Alþingi Óli Björn Kárason (lengst til hægri) er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem nú er að fjalla um afnám lágmarksútsvars.
Alþingi Óli Björn Kárason (lengst til hægri) er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem nú er að fjalla um afnám lágmarksútsvars. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Vilhjálmur Árnason (fyrsti flutningsmaður), Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Sverrisdóttir, flytja þingmannafrumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, með þeirri breytingartillögu að lágmarksútsvar verði afnumið. Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi fjórum sinnum á undanförnum árum en hlutu ekki afgreiðslu.

Þrjú sveitarfélög hafa þegar skilað umsögnum sínum og eru þau öll neikvæð í garð frumvarpsins. Sveitarfélögin eru Hveragerði, Norðurþing og Seyðisfjörður. Hveragerði og Norðurþing eru sýnu neikvæðari en Seyðisfjörður.

Ákveðinn hópur launamanna

Bæjarráð Hveragerðisbæjar fundaði um málið nýverið og gerði samþykkt, þar sem segir m.a.: „Bæjarráð telur að afnám lágmarksútsvars brjóti gegn anda þess jafnræðis sem við sem þjóð viljum að ríki í okkar samfélagi og því leggst bæjarráð eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.“

Í samþykkt bæjarráðsins segir að frumvarpið virðist ekki snúast um að efla tekjustofna sveitarfélaga eða innbyrðis skiptingu þeirra heldur snúist það um að ákveðinn hópur launamanna á Íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar tekin sé ákvörðun um búsetu. „Á Íslandi sem og á öðrum löndum á Norðurlöndum hefur verið sátt um þá afstöðu að allir launþegar skuli greiða ákveðinn hluta af launum til samfélagslegra verkefna, skiptir þá fjárhagsleg staða viðkomandi sveitarfélags ekki máli.

Bæjarráð bendir á að ef frumvarp sem þetta ætti að verða að lögum yrði samhliða að gera gagngerar breytingar á öðrum greinum laga um tekjustofna sveitarfélaga til að komið verði í veg fyrir að sveitarfélög sem í dag hýsa til dæmis stöðvarhús vatnsaflsvirkjana eða stórar ríkisstofnanir gætu hyglað íbúum sínum fjárhagslega á grundvelli tekna sem þessi mannvirki veita,“ segir þar ennfremur.

Byggðaráð Norðurþings fundaði um málið hinn 20. mars og gerði eftirfarandi samþykkt: „Byggðarráð leggst alfarið gegn markmiðum frumvarps til laga um tekjustofna sveitarfélaga um afnám lágmarksútsvars og felur sveitarstjóra að koma þeim skilaboðum til Alþingis og þingmanna kjördæmisins.“

Bæjarráð Seyðisfjarðar fundaði um frumvarpið hinn 15. mars sl. Í bókun fundarins segir m.a.: „Bæjarráð veitti umsögn um frumvarp sama efnis 26.11.14. Bæjarráð áréttar fyrri umsögn sem er eftirfarandi. „ Bæjarráð telur að huga þurfi að tekjuöflun og tekjustofnum sveitarfélaga með heildrænum hætti, áður en farið er í þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu.“