[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ljósi þess hve áhrifaríkar, vel leiknar og sjónrænt spennandi sýningar Lab Loka hafa iðulega verið var það með allnokkurri eftirvæntingu sem rýnir lagði leið sína í Tjarnarbíó sl. fimmtudag.

Af leiklist

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Fjögur ár eru liðin frá síðustu sýningum tilraunaleikhússins Lab Loka, en vorið 2013 frumsýndi leikhúsið sviðslistaverkið Hvörf úr smiðju leikhópsins í samvinnu við Sjón og um haustið leikritið Stóru börnin eftir Lilju Sigurðardóttur. Síðastnefnda verkið vakti mikla athygli sem skýrist mögulega af framandi innihaldi og skemmtilegri sviðsetningu, en fyrrnefnda sýningin er mun eftirminnilegri í huga rýnis þar sem tókst að miðla hryllingi og fáranleika Guðmundar- og Geirfinnsmálsins á magnaðan hátt.

Í ljósi þess hve áhrifaríkar, vel leiknar og sjónrænt spennandi sýningar Lab Loka hafa iðulega verið var það með allnokkurri eftirvæntingu sem rýnir lagði leið sína í Tjarnarbíó sl. fimmtudag á svonefnt stefnumót við leikhópinn í tilefni af 25 ára starfsafmæli Lab Loka. Yfirskrift stefnumótsins eða gestaboðsins var Endastöð – Upphaf og í viðtölum við leikhúslistamennina, samstarfsfélaga og vinina Rúnar Guðbrandsson og Árna Pétur Guðjónsson í aðdraganda frumsýningar lýstu þeir stefnumótinu sem sviðslistagjörningi þar sem fjallað væri um hina óverðskulduðu þrenningu, þ.e. upphafið, ástina og dauðann.

Sem vinur Rúnars og Árna Péturs á Facebook hefur verið hægt að fylgjast með tilurð sýningarinnar allt frá því þeir héldu í vinnubúðir til Tenerife seint á síðasta ári og deildu myndum og upptökum af sér í leik og dansi, en myndefnið rataði í framhaldinu bæði inn í sýninguna sjálfa og á Facebook-síðu sem nefnist Upphaf – Endastöð.

Þegar áhorfendur gengu í salinn á frumsýningarkvöldi stóð Árni Pétur við hljóðnemann og rifjaði á sænsku upp veru sína í Svíþjóð. Á stefnumótinu var leikið á a.m.k. sjö tungumálum sem voru áhorfendum misskiljanleg og kallaðist sterkt á við yfirlýsingu undir lok klukkustundarlangrar sýningarinnar þess efnis að vinirnir hygðust kveðja tungumálið. Þannig hættu orðin að skipta máli. Þetta var undirstrikað þegar lærðri hugleiðingu Rúnars um kaþarsis var drekkt í tónlist síðar í sýningunni.

Snemma kvölds var sjónum beint að upphafinu þegar mynd af tveimur nýfæddum börnum var varpað upp á risaskjá aftast á sviðinu, en andlitin umbreyttust smám saman í organdi andlit Rúnars og Árna Péturs. Líkt og börnin sem í sakleysi sínu koma nakin í heiminn sprönguðu vinirnir fáklæddir um bæði sviðið og í uppteknu myndefni, sem Guðbrandur Loki Rúnarsson á heiðurinn af.

Smám saman vék nektin fyrir klæðnaði og þá léku félagarnir sér með kynjahlutverkin og klæddust iðulega skrautlegum kjólum úr smiðju Filippíu I. Elísdóttur, sem skráð er fyrir bæði búningum og heildarútliti. Á höfuð þeirra rötuðu mittissíðar rauðar hárkollur sem ásamt með uppstillingum og aðstoð vindvélar vakti hugrenningartengsl við „Fæðingu Venusar“ eftir Botticelli. Vísað var í fleiri listaverk manna á borð við Genet, Mann, Shakespeare og Bergman svo nokkrir séu nefndir auk þess sem biblían var augljóslega notuð til innblásturs.

Rúnari og Árna Pétri til halds og trausts voru leikararnir Aðalbjörg Árnadóttir og Kjartan Darri Kristjánsson sem dönsuðu þegar á þurfti að halda, duttu inn í lausbeislaðar leiksenur, stýrðu ljósum og lögðu lokahönd á veitingar kvöldsins sem gestum var boðið upp á að sviðslistagjörningi loknum. Eins og ljóst má vera af framansögðu var Endastöð – Upphaf ekki hefðbundin leiksýning í neinum skilningi, heldur fremur hægt að lýsa viðburðinum sem mósaíkfrásögn þar sem úði og grúði af allskyns hugmyndum úr ýmsum áttum – og þar sem allt var opið til túlkunar.

Samkvæmt forskrift Rúnars og Árna Péturs fékk dauðinn sinn skerf þegar leið á sýninguna. Upptakturinn að endalokunum var markaður reiði og sorg leikstjórans og listræns stjórnanda Lab Loka sem leiddi til óska hans um dauða. Leikvinur hans til margra ára aðstoðaði hann við að deyja táknrænum dauða í myndskeiði, sem kallaðist með skemmtilegum hætti á við upphafssenuna, svo leikstjórinn gæti risið dansandi upp að nýju í fallegum svörtum og gylltum pallíettukjól, sem allt í senn gat táknað brynju, fiskhreistur eða fuglinn Fönix. Ástin í sýningunni birtist í eftirvæntingu afa eftir barnabarni sínu, en þó fyrst og fremst í djúpri og fallegri vináttu félaganna tveggja.

Fyrr í sýningunni höfðu félagarnir, í hljóðupptöku, rifjað upp þegar þeir á táningsaldri snemma á áttunda áratug síðustu aldar sáu Í húsi föður míns hjá Odin-leikhúsinu í Danmörku og ræddu í framhaldinu vináttu sína og samstarf sem á tímum var markað óhóflegri drykkju. Í sama kafla lýstu þeir aðdáun sinni á því sjónarmiði að áhorfendur mættu eiga sig. Sú afstaða sveif óneitanlega yfir vötnum í Tjarnarbíói sl. fimmtudag, enda virtist gjörningurinn fyrst og síðast ætluður til heilunar og úrvinnslu fyrir þátttakendur á sviðinu.