Ragnar Annel Þórarinsson fæddist að Hindisvík á Vatnsnesi 1. október 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 12. mars 2017.

Foreldrar hans voru Steinunn Valdimarsdóttir, f. 7. apríl 1894, d. 5. júlí 1969, og Þórarinn Jónsson, f. 13. nóvember 1866, d. 4. apríl 1943. Barn að aldri fór Ragnar í fóstur að Steinnesi í Þingi til Sigurlaugar Sigurjónsdóttur og Ármanns Benediktssonar sem gengu honum í foreldrastað. Systir Ragnars var Helga Þórarinsdóttir, f. 21. apríl 1919, d. 24. nóvember 2002.

Þann 23. desember 1953 kvæntist Ragnar Svanhildi Sóleyju Þorleifsdóttur frá Sólheimum í Svínavatnshreppi, f. 9. september 1934, d. 13. apríl 1988. Börn þeirra hjóna eru: 1) Þorleifur, f. 1954, maki Ingibjörg Sólrún Magnúsdóttir, f. 1956, þau eiga fimm börn og átta barnabörn. 2) Sigurlaug, f. 1955, maki Hörður Bjartmar Níelsson, f. 1954, þau eiga átta börn og sextán barnabörn. 3) Þórunn, f. 1960, maki Birgir Gestsson, f. 1959, þau eiga fjögur börn og fjögur barnabörn. 4) Ragnhildur, f. 1963, hún á tvö börn og fimm barnabörn.

Árið 1991 hóf Ragnar sambúð með Önnu Margréti Tryggvadóttur f. 1919, d. 2007.

Ragnar og Svana bjuggu allan sinn búskap á Blönduósi, lengst af á Brekkunni sem nú er Aðalgata 21.

Ragnar byrjaði ungur að vinna ýmis sveitastörf þar til hann réðst til jarðvinnslustarfa á vegum búnaðarfélaga í sýslunni. Árið 1959 hóf hann akstur við mjólkurflutninga hjá Kaupfélagi Húnvetninga en fljótlega fór hann að keyra vöruflutningabíl á þeirra vegum og leit hann á það sem sitt ævistarf. Síðustu starfsárin vann hann í Mjólkurstöðinni á Blönduósi.

Útför Ragnars fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 22. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi, þá hefur þú fengið ósk þína uppfyllta, kominn í sumarlandið til mömmu.

Ég hef oft hugsað hvað ég naut mikilla forréttinda að alast upp á stóru kærleiksríku heimili þar sem alltaf var pláss fyrir fleiri. Fyrir utan okkur fjölskylduna bjuggu tveir og þrír eldri menn hjá okkur og alltaf pláss fyrir fleiri ef einhvern vantaði húsaskjól. Nóg er til af skemmtilegum minningum til að njóta því á heimilinu var alltaf líf og fjör og mikil gleði.

Að vera alin upp við að sjá alltaf það besta í öllum og öllu er gott veganesti út í lífið og alveg ómetanlegt. Fyrstu jólin þín hjá mér og krökkunum mínum eru mér mjög minnisstæð því ég hafði aldrei eldað jólamatinn og ég var mjög stressuð yfir rjúpunum en þú varst svo innilega rólegur og ánægður með allt, sagðir að ég skyldi bara fara með krakkana í jólamessuna og njóta þess. Þegar messan var búin fórum við öll saman í kirkjugarðinn til mömmu og síðan til Pálma Guðnasonar, sem þá var fluttur í Hnitbjörg, og óskuðum honum gleðilegra jóla. Jólamaturinn var svo borðaður seint um kvöldið og hann smakkaðist mjög vel. Það að fara í messu á jólunum var svo stór hluti af hátíðinni því þið mamma sunguð bæði í kórnum og við fórum alltaf með. Seinna þegar ég byrjaði í kirkjukórnum varstu svo ánægður með mig og sagðir að mamma hefði örugglega klappað saman lófunum af gleði. Við glöddumst öll með þér þegar þú fannst þér aftur félaga eftir að mamma dó. Saman áttuð þið Anna Tryggvadóttir góð ár í Brautarholti. Það var alltaf gott að koma til ykkar og hún vildi allt gott fyrir þig og okkur gera.

En eina orrustu háðum við og hún var hörð og erfið fyrir okkur bæði.

Hún snérist um bílinn þinn og bíllyklana. Þá vorum við ekki sammála því eins og þú réttilega bentir á varstu atvinnubílstjóri og alltaf allt farið vel þannig að þér fannst ekki nokkur ástæða til að hætta að keyra. Það var alveg sama hvað ég hafði góð rök, þú varst sannarlega ekki ánægður með mig. En auðvitað hafði litla ráðskonan betur.

