Methafi Anton Sveinn McKee setti skólamet vestan hafs.
Methafi Anton Sveinn McKee setti skólamet vestan hafs. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján Jónsson kris@mbl.is Anton Sveinn McKee úr Ægi náði um helgina besta árangri íslensks sundfólks í einstaklingsgrein í bandaríska háskólasundinu. Anton hafnaði í 2.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Anton Sveinn McKee úr Ægi náði um helgina besta árangri íslensks sundfólks í einstaklingsgrein í bandaríska háskólasundinu. Anton hafnaði í 2. sæti í 200 yarda bringusundi á lokamóti NCAA sem er skammstöfun fyrir bandarísku háskólaíþróttirnar.

Anton bætti sinn besta tíma í greininni ef miðað er við yarda eins og gert er í Bandaríkjunum. Synti hann á 1:51,22 mínútum og setti skólamet en Anton keppir fyrir Alabama-háskólann.

Ljóst er að um mjög góðan tíma er að ræða á mælikvarða háskólasundsins en þar keppir töluverður fjöldi sundfólks sem keppt hefur á Ólympíuleikum eða er á góðri leið með að komast í þann gæðaflokk. Frá 2004 eru einungis átta sundmenn sem synt hafa á betri tíma í 200 yarda bringusundi í NCAA.

Um er að ræða besta tíma Antons í Bandaríkjunum en hann hefur þó áður synt svipað hratt. Var það árið 2014 en þá synti Anton á 1:51,59 mínútum á lokamótinu í þeim riðli sem Alabama-skólinn keppir í. Á lokamóti NCAA árið 2014 hafnaði Anton í 4. sæti.

Framganga Antons ætti að lofa góðu fyrir árið en í sumar er heimsmeistaramót á dagskrá í sundinu svo eitthvað sé nefnt. Anton er að ljúka fjórða og síðasta ári sínu í háskólasundinu vestan hafs og óljóst hvað tekur við hjá honum næsta vetur.