Grímur Sæmundsen
Grímur Sæmundsen
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Okkur er gefin sú skýring að verið sé að slá tvær flugur í einu höggi, að auka tekjur ríkissjóðs og koma böndum á fjölgun erlendra ferðamanna. Sú aðferðafræði er galin að okkar mati.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Okkur er gefin sú skýring að verið sé að slá tvær flugur í einu höggi, að auka tekjur ríkissjóðs og koma böndum á fjölgun erlendra ferðamanna. Sú aðferðafræði er galin að okkar mati. Má vera að það dragi úr fjölgun ferðamanna en eyðileggur um leið afkomu fyrirtækjanna sem sinna ferðamönnum,“ segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, um boðaða hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu.

Hækkun virðisaukaskatts úr 11% í 22,5% mun á árinu 2019, þegar hækkunin verður komin til framkvæmda á heilu ári, skila 16-20 nýjum milljörðum í ríkissjóð. „Hvaða atvinnugrein getur tekið við slíkum kaleik?“ segir Grímur og bendir á að stutt sé síðan 11% virðisaukaskattur hafi verið lagður á greinina og fyrirtækin enn að jafna sig á því. Þá gagnrýnir hann hvernig staðið er að breytingunum. Ekkert samráð hafi verið haft við ferðaþjónustuna.

Alvarleg áhrif á hæfni

„Að fallið verði frá þessum áformum. Fyrirtækin í greininni þola hækkunina ekki. Önnur krafa er að áhrif hennar á fyrirtækin verði greind. Ég tel ljóst að hún muni hafa alvarleg áhrif á samkeppnishæfni greinarinnar í alþjóðlegu samhengi,“ segir Grímur, spurður um kröfur Samtaka ferðaþjónustunnar til ríkisvaldsins.

Hann heldur áfram: „Afkoma fyrirtækjanna er slök. Menn átta sig ekki á því að það er ekki línulegt samhengi milli afkomu fyrirtækjanna og fjölda ferðamanna. Það sést á því að afkoman var mun betri á árinu 2015 en 2016 þótt ferðamönnum hafi fjölgað mikið 2016. Það sýnir skilningsleysi að ganga fram með tekjuáform sem eru algerlega óraunhæf. Greinin er að skila 90 milljörðum króna til þjóðarbúsins í ár og vonandi meira á næsta ári, ef rekstrarskilyrði verða stöðug,“ segir formaðurinn.

Verst fyrir minni fyrirtæki

Hann telur að áhrifin verði áþreifanlegust á landsbyggðinni. „Fjárfesting á þessum vaxtarsvæðum mun leggjast af. Þá mun skatturinn skekkja enn frekar samkeppnisstöðu gististarfsemi gagnvart ólöglegri gistingu. Þá mun þessi breyting koma verst við lítil og meðalstór fyrirtæki. Langstærsti hluti fyrirtækja í ferðaþjónustu er með 10 starfsmenn eða færri. Þessi fyrirtæki verða gjaldþrota eða þurfa að hagræða sem þýðir fækkun um hundruð eða þúsundir starfa,“ segir Grímur.