Matthías Alfreðsson
Matthías Alfreðsson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Niðurstöður fyrstu skipulögðu leitarinnar að skógarmítlum hér á landi verða kynntar á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) í dag.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Niðurstöður fyrstu skipulögðu leitarinnar að skógarmítlum hér á landi verða kynntar á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) í dag. Þar mun Matthías Alfreðsson, líffræðingur hjá NÍ, flytja erindi sem heitir „Hefur skógarmítill numið land á Íslandi?“

Náttúrufræðistofnun barst beiðni sumarið 2015 um að taka þátt í evrópska verkefninu VectorNet. Það snýst um að rannsaka útbreiðslu sýklabera í Evrópu. Skógarmítillinn er í þeim hópi. Tveir sérfræðingar komu frá Bretlandi til að hefja rannsókn á skógarmítlum í samvinnu við NÍ og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Skógarmítlar hafa fundist víða um land á hundum, köttum og mönnum. Leitað var skipulega að skógarmítlum á 111 stöðum víða um landið með aðferð sem nefnist flöggun. Einnig var leitað á farfuglum, hagamúsum og refahræjum. Matthías sagði að skógarmítlar hefðu fundist á þremur stöðum. Leitað var í öllum helstu skógum landsins, trjálundum, útivistarsvæðum, görðum o.fl.

Sýklar ekki fundist

Skógarmítlar hafa verið sendir héðan til útlanda þar sem leitað er að sýklum í þeim. Eftir því sem Matthías veit best hefur ekkert fundist í íslensku sýnunum. Hann stefnir að því að gera slíka rannsókn á næstunni. Engin dæmi eru um að fólk hafi smitast af Lyme-sjúkdómi eftir bit hér á landi. Þó hefur fólk greinst með sjúkdóminn hér og hefur verið hægt að tengja þau tilfelli við ferðalög erlendis.

Fyrsti skógarmítillinn sem fannst hér á landi var á þúfutittlingi sem náðist í Surtsey í maí 1967. Öll innsend tilfelli skógarmítla hafa verið skráð og varðveitt hjá NÍ og Tilraunastöð HÍ á Keldum frá árinu 1976.