Djúpur Jóhann Sigurðarson á æfingu með The Saints of Boogie Street í Salnum. Jóhann er með djúpa söngrödd og ætti því að geta líkt eftir Cohen.
Djúpur Jóhann Sigurðarson á æfingu með The Saints of Boogie Street í Salnum. Jóhann er með djúpa söngrödd og ætti því að geta líkt eftir Cohen. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Hljómsveitin The Saints of Boogie Street heldur tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld kl. 21.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hljómsveitin The Saints of Boogie Street heldur tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld kl. 21. Hljómsveitin var stofnuð árið 2011 til heiðurs kanadíska söngvaranum, skáldinu og lagahöfundinum Leonard Cohen sem lést 7. nóvember síðastliðinn, 82 ára að aldri, nokkrum vikum eftir að fjórtánda hljóðversplata hans, You Want It Darker , kom út.

Stofnandi The Saints of Boogie Street er Soffía Karlsdóttir söngkona sem mun vera einn heitasti aðdáandi Cohens hér á landi og fékk hún til liðs við sig söngkonuna Esther Jökulsdóttur og fleiri vini sína úr tónlistarbransanum.

Hljómsveitin flytur eingöngu lög eftir Cohen og gaf árið 2012 út plötu með flutningi sínum á 15 lögum meistarans. Hét sú Leonard Cohen Covered og fylgdi hljómsveitin útgáfunni eftir með tónleikahaldi víða um land á árunum 2012-15.

Hljómsveitina skipa Pétur Valgarð Pétursson gítarleikari, Ingólfur Sigurðsson trommuleikari, Davíð Atli Jones bassaleikari og Kristinn Einarsson píanóleikari og söngkonur eru þær Soffía og Esther, sem fyrr segir.

Saman á ný

„Þetta eru allt saman frábærir tónlistarmenn sem komu að gerð þessarar plötu og núna á tónleikunum verðum við öll saman á ný; ég, Soffía og systir Soffíu, Guðrún Árný, sem léði okkur rödd sína á plötunni,“ segir Esther um plötuna og tónleikana. Þegar liðsmenn hljómsveitarinnar fréttu af andláti Cohen hafi þeir ákveðið að koma saman á ný og halda tónleika honum til heiðurs.

„Það sem er öðruvísi við þennan disk er að það eru tvær konur sem syngja allt efnið! Cohen elskaði konur, hann með allar sínar hetjuímyndir sem hann söng til heiðurs. Hvað var þá annað betra en að það væru konur sem flyttu lögin hans?“ segir Esther. Hörðustu aðdáendur Cohens hafi verið hæstánægðir með þetta fyrirkomulag og ferðamenn sem komu á tónleika hljómsveitarinnar yfir sig hrifnir.

Jóhann syngur með

Á tónleikunum í kvöld verða öll lögin af plötunni flutt í heild sinni auk fleiri laga sem hafa bæst við á efnisskrána, að sögn Estherar. Guðrún Árný verður gestur hljómsveitarinnar og syngur nokkur lög og einnig Karl Friðrik Hjaltason, 23 ára sonur Soffíu. Þá mun Jóhann Sigurðarson, leikari og söngvari, verða með á tónleikunum og syngja nokkur lög eftir Cohen.

„Það er okkur mikil ánægja að fá hann Jóa til liðs við okkur með sína frábæru, þykku, djúpu og kraftmiklu rödd sem vegur vel upp á móti okkur Soffíu,“ segir Esther um leikarann raddfagra.