Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Samþykktar voru á borgarstjórnarfundi í gær þrjár tillögur Sjálfstæðismanna um umferðarmál.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Samþykktar voru á borgarstjórnarfundi í gær þrjár tillögur Sjálfstæðismanna um umferðarmál. Þá fyrstu lagði fram Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi en hún fjallaði um að hafnar yrðu viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut.

Lendi ekki „ofan í skúffu“

Marta segir að mikilvægt sé að halda áfram með undirbúning að lagningu brautarinnar. Hún segist vona að málið lendi ekki „ofan í skúffu,“ líkt og gerst hafi þegar sambærileg tillaga var samþykkt árið 2013.

„Ljúka verður að fullu því umhverfismati sem byrjað var á, gera umferðarlíkan miðað við breyttar forsendur, arðsemismat og velja bestu staðsetningu brautarinnar með tilliti til slíkra forsendna. Þessi undirbúningsvinna tekur sinn tíma. Við megum ekki sofna á verðinum og vakna upp við þann vonda draum að hafa ekki unnið heimavinnuna þegar ekki verður lengur slegið á frest að hefjast handa við þessa samgöngubót,“ segir hún.

Nýtt umferðarlíkan og mislæg gatnamót

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, lagði fram tillögu um að viðræður yrðu hafnar við Vegagerðina um gerð mislægra gatnamóta við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.

Tillagan var samþykkt með þeirri breytingartillögu borgarstjóra að orðin „gerð mislægra“ voru felld út og orðinu „útfærslu“ bætt inn.

Kjartan segir Sjálfstæðismenn ítreka afstöðu sína um mislæg gatnamót enda hafi sérfræðingar Vegagerðarinnar komist að þeirri niðurstöðu. Lögðu Sjálfstæðismenn fram bókun um þessa skoðun sína.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna, lagði fram tillögu um að innleitt yrði nýtt umferðarmódel fyrir Reykjavík og aðliggjandi svæði. Módelið felur í sér að mældir verði og tekið tillit til allra samgöngumáta, m.a. almenningssamgangna, hjólreiða, gangandi umferðar og fyrirhugaðrar borgarlínu.

Þessi tillaga Sjálfstæðismanna var einnig samþykkt af borgarstjórn í gær.