[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Another Creation, eða önnur sköpun, nafn fyrirtækis og vörumerkis Ýrar Þrastardóttur, fatahönnuðar, er ekki úr lausu lofti gripið. Lógóið ekki heldur, en það er langlífi í rúnaletri.

Another Creation, eða önnur sköpun, nafn fyrirtækis og vörumerkis Ýrar Þrastardóttur, fatahönnuðar, er ekki úr lausu lofti gripið. Lógóið ekki heldur, en það er langlífi í rúnaletri. Hvort tveggja er lýsandi fyrir hugmyndafræðina að baki „Slow Fashion“ eða „hæga tísku“ þar sem leiðarljósið er notagildi, gæði og sígild, falleg og umhverfisvæn hönnun.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Flíkurnar sem Ýr Þrastardóttir, fatahönnuður, frumsýnir undir merkinu Another Creation á Reykjavík Fashion Festival laugardaginn 25. mars, eru margar hverjar eins og hálfgert púsluspil. Rennilásar í felum gera kleift að kápa sé stutt eða síð, ermalaus eða með mismunandi ermum, kragalaus eða með alls konar krögum. Svipað á við um leðurjakka. Einnig er hægt að nota kjóla, blússur, buxur, pils og samfestinga á marga vegu; á réttunni eða röngunni eða röngunni eða réttunni - eftir því hvernig á það er litið – mynstur eða litur öðru megin en svart hinu megin.

„Ég er ekkert að gera mér vinnuna sérstaklega auðvelda,“ segir Ýr brosandi. Nafn fyrirtækisins og vörumerkið, Another Creation [önnur sköpun], er ekki úr lausu lofti gripið frekar en annað sem viðkemur hönnun hennar. „Lógóið er rúnaletur sem þýðir langlífi og er lýsandi fyrir hugmyndafræðina sem ég byggi á og kölluð er „Slow Fashion“ eða „hæg tíska“ þar sem leiðarstefið er notagildi, gæði og sígild, falleg og umhverfisvæn hönnun,“ útskýrir hún.

Í anda hægu tískunnar

Ýr var valin til að sýna útskriftarverkefni sitt frá Listaháskóla Íslands 2010 á tískuvikunni í Kaupmannahöfn 2011 og sama ár sýndi hún það á fyrstu RFF hátíðinni, sem hún stofnaði ásamt fleiri fatahönnuðum. Fatalínan vakti töluverða athygli og gaf henni byr undir báða vængi að framleiða fatnað undir merkinu Ýr og selja í versluninni Kiosk við Laugaveg, sem hún setti á laggirnar ásamt nokkrum hönnuðum rétt eftir útskrift. Síðan hefur hún tekið þátt í mörgum sýningum innanlands og utan og aukinheldur hannað búninga fyrir leikhús og kvikmyndir.

„Fatalínan sem ég sýni núna er mín fimmta frá því ég útskrifaðist, og önnur undir merkinu Another Creation. Í stað þess að koma fram með splunkunýjar árstíðabundnar línur tvisvar á ári hef ég þróað þær áfram, gert smábreytingar á sniði, notað aðra liti, efni og þess háttar þannig að stíllinn breytist ekki ýkja mikið frá einni línu til annarrar. Flíkurnar eru með sömu karaktereinkenni, ef svo má segja, því grunnurinn er sá sami og um leið í anda hægu tískunnar svokölluðu, sem ekki er í kapphlaupi við tímann.“

Fjölþætt notagildi

Another Creation var eitt þeirra sprotafyrirtækja sem árið 2013 var valið úr hópi 200 umsækjenda til að þróa viðskiptahugmynd sína í StartupReykjavík.

