Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Gerð landfyllingar eins og áformuð er á Akranesi mun taka langan tíma, mögulega allt að fjögur ár.
Að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna sf., þarf að breyta aðalskipulagi Akraness og vinna deiliskipulag. Þá þarf að vinna umhverfisfyrirspurn og bíða úrskurðar Skipulagsstofnunar um það hvort verkefnið sé umhverfismatsskylt. „Ætla má að undirbúningur geti tekið 2 ár og framkvæmd allra verkþátta a.m.k annað eins. Vera kann að einhverjir verkþættir innan hafnar geti tekið skemmri tíma,“ segir Gísli.
Þegar mögulegur flutningur á vinnslu HB Granda upp á Akranes var til skoðunar seinni hluta árs 2014 var um það rætt að landfyllingin við Akraneshöfn yrði 70 þúsund fermetrar. Nú er rætt um minni landfyllingu, eða 40 þúsund fermetra.
„Upphafleg beiðni var um stærra svæði, en eftir betri greiningu á þörfinni og umræðu um umhverfismál var ljóst að mun minni landfylling myndi nægja starfseminni,“ segir Gísli.
Áætlaður kostnaður við landfyllinguna var 1,7 til 2,1 milljarður árið 2014. Miðað við minni landfyllingu yrði kostnaður væntanlega lægri. Á móti kæmi að á landfyllingunni yrðu til verðmætar lóðir.
Eins og fram hefur komið í fréttum kom fyrst til tals árið 2007 að HB Grandi myndi flytja landvinnslu á botnfiski til Akraness og reisa fiskvinnsluhús á landfyllingunni. Þessi umræða kom upp að nýju árið 2014.
Samkomulag er forsenda
„Það er forsenda ákvörðunar um framkvæmdir að samkomulag liggi fyrir milli Faxaflóahafna, HB Granda og Akraness. Nú eigum við eftir að fá viðbrögð bæði hvað það varðar og hvort fyrirliggjandi útfærsla uppfylli þarfir HB Granda,“ segir Gísli.Faxaflóahafnir yrðu framkvæmdaaðili verksins ef til kemur. Væntanlega myndu hafnirnar gera það að skilyrði að HB Grandi gerði langtímasamning um aðstöðuna.
Næsti fundur stjórnar Faxaflóahafna verður 12. apríl n.k. Þar verður málið væntanlega til umræðu. Fyrir liggur samþykkt stjórnarinnar frá 2014 um að ganga til viðræðna við Akraneskaupstað og HB Granda og hún stendur enn.