Þú varst alltaf svo þakklátur fyrir allt fólkið þitt og nefndir oft að þú bara skildir ekki hvað Guð almáttugur var gjöfull við þig. Fólkið þitt var þér dýrmætast af öllu og barnabörnin voru náttúrlega best.

Með þökk fyrir allt, elsku pabbi minn, og kveðju frá örverpinu þínu.

Þín,

Ragnhildur.

Elsku afi.

Nú ertu kominn upp til himna og þið amma Svana loksins saman aftur. Við erum viss um að nú sitjið þið saman og gerið það sem þér fannst einna skemmtilegast, að dást að afkomendahópnum. Það var alveg sama hversu stór eða smá afrekin voru í hvert skipti, þú varst alltaf manna stoltastur af okkur öllum.

Það er margt sem fer í gegnum hugann á þessari stundu og margar hlýjar minningar sem við erum þakklát fyrir. Upp úr stendur samt tilfinning sem er erfitt að útskýra í orðum en það er þessi gleði og kærleikur sem fylgdi þér hvar sem þú komst. Með þitt einstaka blik í augum og bros á vör var alltaf stutt í húmorinn, stríðnina og skemmtilegar sögur.

Þín verður saknað, elsku afi.

Svanhildur, Ármann Óli,

Kristín og Harpa.

Nú komið er að kveðjustund, elsku afi minn. Þegar ég hugsa til baka og reyni að rifja upp mína uppáhalds minningu með þér þá get ég það ómögulega. Þær eru allar svo einstakar, litaðar af brosi þínu og einstaklega breiðum faðmi. Þegar þú komst til Reykjavíkur var ég svo heppin að þú skyldir alltaf gista hjá okkur. Það var mér svo dýrmætt, sérstaklega þar sem þú bjóst svo langt í burtu. Þegar við hittumst þess á milli þegar eitthvað markvert var að gerast í stórfjölskyldunni var það mitt fyrsta verk að leita þig uppi og heimta öll knúsin sem mér fannst ég eiga inni.

Mér hefur alltaf þótt svo vænt um að heyra þig tala um hana Svönu ömmu. Þú hélst minningu hennar lifandi alla tíð með fallegum orðum, hve góð og frábær hún hefði verið. Þú sagðir mér líka frá því skemmtilega og eftirminnilega sem þið upplifðuð saman og það leyndi sér ekki hversu mikið þú saknaðir hennar.

Mín tenging og kynni við ömmu voru að miklu leyti í gegnum þig og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát.

Þú sparaðir ekki orðin þegar þú talaðir um hversu mikið og gott ríkidæmi þú skildir eftir þig og hversu heppinn þú værir með alla afkomendur þína. Ég veit að kærleikurinn og hlýjan sem þú sendir frá þér lifir með okkur um ókomna tíð.

Þú hefur beðið svo lengi eftir að komast til ömmu og hlakkað til samfundanna. Nú er sú stund runnin upp, stundin sem ég kveið svo oft fyrir. Rosalega á ég eftir að sakna þín, elsku afi minn, en gleðst á sama tíma yfir því að nú eruð þið sameinuð á ný.

Takk fyrir allt, elsku afi. Kysstu ömmu frá mér. Ég elska þig.

Þín,

Svanhildur Sóley

Þorleifsdóttir.

Nú hefur afi lokið langri lífsgöngu sinni. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt hann að, því hann var alveg einstakur maður með hjarta úr gulli. Ég hef engan hitt sem hefur verið eins stoltur af afkomendahópi sínum. Þegar ég kom til hans á sjúkrahúsið þá drógum við í hvert skipti fram hópmyndina af okkur barnabörnunum og hann talaði alltaf um hvað honum þætti það mikil Guðs blessun að eiga svona stóran, fallegan og heilbrigðan hóp.

Mínar fyrstu minningar um afa eru líklega þegar ég fór að venja komur mínar til hans í Mjólkurstöðina. Ég vissi ekkert betra en að lauma mér til hans í vinnuna og fá mjólkurvindil hjá honum.

Ég naut þeirra forréttinda að syngja með afa í kirkjukórnum á Blönduósi. Ég var ekki gömul þegar ég ákvað að prófa að taka þátt í starfinu og var fljót að átta mig á að það átti vel við mig enda sjálf orðin organisti í dag. Ég minnist þess hvað mér þótti gaman að vera innan um afa í söngnum, hann hafði fallega tenórrödd. Ég átti á æfingum oft í heilmiklum samræðum við hann og Grím Gíslason heitinn og er mér sérstaklega minnisstæð kórferðin sem við fórum suður yfir heiðar og sungu þeir félagarnir þá fimmundarsöng og fóru með vísur. Ég hugsaði með mér að það væru nú ekki allir sem færu á ógleymanlegt kórdjamm með afa sínum. Það var líka alltaf hátíðleg stund þegar við keyrðum saman í kirkjuna á aðfangadagskvöld og sungum jólasálmana með kórfélögum okkar. Eftir messu fórum við svo heim til mömmu og borðuðum rjúpur og var fastur liður að afi blandaði jólaölið.