„Þá fékk ég tækifæri til að hanna og búa til frumgerð af klassískri ullarkápu með fjölþætt notagildi, breytingamöguleikum og aukahlutum, sem ég sýni meðal annars á RFF á laugardaginn. Ég hef fengið fjárfesta og get því loksins sett hana í framleiðslu eins og mig hefur lengi dreymt um. Pælingin er að kona geti keypt sér kápu, átt hana árum saman, en breytt henni að vild eftir eitt eða tvö ár, jafnvel tíu eða fleiri, með því að fá sér nýjan kraga, ermar eða annað í verslunum eða vefverslun minni, sem verður aðgengileg með vorinu. Þannig getur konan í rauninni skapað kápu eftir sínu höfði en út frá minni hönnun. Möguleikarnir eru óþrjótandi, ég er til dæmis þegar búin að hanna og sauma hátt í tuttugu, mismunandi kraga. Kápan verður sannkölluð eilífðarkápa því ég stefni að því að hafa hana alltaf á boðstólum og trúlega líka leðurjakkann, sem er hugsaður á svipuðum nótum,“ segir Ýr og tekur fram að hún vinni aðeins með náttúruleg efni.

Hún hefur verið önnum kafin að hanna og sauma frumgerðirnar, um 30 flíkur, frá því fyrir áramót og jafnframt að huga að framleiðsluferlinu, sem ekki er síður tímafrekt. „Markmiðið er að flestar flíkurnar fari í framleiðslu. Sumar, til dæmis leðurjakkarnir, sem eru úr sútuðu íslensku lambaskinni, verða saumaðar hér á landi, en silki- og ullarfatnaðurinn á Ítalíu þaðan sem ég kaupi efnið.“

Horft út í heim

Ýr hefur ekki aðeins augastað á íslenskum markaði, heldur horfir hún út í heim, einkum til Asíu. „Ég sé fyrir mér að framleiða fatnaðinn í Evrópu og flytja út til Asíu, sem er akkúrat öfugt við það sem margir gera. Kínverjar eru rosalega hrifnir af evrópskum efnum og hönnun og markaðurinn feikistór og spennandi,“ segir Ýr og talar af nokkurri reynslu. „Þeir sýndu hönnun minni að minnsta kosti mikinn áhuga þegar mér var boðið að halda sýningu í kínversk-evrópskri listamiðstöð í Xiamen í fyrra og vinna í listamannaíbúð þar í borg í fimm mánuði.“

Another Creation númer tvö er að sögn Ýrar pínulítið innblásin af Kínadvölinni. „Íslensk náttúra er mér þó alltaf mesti innblásturinn. Harkan kemur úr landslaginu, þessar skörpu línur sem við höfum fyrir augunum alla daga speglast í fatnaðinum. Ég legg áherslu á að hann sé í senn tímalaus og valdeflandi og vinn svolítið út frá karlmannlegum sniðum sem ég yfirfæri á kvenlíkamann. Þótt ég sé hrifin af og noti mikið herðapúða, milda ég áhrifin með því að hafa flíkurnar aðsniðnar í mittið. Þannig eru þær kvenlegar en líka á einhvern hátt karlmannlegar.“

Annars segir Ýr innblásturinn koma til sín úr öllum áttum; úr leikhúsi, kvikmyndum, tónlist og menningunni yfirhöfuð. Þar hefur hún líka markað sér nokkur spor. „Ég hef verið aðstoðarbúningahönnuður hjá Íslensku óperunni og Íslenska dansflokknum, unnið svolítið fyrir RÚV, hannaði til dæmis búningana á kynnana á Eurovision í fyrra, og tekið að mér ýmis verkefni í tengslum við auglýsingar og fleira.“

Girndargripir 2017?

Áður en hún hófst handa við Another Creation tvö, hannaði hún og saumaði búninga fyrir kvikmyndina Halastjörnuna, sem fyrirhugað er að frumsýna í haust og fjallar um líkfundarmálið svokallaða í Neskaupstað. „Starfið er bæði fjölbreytt og skemmtilegt, en ég er alltaf mest í essinu mínu þegar ég hanna og sauma mína eigin fatalínu á vinnustofunni minni,“segir Ýr.

Þess má geta að þegar hún kynnti Another Creation númer eitt til sögunnar á RFF 2015 sagði tískurýnir Morgunblaðsins sýninguna hreinustu bombu „ . . . þar sem hver girndargripurinn rak annan í mergjuðum kokteil af kvenleika og hörku“. Skyldi lína númer tvö framkalla sömu hughrif árið 2017?