[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Esja er komin í 1:0 í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkíi karla eftir 4:3 sigur á SA í framlengdum leik í Skautahöll Reykjavíkur í gærkvöldi.

Í Laugardal

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Esja er komin í 1:0 í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkíi karla eftir 4:3 sigur á SA í framlengdum leik í Skautahöll Reykjavíkur í gærkvöldi. Esja hafði mikla yfirburði í deildarkeppninni í vetur og héldu eflaust flestir að það væri engin leið til baka fyrir SA, í stöðunni 3:0 fyrir Esju, fyrir síðasta leikhlutann.

Akureyringar gáfust hins vegar ekki upp og skoruðu þeir þrjú mörk í síðasta leikhlutanum og tryggðu sér framlengingu. Þar skoraði Björn Róbert Sigurðarson eina markið og tryggði Esju 4:3 sigur.

„Við héldum að leikurinn væri búinn þegar við komumst 3:0 yfir. Við stigum aðeins til baka og vorum slappir í 3. leikhluta,“ sagði Björn Róbert við Morgunblaðið eftir leik. „Ég reyndi bara að skjóta á markið og ég vonaði það besta, sem betur fer endaði pökkurinn í markinu. Það þurfti eitthvað að gerast og það var mjög sætt að ná að klára þetta svona,“ bætti hann við.

Leikmenn SA eiga mikið hrós skilið fyrir að gefast ekki upp í síðasta leikhlutanum og búa til ansi spennandi leik þegar flestir héldu að öruggur sigur Esju yrði raunin. Esja vann sjö af átta leikjum liðanna í deildinni í vetur og hefðu einhver lið farið að vorkenna sér í stöðunni 3:0, það var hins vegar ekki raunin með SA í gær.

Esja byrjaði leikinn af miklum krafti og var það aðeins tímaspursmál hvenær deildarmeistararnir myndu koma sér yfir. Esjumenn sköpuðu sér fjölmörg færi eftir það og var 3:0 staðan eftir 2. leikhluta algjörlega verðskulduð, og hefði munurinn hæglega getað verið stærri.

Meistararnir slökuðu hins vegar á í síðasta leikhlutanum og virtust þeir ætla að verja forskotið sitt, frekar en að reyna að bæta í og halda áfram því sem hafði virkað svo vel í fyrstu tveim leikhlutunum. SA gekk á lagið og með góðri spilamennsku náðu gestirnir að jafna leikinn.

,,Við vorum undir og ætluðum ekki að láta valta yfir okkur, við náum að jafna leikinn og við höfðum smámeðbyr. Það var því mjög leiðinlegt að missa þetta niður í framlengingunni. Framlengingin er hálfgert lottó og skotið fór í gegnum nokkra menn og í stöngina og inn,“ sagði Sigurður Sigurðsson, leikmaður SA, við Morgunblaðið eftir leik.

Endurkoman í gær ætti að gefa SA mikið sjálfstraust fyrir annan leikinn, sem fram fer á Akureyri á fimmtudaginn kemur. SA er ríkjandi Íslandsmeistari og liðið getur alveg strítt Esju og rúmlega það. Það þarf hins vegar að byrja frá byrjun, en SA virtist bera full mikla virðingu fyrir Esju í byrjun leiks.

Mörk/stoðsendingar Esju : Pétur Maack 1/2, Egill Þormóðsson 1/1, Björn Róbert Sigurðarson 1/1, Patrik Podsednicek 1/0, Ólafur Björnsson 0/1.

Mörk/stoðsendingar SA: Jussi Sipponen 2/0, Jóhann Leifsson 1/0, Sigurður Sigurðsson 0/1, Orri Blöndal 0/1, Jón Gíslason 0/1.