Chuck Berry var einn af frumkvöðlum rokksins og hefur Víkverja alltaf þótt hann hafa nokkra sérstöðu í þeim hópi.

Chuck Berry var einn af frumkvöðlum rokksins og hefur Víkverja alltaf þótt hann hafa nokkra sérstöðu í þeim hópi. Í lagi sínu Roll Over Beethoven söng Berry að hjarta sitt slægi í takti og sál sín syngi án afláts blús, því ætti Beethoven að snúa sér við í gröfinni og segja Tsjaíkovskí fréttirnar. Á þessum tíma var ný unglingamenning að ryðja sér til rúms og hann talaði beint til táninganna, færði í orð og hljóð það sem þeir voru að hugsa. Sagt hefur verið að hann hafi vitað hvað krakkarnir vissu áður en þeir vissu það sjálfir.

Berry fór ótroðnar slóðir í gítarleik og samdi frasa og takta, sem ekki höfðu heyrst áður. Hann lést um helgina níræður að aldri og var haft á orði að án hans hefðu Bítlarnir, Rolling Stones, Bob Dylan og aðrir sem á eftir komu hljómað öðru vísi. Það þarf ekki annað en að spila Johnny B. Goode til að heyra hvílíkur snillingur þarna var á ferð.

Víkverji átti þess kost að sjá Chuck Berry á sviði árið 1979 á jazzhátíð í München. Honum fannst nokkuð kyndugt að ákveðið hefði verið að láta þennan rokkara reka endahnútinn á hátíðina, en það reyndist vel til fundið. Berry lék á als oddi, sýndi allar sínar bestu hliðar og Víkverji sér hann enn fyrir sér á sviðinu þar sem hann hoppar á öðrum fæti, rekur hinn fram fyrir sig út í loftið og slær gítarinn af krafti.

Berry tilkynnti þegar hann varð níræður 18. október í fyrra að væntanleg væri ný plata frá honum, tæpum 40 árum eftir að hann gaf síðast út hljóðversplötu. Hún ætti að heita Chuck, koma út í júní og á henni yrði að mestu nýtt efni. Það er til marks um áhrif Chucks Berrys að þegar ákveðið var að senda gullplötu með tónlist með geimfarinu Voyager var eitt laga hans þar á meðal, Johnny B. Goode. Það verður tónlistarbylting einhvers staðar í óravíddum geimsins þegar sú plata finnst.