<strong>Nýjung </strong>&bdquo;Við erum að framleiða sjóstakkinn úr nýjum efnum sem eru í senn þjálli og sterkari en áður, en það hefur verið mikil framþróun í efnunum. Svo eru ýmsir hönnunarlegir þættir í þessum nýja sjóstakk sem eru frábrugðnir því sem var,&ldquo; segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjóklæðagerðarinnar 66°Norður.
Nýjung „Við erum að framleiða sjóstakkinn úr nýjum efnum sem eru í senn þjálli og sterkari en áður, en það hefur verið mikil framþróun í efnunum. Svo eru ýmsir hönnunarlegir þættir í þessum nýja sjóstakk sem eru frábrugðnir því sem var,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjóklæðagerðarinnar 66°Norður. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjóstakkurinn frá 66°Norður hefur fylgt íslenskum sjómönnum um áratugaskeið. Þótt sígild skjólflík sé til sjós er stöðugt verið að bæta sjógallann og snemma marsmánaðar var gallinn kynntur í talsvert nýrri mynd, eins og Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, segir frá.

Sjógallinn er í reynd fyrsta varan sem fyrirtækið framleiddi í upphafi reksturs síns og því eiginleg grundvallarvara,“ eins og Helgi Rúnar bendir á.

„Fyrirtækið hóf starfsemi árið 1926 á Suðureyri við Súgandafjörð, og það var frumkvöðull að nafni Hans Kristjánsson sem setti fyrirtækið á laggirnar í kjölfar þess að læra sjóklæðagerð í Noregi. Hann kom svo til baka og hóf að sauma sjóstakka,“ rekur forstjórinn, auðheyrilega vel heima í sögu fyrirtækisins.

Spurður hvort hann viti hvaða efni hafi verið í sjóstökkunum í þá daga segist hann ekki hafa fulla vissu fyrir því en telji engu að síður að það hafi verið einhvers konar olíu- eða vaxborið bómullarefni. „Tæknin við efnaframleiðslu var skiljanlega ekki komin á það stig sem hún er á í dag.“

Margs konar breytingar og nýjungar á sjóstakknum

Þegar talið berst svo að nýja gallanum sem kynntur var fyrst opinberlega 10. mars bendir Helgi Rúnar á að fjölmargt sé nýtt við gallann.

„Bæði erum við að framleiða hann úr nýjum efnum sem eru í senn þjálli og sterkari, en það hefur verið mikil framþróun í efnunum. Svo eru ýmsir hönnunarlegir þættir í þessum nýja sjóstakk sem eru frábrugðnir því sem var. Það er til dæmis gaman að segja frá því að sjóstakkurinn, sem er okkar fyrsta vara eins og framar greindi, var einfaldlega vinnufatnaður en hin seinni ár hefur línan okkar af hvers kyns fatnaði þróast úr hreinræktuðum fatnaði yfir í að vera lífsstílsfatnaður í bland. Þarna blandast þetta saman, og sem dæmi um þetta nefni ég að þegar við hófum að framleiða úlpur var það aðallega hugsað fyrir vinnandi stéttir. Svo gerist það að fólk fer að nota úlpurnar dags daglega. Við þekkjum það líka að fólk sem er í hestamennsku notar oft sjóstakkana okkar þegar það er að ríða út í blautu veðri. Fötin fara yfir í aðra notkun en upphaflega var lagt upp með,“ bætir Helgi Rúnar við.

Hönnun og tækni fer í hring

Árið 1928 hóf svo Sjóklæðagerðin að framleiða skjólfatnað á björgunarsveitirnar og í þá daga voru sveitirnar aðallega að fást við björgun á sjó, eins og Helgi útskýrir.

„Svo þróast starfsemi þeirra og því kröfurnar aðrar en þær voru árið 1928. Við byrjuðum því að þróa galla sem þurfa að vera þjálli, þurfa að þola efni á borð við fiskiolíu, þurfa að þola frost og þíðu á víxl. Því er verið að þróa vöru fyrir mjög sérstakar og krefjandi aðstæður þegar þróaður er skjólfatnaður fyrir sjómennsku. Það sem gerist síðan er að við förum að þróa útivistarfatnað sem kallar á allt annars konar tækni, en það sem gerist við hönnun nýja sjóstakksins er að tæknin við að hanna og sauma ermarnar á útivistarfatnaði er komin hringinn aftur í sjóstakkinn. Sjóstakkurinn gamli þróaðist þannig í að verða útivistarfatnaður og nú er útivistarfatnaðurinn farinn að þróast yfir í nýja sjóstakkinn á ný.“ Máli sínu til stuðnings nefnir hann að nýi sjógallinn er einnig búinn nýjum vösum og hólfum fyrir tæki sem voru einfaldlega ekki til fyrir fáeinum árum, á borð við snjallsíma. „Þetta vilja menn geta haft innan á sér við störfin um borð og ekki annað að gera en að verða við því.“

Löng og ströng þróun vörunnar

Það tekur ekki langan tíma að koma merktum stuttermabol úr bómull á markaðinn en öðru máli gegnir um tæknilegt efni á borð við það sem er í sjóstakknum nýja.

„Þá er þetta margra mánaða biðtími eftir efnum í kjölfar teikninga og hönnunar, og svo eru prófanir í kjölfarið þegar við teljum okkur komna með eitthvað í hendurnar sem er nálægt því að vera endanleg vara. Þar koma raunverulegir sjómenn til skjalanna sem prófa vöruna við raunverulegar aðstæður. Sjóstakkurinn sem kom fyrr í mánuðinum á markaðinn er því vara sem sjómenn hafa þrautreynt,“ segir Helgi Rúnar að endingu.

jonagnar@mbl.is