[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Júlían Höiriis fæddist 22. mars 1957 í Keflavík og ólst þar upp. Hann dvaldi eitt sumar í sveit hjá dönskum ættmennum sínum í föðurætt. Tómas gekk í Gagnfræðaskóla Keflavíkur og var einnig tvo vetur að Núpi í Dýrafirði.

Tómas Júlían Höiriis fæddist 22. mars 1957 í Keflavík og ólst þar upp. Hann dvaldi eitt sumar í sveit hjá dönskum ættmennum sínum í föðurætt. Tómas gekk í Gagnfræðaskóla Keflavíkur og var einnig tvo vetur að Núpi í Dýrafirði. Hann fór í Iðnskólann í Reykjavík og Keflavík og útskrifaðist sem vélvirki.

Tómas vann hjá Skipadeild SIS sem unglingur og sigldi til Evrópulanda á skipunum Arnarfelli og Hvassafelli. „Ég lærði vélvirkjun í Vélsmiðjunni Óðni í Keflavík og eftir útskrift úr því námi fór ég til Noregs og vann þar á borpöllum í tæp tvö ár. Vann síðan hjá Keflavíkurverktökum á flugvellinum áður en ég gerðist slökkviliðsmaður hjá Varnarliðinu og vann þar í tuttugu ár. Ég lærði sportköfun sem unglingur og stundaði sportköfun og seinna meir sportköfunarkennslu í hartnær 35 ár. Ég starfaði lengi vel í Björgunarsveitinni Stakk úr Keflavík-Njarðvík.“

Tómas stofnaði Sportköfunarskóla Íslands 1997 og Umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn 1995 og hann kom einnig að stofnun Íþróttafélagsins NES árið 1991. Störf Bláa hersins hafa vakið verðskulduaða athygli undanfarna tvo áratugi og hafa samtökin og stofnandi fengið fjöldann allan af viðurkenningum, m.a. náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2014, umhverfisviðurkenningu Pokasjóðs og UMFÍ, umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar og verið þrisvar tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

„Í dag rek ég Bláa herinn og tek þátt í þeirri baráttu sem hann stendur fyrir hverju sinni, stend fyrir fjöruhreinsunarverkefnum, held fyrirlestra, heimsæki skóla og fyrirtæki og skrifa ráðamönnum þjóðarinnar og sveitarstjórnarmönnum hvatningarbréf um að hafa umhverfi sitt eins hreint og hægt er.

Blái herinn hefur hreinsað 1.300 tonn af rusli úr náttúrunni og notað samvinnufúsar hendur yfir 2.500 sjálfboðaliða sem hafa eytt sem næst 54 þúsund vinnustundum í okkar verkefni. Umhverfismál og fjölskyldan á allan minn hug og hjarta í dag.“

Fjölskylda

Maki Tómasar er Magga Hrönn Kjartansdóttir, f. 15 7. 1962, húsmóðir. Foreldrar hennar: hjónin Kjartan Jóhannsson sjómaður, f. 1921, d. 1977 og Nína Sveinsdóttir fiskverkakona, f. 1933, d. 1990. Fyrri maki Tómasar er Sólveig Guðmundsdóttir, f. 22.4. 1959, hjúkrunarfræðingur.

Börn Tómasar og Sólveigar: 1) Eygló Anna, f. 1977, hjúkrunarfræðingur og flugfreyja, maki: Sigurður Stefánsson, f. 1977, flugvirki. Börn: Guðmundur Freyr, f. 2000, Stefán Júlían, f. 2003, Tómas Aron, f. 2010 og Samúel Friðjón, f. 2016. Bús. í Reykjanesbæ; 2) Karen Lind, f. 1984, flugfreyja, maki: Davíð Þór Sveinsson, f. 1988, flugvirki. Barn þeirra er Snædís Lind, f. 2016. Bús. í Reykjanesbæ. Stjúpbörn: 3) Nína Ósk Kristinsdóttir, f. 1985, grunnskólakennari, maki: Guðmundur Gunnarsson, f. 1983, afgreiðslumaður. Börn: Emelía Ósk, f. 2008 og Aníta Ósk, f. 2015. Bús. í Sandgerði; 4) Auður Björg Kristinsdóttir, f. 1987, umönnunarstarfsmaður. Börn: Benóný, f. 2009 og Freyja, f. 2011. Bús. í Noregi; 5) Sabína Siv Sævarsdóttir, f. 1994, umönnunarstarfsmaður, unnusti Ásbjörn Sólberg Pálsson, f. 1990. Barn: Baltasar Sólberg, f. 2016. Bús. í Reykjanesbæ.

Systkini: María Knútsdóttir Bengtsson, f. 1954, bús. í Svíþjóð, Björn Ingi Knútsson, f. 1961, verkefnastjóri, bús. í Kjósinni. Hálfsystkini sammæðra: Ólafur Reynir Sigurjónsson, f. 1944, tollvörður, bús. á Selfossi. Hálfsystkini samfeðra: Atli Rafn Kristinsson, f. 1947, íslenskufræðingur, bús. í Reykjavík; Margrét Elísabet Knútsdóttir, f. 1973, ljósmóðir, bús. í Reykjanesbæ. Uppeldissystkini: Guðmann Héðinsson, f. 1953, smiður, bús. í Reykjanesbæ; Ólafía Héðinsdóttir, f. 1956, ræstitæknir, bús. í Noregi; Sigurjón Héðinsson, f. 1958, bakari, bús. í Reykjanesbæ.

Foreldrar Tómasar: Knútur Höiriis, f. 22.5. 1922, d. 20.4. 1993, stöðvarstjóri Esso á Keflavíkurflugvelli, og k.h. Anna Nikulásdóttir, f. 5.9. 1924, d. 12.4. 2007, húsmóðir í Keflavík, síðar í Svíþjóð. Þau skildu. Stjúpmóðir Tómasar og seinni kona Knúts er Elín Ólöf Guðmannsdóttir, f. 28.7. 1934, fv. skrifstofumær, bús. í Reykjanesbæ.