Afa þótti mikið til þess koma að ég skyldi velja mér tónlist sem áhugamál og ævistarf. Hann var duglegur að sækja viðburði þar sem ég kom fram og studdi mig ómetanlega í tónlistinni. Hann sagði mér oft og iðulega hvað hann væri stoltur af mér og mér þótti alltaf svo vænt um að eiga slíkan aðdáanda. Ég fór ásamt eiginmanni mínum og vinum og söng fyrir hann á deildinni hans á sjúkrahúsinu fyrir ein jólin og hann var eitt sólskinsbros allan tímann og sagði öllum sem heyra vildu hvað hann væri montinn. Ég stóð sjálfa mig að því fyrir nokkrum árum að hugleiða hvað ég myndi skrifa í minningargrein þegar að kveðjustundinni okkar kæmi en hugsaði með mér að það væri nú mun skynsamlegra að segja honum frá öllu sem ég væri þakklát fyrir í stað þess að skrifa ótímabæra minningargrein í huganum. Með tárin í augunum áttum við samtal um hvað ég væri þakklát fyrir hann en eins og honum var einum lagið glotti hann bara og gerði lítið úr öllu saman, hógværðin uppmáluð.

En þá er komið að leiðarlokum. Ég trúi því af öllu hjarta að nú sé afi kominn til hennar ömmu sem hann saknaði alltaf svo mikið. Þakka þér fyrir allt, elsku afi minn, ég mun aldrei gleyma hvað þú reyndist mér vel og varst yndislegur. Ég á eftir að sakna þín mikið.

Megirðu hvíla í Guðs friði.

Þín,

Hugrún Sif.

Fallinn er frá, saddur lífdaga, vinur minn og velgjörðarmaður til áratuga, heiðursmaðurinn Ragnar Þórarinsson bifreiðarstjóri á Blönduósi. Allar mínar bestu hjartans kveðjur og endalausar þakkir sendi ég frá okkur öllum hér á Langó fyrir allt það sem hann var okkur.

Vertu sæll, elsku vinur, ég veit að þér verður vel fagnað þar sem þig ber að nýrri ströndu, þar verður sungið og hátt kveðið. Þú skilar kveðju.

Hátt uppi á heiðum

hvítir fuglar vaka.

Vængjunum stóru

veifa þeir og blaka.

Það eru álftir,

– álftirnar, sem kvaka.

Handan af hafi,

heim í auðnir fjalla,

vordægrin snemma

villta hópinn kalla.

Þá er nú sungið,

sungið fyrir alla.

Hringaðir hálsar

hljóðar taka dýfur.

Árvakur skari

öldufaldinn klýfur.

- Andi guðs friðar

yfir vötnum svífur.

Margs er að minnast.

Margt er enn á seyði.

Bleikur er varpinn,

- bærinn minn í eyði.

Syngja þó ennþá

svanir fram á heiði.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elskulega frændfólk, Þorleifur, Sigurlaug, Þórunn, Ragnhildur og stórfjölskyldan öll, þið sem hann var svo hreykinn af og elskaði framar öllu öðru, innilegustu samúðarkveðjur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Sjöfn og fjölskylda.

Látinn er á Blönduósi kær vinur, Ragnar Þórarinsson.

Það var fyrir rúmlega hálfri öld að ég datt í lukkupottinn og kynntist henni Þórunni, dóttur Ragnars og Svanhildar Þorleifsdóttur konu hans. Hefur hún verið besta vinkona mín æ síðan. Ég varð þá strax heimagangur á heimili þeirra hjóna Ragnars og Svönu, þau tóku mér opnum örmum og mætti ég þar einstökum hlýhug.

Sem dæmi var það þannig að iðulega þegar Ragnar kynnti börnin sín fyrir gestum og ég var á svæðinu, endaði hann á því að taka utan um mig og segja „svo á ég nú eiginlega þessa líka“.

Ég minnist Reykjavíkurferða þar sem við vinkonurnar fengum að fara með Ragnari suður á flutningabílnum H 6, endalaus þolinmæði við að kenna okkur nöfn á fjöllum, ám og sveitabæjum. Eina ferðina áttum við að finna alla bæi á leiðinni sem enduðu á tunga, ég man þá enn.

