisvar sinnum var tekin olía á Ítalíu, tæplega 149 þúsund lítrar sem kostuðu um 10,2 milljónir. Á Íslandi var tekin olía í fjögur skipti, tæplega 275 þúsund lítrar sem kostuðu rúmlega 25 milljónir króna.

Meðalverðið á olíulítranum hér var 91,15 kr, á Spáni var meðalverðið 81,17 kr., í Færeyjum var það 72,08 kr., á Möltu var það 69,5 kr. og á Ítalíu 68,7 kr. hver lítri. Útreikningar á meðalverði eru blaðamanns.

Olíukaup trufla ekki eftirlit

Fyrirspyrjandi spurði m.a. hve marga daga Landhelgisgæslan hefði ekki sinnt eftirlitsstörfum vegna eldsneytistöku annars staðar en á Íslandi? Í svarinu segir að olíukaup á Ítalíu, Spáni og Möltu tengist landamæragæslu á vegum Frontex og hafi því ekki haft áhrif á eftirlit og löggæslu á Íslandsmiðum.

„Áhrifin af ferðum varðskipa til Færeyja á gæslustörfin eru einnig hverfandi. Skipin fara jafnan til Færeyja þegar þau eru við eftirlit í austanverðri lögsögunni. Um leið gefst færi á að sinna eftirliti á svæði innan efnahagslögsögunnar sem sjaldan er farið um, þ.e. hafsvæðinu djúpt suðaustur af landinu og á Færeyjahryggnum. Skipin staldra yfirleitt mjög stutt við í Færeyjum, eða rétt sem nemur tímanum sem olíudælingin tekur. Vera varðskipanna utan lögsögunnar er þar af leiðandi sjaldnast meiri en sólarhringur.“

Þá er þess getið að Færeyjar séu innan alþjóðlegs leitar- og björgunarsvæðis sem Ísland er ábyrgt fyrir. Nokkrar ferðanna til Færeyja voru nýttar til æfinga með dönskum eftirl itsskipum og færeyskum varðskipum.