Einbeittur KR-ingurinn Jón Arnór Stefánsson reynir að komast framhjá Þórsurunum Darrel Lewis og Tryggva Snæ Hlinasyni.
Einbeittur KR-ingurinn Jón Arnór Stefánsson reynir að komast framhjá Þórsurunum Darrel Lewis og Tryggva Snæ Hlinasyni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Níunda árið í röð eru KR-ingar komnir í undanúrslit úrvalsdeildar karla í körfubolta, og níunda árið í röð töpuðu þeir ekki leik í 8 liða úrslitunum.

Í Vesturbænum

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Níunda árið í röð eru KR-ingar komnir í undanúrslit úrvalsdeildar karla í körfubolta, og níunda árið í röð töpuðu þeir ekki leik í 8 liða úrslitunum. Meistararnir unnu Þór Akureyri þriðja sinni í gærkvöld, 90:80, í besta leik seríunnar og þeim eina þar sem spennan hélst fram á lokamínútu.

Ef aðeins er horft til 8 liða úrslita hefur KR nú unnið 22 leiki í röð, síðan liðið féll út gegn ÍR árið 2008. Það er mikið styrkleikamerki að lenda aldrei í teljandi vandræðum á þessu stigi úrslitakeppninnar. Í fimm tilvikum hefur tímabilið svo endað með Íslandsmeistaratitli hjá Vesturbæingum, þar af þrjú síðustu ár.

Stundum er talað um að lið þurfi hvatningu, eitthvað til að kveikja neista eða hungur, þegar þau hafa verið eins sigursæl og þetta KR-lið. Það kann að vera, en samt hefur KR þegar unnið bikar- og deildarmeistaratitil í vetur. Stemningin í liðinu virðist frekar vera á uppleið en hitt, og hvort sem það verður ÍR, Keflavík, Þór Þorlákshöfn eða Grindavík sem bíður í úrslitum, eru líkurnar svo sannarlega með KR-ingum að komast í úrslitarimmuna enn eitt árið.

Þó að KR hafi þurft að elta Þór nánast allan leikinn í gær þá var sigurinn að lokum ekki í hættu, eftir að Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson ákváðu að undirstrika ögurstundaöryggi sitt, með risaþristum og af vítalínunni. Vörnin sem verið hefur svo sterk í vetur lokaði svo vel á Þórsara að þeir skoruðu ekki stig síðustu 2 og hálfa mínútuna.

Pavel með þrefalda tvennu

Pavel Ermolinski var enginn senuþjófur í deildarkeppninni en var nálægt því að skora þrefalda tvennu í öllum þremur leikjunum við Þór. Í gær tókst það þegar hann skoraði 10 stig, tók heil 16 fráköst og gaf 10 stoðsendingar, eftir að hafa vantað aðeins fleiri stoðsendingar í hinum leikjunum. Hann veit hvenær best er að vera upp á sitt besta.

Þórsarar hafa aðeins unnið einn leik í úrslitakeppni í sinni sögu, árið 2000, en voru ansi nærri öðrum sigri í gær. Skjálftinn sem manni fannst einkenna þá í fyrsta leik einvígsins í DHL-höllinni var farinn. Ingvi Rafn Ingvarsson fór mikinn í upphafi leiks og setti niður þrjá fyrstu þrista sína, og alls fóru 10 af 28 þriggja stiga skotum Þórsara niður, sem var stórkostleg framför frá hinum tveimur leikjunum.

George Beamon var einnig heitur framan af leik og þeir Tryggvi Snær Hlinason og Darrel Lewis komu sterkir inn í sóknina þegar á leið, en orkan virtist hreinlega uppurin hjá liðinu í lokin.

Miklar breytingar hjá Þór?

Nú er hugsanlegt að miklar breytingar verði á Þórsliðinu. Svo gæti farið að Benedikt Guðmundsson þjálfari kveddi eftir tvö farsæl ár. Tryggvi Snær gæti verið á leið í atvinnumennsku og Darrel Lewis hefur fullyrt að þetta yrði hans síðasta tímabil, svo dæmi séu tekin.

Þórsarar náðu mjög góðum árangri í vetur og miðað við glæsilegan efniviðinn sem bíður fyrir norðan þá er vonandi að byggt verði ofan á þennan árangur.