Jóhannes Hilmar Gíslason fæddist 9. september 2000. Hann lést 3. mars 2017. Útför Jóhannesar fór fram 13. mars 2017.

Símtalið sem ég fékk að morgni 3. mars er eitt erfiðasta símtal sem ég hef fengið. Samt vissi ég að þetta myndi gerast fyrr en síðar. Var eiginlega búin að kvíða fyrir þessu símtali síðan í byrjun desember, þegar heilsu þinni hrakaði mikið.

En það er ekkert sem gat alveg búið mann undir að fá þær fréttir að elsku Jóhannes okkar væri farinn að eilífu. Það var erfitt að ganga inn um dyrnar á Sjávarhólum, en þú varst svo friðsæll að sjá þarna í rúminu þínu, að nú vissi ég að þú þyrftir ekki að þjást lengur, í líkamanum sem var búinn að vera smátt og smátt að gefast upp vegna veikinda þinna. Ég beið alltaf eftir að þú myndir opna augun og segja hæ. Það var eins og þú værir bara sofandi.

Ég sakna þess svo að fá aldrei að heyra röddina þína aftur. Þú átt aldrei aftur eftir að hringja í mig til að bjóða mér í mat. Aldrei aftur eftir að heimsækja mig á flottu skutlunni þinni, sem systur þínar voru svo duglegar að keyra þig á út um allt. Það er svo tómlegt að koma heim til þín og sjá þig ekki liggjandi í sófahorninu þínu. Ekki varstu mikið að kvarta yfir hlutskipti þínu, þó að oft hefði verið ástæða til.

Ég á margar góðar minningar um þig sem ég mun geyma í hjarta mínu til eilífðar. Þú varst svo hress og kátur sem barn og gladdir alla í kringum þig. Og þrjóskur varstu nú stundum líka. Man þegar ég var að keyra þig um í vagninum oftar en einu sinni og það var kominn lúllutími. En þú varst sko ekki á því að fara að sofa. Sast uppréttur og neitaðir að leggjast út af. Hallaðir þér nú stundum fram á við þegar svefninn var að sigra, en alltaf þegar átti að leggja þig niður þá rumskaðir þú og harðneitaðir að sofna aftur. Og það var nú ekki auðveldasta verk í heimi að skipta á þér. Þú varst eins og lítill ormur, hlykkjaðist til og frá. Held þú hafir meira að segja hlegið stundum að aðförum okkar við þetta verk.

Þú varst alltaf svo þakklátur og nægjusamur. Ef ég spurði hvað þú vildir helst fá í afmælis- eða jólagjöf þá var það alltaf „æ bara föt. Vantar kannski bara sokka eða nærbuxur“. Ég keypti nú samt alltaf eitthvað meira með. Þú varst alltaf svo ánægður með peysurnar eða buxurnar sem ég gaf þér og sagðir að Þurí frænka veldi sko alltaf flottustu fötin.

Alltaf passaðir þú vel upp á allt sem þú áttir, bæði föt og dót. Ég man að þú raðaðir bílunum þínum alltaf í fallega og þráðbeina röð, sem helst enginn mátti fikta í, því það eyðilagði systemið sem þú hafðir á þeim. Tókst jafnvel eftir ef það var búið að færa einn bíl í röðinni, þó þar væri bara smávegis.

Þú varst mikill húmoristi og hafðir svo gaman af því að segja fólki brandara. Ég veit að þú átt sko eftir að skemmta mörgum þar sem þú ert núna.

Elsku Jóhannes. Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Bið þig að skila kveðju til allra þeirra sem hafa farið á undan þér og ekki gleyma Grímu minni. Veit að hún hefur örugglega tekið vel á móti þér. Hvíldu í friði, elsku engillinn minn. Minningin um þig lifir að eilífu.

Þurí.

Okkur langar að minnast fyrrverandi nemanda okkar, Jóhannesar Hilmars. Jóhannes hóf skólagöngu sína í Grunnskóla Grindavíkur í fyrsta bekk og útskrifaðist síðastliðið vor. Fljótlega fór sá sjúkdómur sem lagði hann að velli að hafa áhrif á skólagöngu hans, framvindu í námi og daglegar athafnir. Hann þurfti stöðugt að aðlagast breyttu heilsufari og aðstæðum.

Jóhannes naut þess að vera í skólanum innan um félaga sína, samnemendur og samstarfsfólk, sem hann kallaði jafnan bandamenn. Sá tími sem við fengum með honum er okkur öllum mjög dýrmætur og margar góðar minningar lifa. Við minnumst Jóhannesar sem glaðværs drengs sem tókst á við ólík viðfangsefni af áhuga og jákvæðni. Þverrandi heilsu mætti hann af æðruleysi og þrautseigju. Hann var húmoristi mikill og grallari sem sá jákvæðar og spaugilegar hliðar á málunum og skellti fram ýmsum frösum og bröndurum í sífellu. Það var í ófá skipti sem hann sagði m.a. að amma sín væri heimahangandi húsmóðir, að fram undan væri flöskudagur (föstudagur) og að 14. jólasveinninn væri Kortaklippir, auðvitað fylgdu þessu hlátrasköll. Hann smitaði umhverfi sitt af gleði, jákvæðni og hlýju, var ljúfur með eindæmum og hafði góða nærveru. Hann hafði lag á að laða fólk að sér og nutu allir þess að eiga í samskiptum við hann. Bekkjarfélagar hans reyndust honum einstaklega vel og sýndu honum ætíð mikla umhyggju og velvild. Þá var einstakt að fylgjast með því hversu fallegt samband var á milli Jóhannesar og systra hans innan skólans. Systrunum var umhugað um að honum liði vel og kærleikurinn þeirra á milli var augljós. Jóhannes kenndi okkur starfsfólki og samnemendum svo sannarlega margt um lífið og tilveruna þann tíma sem við áttum með honum. Það voru forréttindi að hafa hann hjá okkur þessi ár.

Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með því hvernig fjölskylda Jóhannesar tókst á við veikindi hans og gerði allt sem í hennar valdi stóð til að skapa honum tækifæri að upplifa og taka þátt í leik og starfi. Þau voru ávallt lausnamiðuð og fundu leiðir til þess að hann gæti verið þátttakandi í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur.

Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast og starfa með Jóhannesi Hilmari. Við geymum í hjörtum okkar og höldum á lofti minningu um góðan dreng. Guð blessi þig og varðveiti minningu þína.

Elsku Klara, Gísli, Ásdís Hildur, Halldóra Rún og aðrir ástvinir, missir ykkar er mikill. Megi góður Guð veita ykkur styrk í ykkar sorg og lífsins verkefnum sem fram undan eru.

Fyrir hönd starfsfólks Grunnskóla Grindavíkur,

Elín Björg og María Eir.