Ég minnist stríðninnar í Ragnari og glettnisglampa í augum.

Ég minnist stúlku sem hafði ekki efni á að fara í dansskóla eins og hinir í bekknum, Svana og Ragnar björguðu því, aldrei minnst á það meir.

Ég minnist þess er við vinkonurnar, þá komnar með bílpróf, fórum til Sauðárkróks að keppa í handbolta, ég á minni gömlu VW-bjöllu og Þórunn á bíl foreldra sinna. Þegar farið var af stað heim var ég eitthvað fljót á mér og keyrði á bíl Ragnars og Svönu. Það voru þung spor næsta dag þegar ég fór og hitti Ragnar, baðst afsökunar á þessu og vildi borga viðgerðina. Elskan mín, þetta er ekki neitt, hafðu engar áhyggjur sagði Ragnar og var aldrei talað um þetta aftur.

Ég minnist þess að koma alltaf við hjá Ragnari á leið á þorrablót með Þórunni og Bigga og fá koníaksstaup.

Minningarnar eru margar fleiri en mest af öllu minnist ég einstakrar hlýju og góðsemi Ragnars og Svönu gagnvart mér, Munda mínum og börnunum okkar.

Með þakklæti og virðingu kveð ég Ragnar Þórarinsson.

Við hjónin og fjölskylda okkar sendum Þorleifi, Sigurlaugu, Þórunni, Ragnhildi og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur, þið voruð aldeilis heppin með ættföður.

Agnes Hulda Agnarsdóttir.

„Glaður og reifur, skyli gumna hver, uns síns bíður bana.“ Þessi fornkveðnu orð leita á hugann við fráfall Ragnars Þórarinssonar, Ragga, bifreiðarstjóra á Blönduósi, er að lokinni langri og lánríkri ævi er nú horfinn á vit æðri veraldar.

Með honum er genginn maður drenglyndur, heiðarlegur og heill, félagslyndur í besta lagi, glettinn og gamansamur, söngmaður góður og kórfélagi í kirkjukórum Þingeyrarkirkju og Blönduóskirkju. Þannig mun minningin um hann vaka og verma vandamönnum hans og vinum að innstu hjartarótum.

Minningin um góðan dreng er vissulega dýrmæt gjöf sem ekki fyrnist þótt fenni í sporin. „Kættir þú margan að mörgu, svo minnst verður lengi, þýðmennið, þrekmennið glaða.“ Þessi orð skáldsins eru eins og um Ragga ort. Honum var því gott að kynnast og eiga vináttu hans og samfélag.

Við systkinin þrjú frá Steinnesi kynntumst honum vel á bernsku- og unglingsárunum, þar sem hann dvaldist í nokkur ár í Steinnesi ásamt móður sinni Steinunni og hjá mágkonu móður okkar, Sigurlaugu. Árin hans heima hjá okkur hyggjum við að hafi verið honum mikilvæg, enda bast hann við okkur og heimilisfólkið allt órofa tryggðaböndum. Við minnumst sambúðaráranna þar, allra glöðu og góðu stundanna með honum í Steinnesi. Í okkar augum var hann nokkurs konar uppeldisbróðir. Minnisstætt er okkur frá Steinnesárunum hve hann var gæddur ríkri réttlætiskennd, þoldi illa ranglæti eða níðst væri á þeim sem minnimáttar voru og tók hann ævinlega málstað þeirra og tók upp varnir fyrir þá.

Ragnar stundaði um áratugaskeið bifreiðaakstur fyrir Kaupfélag Húnvetninga á Blönduósi. Lá leiðin þá oft suður til Reykjavíkur að flytja og sækja vörur. Það var reyndar ekki heiglum hent að ferðast að vetrarlagi yfir Holtavörðuheiði og víðar, enda voru snjóalög iðulega mikil, ófærð og veður vond. Og þó að hann væri afburðabílstjóri og fylginn sér bar það þó stundum við, að hann varð að fresta för og gisti í Reykjavík eða hjá einu okkur á Hvanneyri, þegar allar leiðir voru tepptar. Og ævinlega var hann aufúsugestur er hann kom við hjá okkur á þessum ferðum sínum suður og glaður og brosandi tók hann á móti okkur er við heimsóttum hann norður á Blönduósi. Já, glaður og reifur skyli gumna hver, uns síns bíður bana.

Við systkinin kveðjum hann nú með virðingu, þakklæti og í kærleika og biðjum honum góðrar heimferðar og heimkomu í himininn þar sem vinir bíða í varpa og fagnaðarfundir takast.

Vandamönnum hans öllum vottum við hluttekningu okkar og samúð.

Sigurlaug, Guðmundur og

Gísli frá Steinnesi.