Mislingar hafa verið staðfestir í níu mánaða gömlu barni hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef landlæknis. Barnið hafði dvalist með fjölskyldu sinni í Taílandi en leitað var til bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins 19.

Mislingar hafa verið staðfestir í níu mánaða gömlu barni hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef landlæknis. Barnið hafði dvalist með fjölskyldu sinni í Taílandi en leitað var til bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins 19. mars og sýni tekin í kjölfarið sem staðfestu mislinga.

Barnið er óbólusett vegna ungs aldurs og þurfti ekki að leggjast inn á Barnaspítalann. Landspítali og heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins munu hafa samband við foreldra óbólusettra barna sem hugsanlega gætu hafa smitast af viðkomandi barni og bjóða þeim nauðsynlega þjónustu og ráðleggingar. Barnið er ekki í dagvistun.

Faraldur síðast um 1977

Síðasti mislingafaraldur á Íslandi var um 1977 en skipulagðar bólusetningar gegn sjúkdómnum hófust við tveggja ára aldur árið 1976. Síðast greindust mislingar hér á landi í barni árið 2014 en fullorðnum einstaklingi í fyrra. Allt að 95% barna á Íslandi eru bólusett gegn mislingum ásamt rauðum hundum og hettusótt, sem er eitt hæsta hlutfall bólusettra barna í Evrópu.

Mislingar geta reynst hættulegir einkum óbólusettum ungum börnum og ónæmisbældum einstaklingum. Veiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum.